top of page

Druslugangan 2016: „Mikið er hann duglegur að vera giftur fatlaðri konu“

Við erum þessi hefðbundna vísitölufjölskylda; mamma, pabbi, tvö börn og köttur. En samt segir samfélagið okkur að við séum það ekki af því mamman, þ.e. ég, er fötluð, notar hjólastól. Þegar eitthvað kemur uppá í fjölskyldunni, t.d. andleg veikindi, erfiðleikar í fjármálum, erfiðleikar í námi eða erfið hegðun barna er sökin/skýringin samkvæmt samfélaginu ávallt mín fötlun. Samfélagið gerir ráð fyrir að það hljóti að vera erfitt að vera í fjölskyldu minni vegna þess að ég er fötluð. Samfélagið gerir ráð fyrir því að maðurinn minn sé giftur mér af skyldurækni. Samfélagið vill ekki heyra að við lifum ósköp venjulegu lífi vegna þess að ég er hreyfihömluð og langveik. Samfélagið vill skipta sér af því hvernig eða hvort við hjónin gerum ákveðna hluti og sárast er það þegar nánasta fjölskylda og vinir hafa enga eða litla trú á því sem við gerum. Fólk treystir því ekki að ég viti hvað ég er að gera vegna þess að ég er fötluð og hefur miklar skoðanir á því hvað við hjónin eigum að gera og hvað ekki, og hvernig við eigum að gera það. Samfélagið gerir ráð fyrir að það sé erfitt að vera ég vegna þess að ég er fötluð og það gerir ráð fyrir því að það sé erfitt að vera gift mér vegna þess.

„Hann hefur gott af því að komast aðeins í burtu og vera hann sjálfur“ og „mikið er hann duglegur“  eru setningar sem ég hef heyrt frá mínu nánasta umhverfi. „Hann“ er í þessu tilfelli eiginmaður minn og það er þá ég sem hann þarf að komast í frí frá. Væntanlega er hann þá duglegur að vera giftur mér. Ég er hætt að útskýra hvernig ég lifi mínu lífi og hætt að samþykkja að fólk vilji bara vel þegar það segir særandi hluti. Ég er líka hætt að afsaka hegðun fólks með því að það viti ekki betur. Ef fólk hefur áhuga á að vita betur þá ætti það að hlusta á og virða það sem ég segi því.

5 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page