top of page

Að óttast jólasveina á þrítugsaldri

Sem börn áttum við það sameiginlegt að vera logandi hræddar við jólasveina. Önnur var hrædd við allar manneskjur í búningum og hin við hávaðaseggi sem höfðu hvella rödd og skelltu hurðum. Slík hræðsla er ekki óalgeng meðal barna en vanalega er það nú þannig að hún rjátlar af okkur er við þroskumst, eldumst og komumst í raun um sannleikann. Það gildir þó ekki um okkur og þegar nálgast jólin hefst andlegur undirbúningur fyrir að jólasveinarnir komi til byggða og við höfum varann á við öll þau tilefni sem við gætum rekist á þá.

Við vitum að ákveðin svæði eru hættulegri en önnur. Verslunarmiðstöðvar eru vanalega varasamar, svo ekki sé minnst á jólamarkaði, þar sem líkurnar á að hitta jólasveina eru yfirgnæfandi. Þetta getur gert aðventuna og jólaundirbúning flókinn og krefst þess að við grandskoðum auglýsingar og dagskrá yfir jólaviðburði á þessum stöðum. Þannig getum við skipulagt ferðir okkar með það fyrir augum að verða ekki á vegi sveinka. Ikea hefur auðveldað okkur ómakið með því að auglýsa sérstaklega viðveru jólasveinsins í verslunni allar helgar fram að jólum milli kl. 13:00-17:00 svo þá vitum við að okkur er óhætt á virkum dögum.

Bræðurnir þrettán geta þó verið ófyrirsjáanlegir og stungið upp kollinum á hinum ýmsu tímum án þess að láta kóng né prest vita. Þeir eru jafnframt á stöðum sem við komumst ekki undan að vera á þrátt fyrir að vita af þeim fyrirfram, t.d. ef við störfum með börnum. Þá eru góð ráð dýr. Hugurinn fer á flug við að reyna að búa til viðbragðsáætlun sem hentar aðstæðum og veldur sem minnstum usla. Við spyrjum okkur hvort við eigum að vera eða fara. Ef við ætlum að vera þurfum við að finna okkur stað þar sem lítið ber á okkur og ákveða hvernig við ætlum að bregðast við ef allt fer í óefni. Ef við ætlum að fara þurfum við að komast í burtu laumulega og vita hvert við ætlum svo við getum verið nógu lengi til þess að jólasveinninn sé pottþétt farinn þegar við komum úr felum.

En af hverju látum við svona? Erum við virkilega, á þrítugsaldri, ennþá hræddar við fólk í búningum og hávaðaseggi með hvella rödd sem skella hurðum? Nei, nei.

Hér koma dæmisögur úr okkar lífi.

Embla: Ég var stödd á barnaspítalanum fyrir þremur árum að heimsækja son vinkonu minnar sem að hafði nýverið fengið heilablóðfall. Ég var þreytt eftir langan vinnudag og áhyggjufull yfir veikindunum. Ég er ekki búin að vera lengi hjá þeim þegar sjúkraliði kemur til segja okkur að von sé á jólasveinum. Það glaðnar yfir drengnum. „Shit“ hugsa ég. „Á ég að fara eða vera? Jólasveinar gefa mér alltaf nammi. En ég verð umkringd veikum börnum, þeir hljóta að sjá að ég er fullorðin og ekki í hópi þeirra sem á að skemmta. Auk þess er ég í dragt!“ Ég ákveð að vera. Börnin safnast saman á ganginum, spennt að hitta sveinka. Ég tek mér stöðu fyrir aftan börnin, þar sem aðstandendurnir standa. Ég er eiginlega komin hálf inn á klósett til að láta sem minnst fyrir mér fara. Loks mæta þeir með viðeigandi látum. Þeir spjalla við börnin og gefa nammipoka. Ég er með hjartað í buxunum. Ætli ég sleppi í þetta skiptið? Allir eru komnir með poka og ég er í þann mund að veiða hjartað úr buxunum þegar einn jólasveinanna kemur auga á mig „NEI ÉG ÆTLA EKKI AÐ GLEYMA ÞESSARI!!“ segir hann hátt og snjallt og treður sér gegnum barnahópinn og réttir mér nammipoka. „Andskotinn, hvað á ég að gera? Ég get ekki skemmt þessa stund fyrir börnunum en ég get ekki látið þetta yfir mig ganga! Ó shit, hvað á ég að gera? Ég get ekkert gert.“ hugsa ég. „Djöfull er ég ógeðslega kúguð!“

Freyja: Það er fimmtudagskvöld rétt fyrir jólin og ég ætla að klára jólagjafirnar. Ég hafði séð að ýmis jólaskemmtun færi fram um helgina, m.a. jólasveinar, svo ég ákveð að vera búin að sinna mínum erindagjörðum þá og taldi mig örugga að kvöldi til. Er ég er í rólegheitum að rúlla mér eftir ganginum sé ég hóp af fólki, aðallega börn, fyrir neðan rúllustigann. Ég lít upp og þar eru tveir rauðklæddir jólasveinar með svarta ruslapoka, eiturhressir, að koma með látum niður. Ég fæ hnút í magann. „Ég get ekki verið hérna,“ hugsa ég og segi aðstoðarkonu minni að drífa sig inn í apótekið því það var það eina sem mér datt í hug. Ég segist vilja skoða hárvörurnar því þær voru innst og þar vissi ég að ég yrði örugg. Á bakvið hillur af sjampói húkti ég í nokkrar mínútur sem virtust heil eilífð. „Hvað í andskotanum var ég að pæla? Af hverju er ég að flýja jólasvein? Hvers vegna segi ég ekki bara við hann, ef hann einu sinni enn talar við mig eins og barn, gefur mér mandarínu og strýkur mér um vangann, að ég sé fullorðin, þetta sé óviðeigandi og að hann eigi að vera að sinna börnum?“ hugsa ég. Ég skammast mín. En í bland við skömmina er þreyta, uppgjöf og fullkomin meðvitund um að þó ég myndi basla við að leiðrétta rangfærsluna og takast á við niðurlæginguna sem því fylgdi, myndi það hafa lítið upp á sig. Og líklega myndi ég bara brosa, fjarlægja hugann frá líkamanum og láta þetta yfir mig ganga. En ég vissi ekki hvort var verra. Það eða að fela mig á bakvið búðarrekka í apóteki. Þetta var alltaf töpuð barátta. „Djöfull er ég ógeðslega kúguð!“ segi ég reið við sjálfa mig.

Dæmin eru mörg og skrautleg og ekki langt síðan við deildum þeim hvor með annarri. Við þurftum ekkert að útskýra. Önnur minntist á þetta og hin sagði mæðulega „Já, jólasveinar, þeir eru vesen.“ Ótti okkar við jólasveininn er í dag fólginn í því að hann á það til að stimpla okkur sem eilíf börn og þannig niðurlægja okkur og kenna börnum að fatlað fólk verði ekki fullorðið. Sumir jólasveinar eru þó betur upplýstir en aðrir og er það alltaf mikill léttir. Við biðlum því til þeirra að fræða bræður sína á sumrin og markvisst undirbúa þá fyrir mannlegan margbreytileika. Grýla og Leppalúði voru kannski svolítið af gamla skólanum og því ekki víst að jólasveinarnir hafi fengið fjölmenningarlegt uppeldi. En við erum orðnar lúnar á að gera viðbragðsáætlanir á aðventunni, þiggja nammi barna, fela okkur á bakvið úrval sjampóbrúsa og ala upp jólasveina. Þeir verða að taka þetta í sínar hendur. Við óttumst nefnilega ekkert meira en að þegar við verðum orðnar mæður þurfi börnin okkar annað hvort að keppast við okkur um athygli jólasveinsins eða vera í felum með klikkuðum mömmum milli fatarekka í Kringlunni. Það gengur ekki.

Gleðileg jól.

8 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page