top of page

Aktivismi Tabú

Samfélagsmiðlaherferðin 'Fatlað fólk á rétt á vernd gegn ofbeldi' fór fram haustið 2020 í kjölfar þess að þroskaþjálfi var dæmdur sekur í héraðsdómi fyrir að beita fatlað barn á leikskóla ofbeldi án nokkurrar refsingar. Daglega birtust myndir á samfélagmiðlum, hannaðar af Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur, með tilvitnunum í Tabú systur. ​Í kjölfarið túlkaði listakonan Jana Birta Björnsdóttir tilvitnanirnar með málverkum. 

Mynd 1.png
#ÉgStyðFreyju

Tabú fór fyrst af stað með herferðina #ÉgStyðFreyju árið 2018 þegar mál Freyju Haraldsdóttur gegn Barnaverndarstofu fór fyrir Héraðsdóm. Barátta Freyju fyrir réttlátri málsmeðferð fór fyrir öll dómstig landsins og endaði með tímamótasigri Freyju bæði í Landsrétti og Hæstarétti. Herferð Tabú í tengslum við málið fór fram á netinu og í dómssal og fólst meðal annars í því að fatlaðar mæður fjölmenntu í Hæstarétt í bolum sem á stóð 'Ég er fötluð mamma'.

2019-10-23 11.05.22.jpg
#ÉgErEkkiEin

Í nóvember 2015 birtist umfjöllun í Kastljósi um tvær konur með þroskahömlun sem leituðu til lögreglu vegna kynferðisofbeldis sem þær voru beittar á Nýja-bæ. Ríkissaksóknari ákvað að láta málið niður falla án þess að það færi fyrir dómstóla. Vakti þessi ákvörðun mikla reiði innan Tabú og Kvennahreyfingar ÖBÍ sem skipulögðu í sameiningu mótmælagöngu þar sem fatlaðar konur gengu milli innanríkisráðuneytisins, velferðarráðuneytisins og Alþingis og afhentu kröfuryfirlýsingu.

Ho%CC%81pmynd%20inni%20a%CC%81%20Al%C3%B
Druslugangan

​Í tvígang hefur hópur Tabúkvenna gengið saman í Druslugöngunni í Reykjavík. Fyrst árið 2014 og aftur 2016. Í fyrra skiptið leiddi hópur Tabú gönguna ásamt skipuleggjendum auk þess sem að önnur talskona Tabú, Embla, flutti ræðu á Austurvelli að göngunni lokinni um ofbeldi gegn fötluðum konum. Skilaboð Tabúkvenna í göngunni hafa verið fjölbreytt og snúið bæði að ofbeldi en einnig að kynfrelsi fatlaðs fólks.

DSC_7212.JPG
#HeimaHjáMér

Vorið 2016 fór herferðin #HeimaHjáMér fram til stuðnings Benedikt H. Bjarnason og Salbjörgu Atladóttur sem bæði höfðuðu mál gegn Reykjavíkurborg vegna skorts á viðeigandi þjónustu. Fatlað fólk sem býr við þau réttindi að búa heima hjá sér með aðstoð deildi reynslu sinni í gegnum greinaskrif til að vekja athygli á því misrétti sem á sér stað við úthlutun þjónustu. 

Heimahjámér.jpg
Jafnréttisdagar HÍ

Tabú hefur reglulega tekið þátt í Jafnréttisdögum Háskóla Íslands. Hafa meðal annars verið settar upp sýningar á veggi háskólans um herferðina 'Í fréttum er þetta helst' sem Tabú stóð fyrir árið 2014 og aðra starfsemi Tabú. Eins hafa fulltrúar Tabú staðið fyrir viðburðum á jafnréttisdögum um stöðu fatlaðs fólks, ofbeldi og aðgengi fatlaðs fólks að menntun og atvinnu. 

Fatlaðar konur skila skömminni folk a s
Í fréttum er þetta helst

Herferðin 'Í fréttum er þetta helst' var fyrsta herferð Tabú og fór fram vorið 2014. Herferðin hófst með pistli Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur ‘Lætur píkuna ekki aftra sér’ þar sem hún fjallaði um þá orðræðu sem ríkir í fjölmiðlum um fatlað fólk. Í kjölfarið birti Tabú myndaalbúm á facebook þar sem safnað var saman Íslenskum hetjufréttum af fötluðu fólki.

Mynd 19.png

Viltu leggja baráttunni lið?

bottom of page