top of page

Femínismi – fyrir suma?

Höfundur: Arndís Lóa Magnúsdóttir

Síðasta ár tók ég mjög áhugaverðan kynjafræðikúrs sem valgrein á lokaárinu mínu í menntaskóla. Hluti af áfanganum var að sækja viðburð ,,úti í bæ” að eigin vali, tengdum femínisma. Á sama tíma átti sér stað mikil vitundarvakning um femínisma innan framhaldsskólanna. Mörg femínistafélög voru sett á laggirnar og ákvað ég eitt kvöldið að kíkja á stofnfund hjá einu slíku. Ég mætti á tilskildum tíma og það kom ekki á óvart að aðeins örfáir strákar létu sjá sig. Það voru hins vegar viðtökurnar þegar ég gekk í salinn sem mig langar að gera að umræðuefni. Um leið og ég opnaði hurðina og gekk inn á fundinn, heyrðist einhver taka andköf og um leið heyri ég rödd sem segir: „Æ-æ-æ, vá, sjáðu hana!“. Tvær stelpur, á svipuðum aldri og ég bentu á mig.

Það voru þó ekki kringumstæðurnar sem gerðu það að verkum að hluti af mínu femíníska hjarta ,,dó” heldur fyrst og fremst tónninn í röddinni, raddblærinn; eins og þær væru ekki að tala um fullorðna manneskju heldur eina af þessu ,,krúttlegu” dýramyndum sem poppa reglulega upp á netin.


Kötturinn úr Shrek með sakleysissvip.

Kötturinn úr Shrek með sakleysissvip.


Og ég spurði mig; hverjar skyldu vera staðalímyndir um femínista? Líta allir femísistar eins út, eins og Google vill meina?


Google leitarvélin finnur fyrst myndir af Hildi Lillendahl undir leitarorðinu femínisti.


Google leitarvélin finnur fyrst myndir af Hildi Lillendahl undir leitarorðinu femínisti.Á þessum tímapunkti spyrjið þið ykkur sjálfsagt hvers vegna ég hafi fengið þessi viðbrögð. Ég tilheyri hópi fatlaðs fólks, og það sem meira er; Ég er tilheyri hópi fatlaðra kvenna sem er einhver lægst setti þjóðfélagshópur heims. Stúlkur og raunar konur á öllum aldri með einhvers konar líkamlega skerðingu eru einhverjar jaðarsettustu manneskjur hvers samfélags. Ég tilheyri því einu prósenti af fötluðum konum sem eru læsar í heiminum, samkvæmt rannsókn sem var gerð 1998 af Sameinuðu þjóðunum.  Tíðni læsis meðal fullorðins fólks með fatlanir er annars um þrjú prósent. Ófatlaðar konur glíma við mikið mótlæti víða í heiminum sem óæðri verur. Menn geta því ímyndað sér hver staða fatlaðra kvenna er? Í flestum löndum heims utan Vesturlanda eru möguleikar fatlaðra kvenna næstum engir. Fatlaðar konur á Vesturlöndum mæta þó einnig miklum hindrunum á almennum vinnumarkaði. Ef horft er á stöðuna með kynjagleraugum, eru fatlaðir karlmenn næstum tvöfalt líklegri til þess að fá vinnu en fatlaðar konur og mæta þó einnig umtalsverðri mismunun. Rannsóknir sýna einnig að fatlaðar konur á vinnumarkaði upplifa ójafnrétti við ráðningarferli og við stöðu- og launahækkanir, verra aðgengi að námskeiðum eða endurmenntun, útilokun frá bónusum og hvað það allt heitir. Þá eru fatlaðar konur eru sjaldan hafðar með í ráðum um efnahagsmál og rekstur. Þar við bætist að konur almennt njóta ekki sömu launa fyrir sambærileg störf.

Það er staðreynd að fatlaðar konur eru vel falinn þjóðfélagshópur sem verður fyrir kúgandi orðræðu. Þá má einnig nefna að það heyrir til undantekninga að fötluð kona verði EKKI fyrir kynferðislegu áreiti eða ofbeldi í lífinu, nokkuð sem við skyldum ætla að hreyfði við femínistum allra landa. Þar sem um samfélagslegan minnihlutahóp er að ræða er þöggunin hins vegar mikil. Það má líta svo á að þar sé um að ræða framhald og ,,þróun” þöggunar á femínískri umræðu sem hefur viðgengist í aldanna rás. Þegar fötluð kona tjáir sig sem femínisti er það afgreitt sem krúttlegur gjörningur sem ekki ber að taka mark á. Og málið er dautt. Í stað þess að horfa á málstaðinn (hér pistilinn), þá er horft á persónuna (lífsreynslusaga mín). Þetta er líka ástæðan fyrir því að femínískri baráttu lýkur aldrei, að það er ekki um að ræða endastöð þar sem maður getur bara haft það næs og slakað á. Allra síst fötluð kona. Femínismi skiptir sérstaklega miklu máli fyrir fatlaðar konur og réttindi þeirra.

Það eru þó ekki bara fatlaðar konur sem eiga erfitt með að uppfylla útlits- eða ímyndastaðla samfélagsins um ,, real women” heldur konur almennt. Eða hvað segir Google myndaleitin?


Einn armur femínismans ber heitið feminism disability studies og snýr sérstaklega að fötluðum konum. Hans hefur hins vegar verið lítið vart hér á landi. “Disability studies can benefit from feminist theory and feminist theory can benefit from disability studies. Both feminism and disability studies are comparative and concurrent academic enterprises (…) A feminist disability theory builds on the strengths of both” segir Rosemarie Garland-Thomson. Og hún heldur áfram; ,,We talked, too, about women’s and gender studies and disability studies being natural partners. They’re both academic fields with links to activist culture. They both look at power and privileges. Not all women’s and gender studies programs have a disability studies component, but once it’s included, it’s hard to see how it was ever left out.”

Ég hef skoðað talsvert umræður um þennan arm femínisma í erlendum ritum. Um daginn rakst ég svo á grein sem ber heitið Feminist disabillity studies eða fötlunarfemínismi þar sem rakin er sú skoðun nokkurra femínískra aktívista að þessi jaðarhópur femínista geti veikt hreyfinguna og jafnvel sundrað henni. Því sama hefur reyndað verið haldið á lofti um femínista sem ekki eru hvítir, hinsegin femínista, velstæða femínista og hægrisinnaða femínista. Er það ekki umhugsunarefni?

– Arndís Lóa Magnúsdóttir

41 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page