top of page

Umsögn við tillögur er varða hatursorðræðu og ærumeiðingar

sigridur-jonsdottir-nov-18

Sigríður Jónsdóttir


Tabúkonan Sigríður Jónsdóttir sendi ítarlega umsögn til nefndar um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Í umsögninni koma fram alvarlegar athugasemdir við tillögur er varða hatursorðræðu og ærumeiðingar. Hér er birtur formáli umsagnarinnar en hægt er að hlaða niður umsögninni í heild sinni hér: Umsögn um hatursorðræðu og ærumeiðingar í heild sinni (pdf)

———————————————————————

Í upphafi er áréttað það sjónarmið að lýðræðisumbætur séu nauðsynlegar á Íslandi, einkum styrking tjáningarfrelsis er varðar útgáfu og fjölmiðlafrelsi, sem var kjarni umboðs nefndarinnar. Efling ákvæða sem varða hatursorðræðu á að haldast í hendur við þau markmið. Hinsvegar er afar alvarlegt ef hugmyndum um tjáningarfrelsi og hatursorðræðu er stillt upp sem útilokandi andstæðum eins og gert er í framsetningu tillaganna og kynningum nefndarmanna á þeim í fjölmiðlum, með þeim skilaboðum að nauðsynlegt sé að leyfa óskilgreinda hatursorðræðu í einhverju mæli og draga úr refsi- og réttarvernd jaðarsettra hópa svo hægt sé að tala um tjáningarfrelsi. Þessi framsetning skaðar upphaflegt markmið og nauðsynlega endurskoðun laga er varðar útgáfu- og fjölmiðlafrelsi.

Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur tekið saman skýrslu með yfirskriftinni Hatursorðræða. Yfirlit yfir gildandi lög og reglur – ábendingar til framtíðar(Jóna Aðalheiður Pálmadóttir og Iuliana Kalenikova, 2013) – hér eftir nefnd „skýrsla MRSÍ“. Í skýrslunni koma fram fjölmargar ábendingar til stjórnvalda um nauðsynlegar úrbætur og aðgerðir til lýðræðisumbóta m.t.t. styrkingar ákvæða um hatursorðræðu og tjáningarfrelsi, m.a. með ítarlegri umfjöllun um alvarlegar athugasemdir sem nefndir á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa komið á framfæri við íslensk stjórnvöld við athugun á stöðu mannréttindamála á Íslandi og framfylgd ríkisins við skuldbindingar Íslands gagnvart alþjóðlegum mannréttindasamningum og -sáttmálum.

Á hádegismálþingi í Lögbergi í Háskóla Íslands, miðvikudaginn 7. nóvember s.l., staðfesti formaður nefndarinnar að nefndin hefði lesið skýrslu MRSÍ og vissi af tilvist hennar. Í því ljósi verður það að teljast grafalvarleg og afhjúpandi staðreynd að ekki er á skýrsluna minnst í tillögum nefndarinnar. Enn alvarlegra er að tillögur nefndarinnar sem snúa að hatursorðræðu, ærumeiðingum og refsiákvæðum 233 gr. a í lögum nr. 19/1940 og túlkun þeirra í greinargerð, skýringum og í kynningum nefndarmanna í fjölmiðlum gengur í berhögg við niðurstöður skýrslunnar og ábendingar eftirlirsnefnda Sameinuðu þjóðanna, sem kalla eftir aukinni refsi- og réttarvernd til handa jaðarsettum einstaklingum og hópum, en ekki að dregið sé úr henni!

Það er hrollvekjandi staðreynd fyrir einstakling, sem skilgreinir sig sem jaðarsettan, að nefndin hafi kosið að hunsa skýrslu MRSÍ og þær ábendingar sem í henni eru.

Sigríður Jónsdóttir baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks meðlimur í Tabú, femínískri hreyfingu fatlaðra kvenna Diplóma í Hagnýtri jafnréttisfræði frá HÍ Viðskiptafræðingur frá HÍ MM Mannes College, New York BM University of Illinois, Urbana

Hægt er að hafa samband við Sigríði Jónsdóttur í gegnum netfangið solbraut@simnet.is 

18 views

Recent Posts

See All
bottom of page