top of page

Yfirlýsing Tabúkvenna til borgarstjórnar vegna fyrirhugaðrar vistunar barna og ungmenna á Kópavogshæ

Föstudaginn 9. september sl. birti Friðrik Sigurðsson, sem starfar fyrir Þroskahjálp, pistil undir heitinu Uppbygging Kópavogshælis? þar sem hann spyrst fyrir um hvort rétt sé að vista eigi fötluð ungmenni á Kópavogshæli til bráðabirgða á meðan varanlegt úrræði (svokallað) er gert tilbúið. Tabú krefst einnig svara við þessari fyrirspurn enda málið grafalvarlegt ef rétt reynist. Við höfum upplýsingar um að í þessum hópi séu börn.

Síðastliðinn þriðjudag, þann 13. september, var lögð fram á Alþingi stjórnartillaga um fullgildingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn gerir þá kröfu til aðildarríkja að endi verði bundinn á stofnannavistun fatlaðs fólks og að það hafi val um hvar það býr, með hverjum og hver aðstoðar það. Við bendum á að hugmynd borgarstjórnar eða starfsmanna hennar felur í sér gróft brot á alþjóðlegum skuldbindingum um mannréttindi fatlaðs fólks samkvæmt Samningnum. Engu skiptir hvort um tímabundið eða varanlegt úrræði er að ræða.

Kópavogshæli var staður sem á að tilheyra fortíðinni, fortíð sem á aldrei að endurtaka. Á Kópavogshæli voru fötluð börn send á árum áður, oft gegn vilja foreldra, þar sem þau bjuggu mörg hver við óviðunandi og ómannúðlegar aðstæður. Sama gilti um fullorðið fatlað fólk. Þessu fólki hefði fyrir löngu átt að bjóða skaðabætur og opinbera afsökun frá stjórnvöldum vegna dvalar þeirra þar og þeim skaða sem það varð fyrir vegna þeirrar meðferðar sem það sætti og er jafnvel enn að glíma við afleiðingar af. Það er því einnig siðlaust, í sögulegu ljósi, að láta sér detta þetta „úrræði“ í hug. Engu skiptir hvort þjónustan þar yrði öðruvísi nú. Þessi saga Kópavogshælis er svartur blettur á íslensku samfélagi og mótar sjálfsmynd okkar flestra sem erum fötluð, hvort sem við dvöldum þar eða ekki. Myndum við senda stúlkur aftur á Kleppjárnsreyki vegna úrræðaleysis, eða drengi til Breiðavíkur í ljósi sögu þessara staða?

Tabú mótmælir harðlega öllum fyrirætlunum um vistun barna, ungmenna og fullorðins fólks á Kópavogshæli og krefst þess að önnur lausn verði fundin strax, lausn sem samræmist þeim mannréttindum sem fatlað fólk, börn og fullorðnir, eiga tilkall til.

Fyrir hönd Tabúkvenna,

Ásdís Úlfarsdóttir

Bára Halldórsdóttir

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

Erla B. Hilmarsdóttir

Freyja Haraldsdóttir

Guðbjörg Garðarsdóttir

Hrafnhildur Kristbjörnsdóttir

Inga Björk Bjarnadóttir

Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir

Margrét Ýr Einarsdóttir

María Hreiðarsdóttir

Rán Birgisdóttir

Salóme Mist Kristjánsdóttir

Sigríður Jónsdóttir

Þorbera Fjölnisdóttir

Þórey Maren Sigurðardóttir

Ljósmynd: Alda Villiljós

9 views

Comments


bottom of page