top of page

Fordómar. Eru þeir bara í hausnum á mér?

Efnisviðvörun: umfjöllun um margþætta mismunun, ableískar og sexist athugasemdir/móðganir og ógildingu á upplifun af fordómum/mismunun

Ég sit á kaffihúsi. Kona kemur upp að mér og segir; „hefur þú íhugað að fá þér hjólastól sem þú getur setið upprétt í? Mér finnst svo erfitt að horfa á þig í sjónvarpinu svona liggjandi í hjólastólnum?“

Líkami minn er truflandi.

Blaðamaður hringir í mig. Segir mér að hann hafi fengið skjáskot af Tinder aðganginum mínum, spyr hvort hann megi fjalla um það og bætir við „Það er nú merkilegt að svona fötluð kona sé á Tinder“.

Líkami minn er kynlaus og framandgerður.

Ég er úti að skemmta mér. Tveir strákar labba fram hjá mér, horfa í áttina til mín, flissa og segja; „það væri nú auðvelt að taka þessa!“

Líkami minn er kynferðislegt viðfang og almenningseign.

Ég fæ skilaboð frá vinkonu á facebook. Tveir strákar hafa sett mynd af mér frá Druslugöngunni á brandaragrúbbu, sagt að ég sé ógeðsleg og að ég eigi skilið að verða fyrir sýruárás.

Líkami minn má deyja.

Svona get ég haldið áfram með dæmi um þá fordóma sem ég hef upplifað, en þetta er nóg. Þetta er raunar of mikið því þessi reynsla mín kemur ykkur ekki við. Mér finnst erfitt að deila henni og það er ekki skylda mín. En stöðugt upplifi ég að það er efast um reynslu jaðarsettra hópa, gert lítið úr tilfinningum okkar og þekkingu á eigin veruleika – upplifun okkar er ógild. Síðast í gær spyr Sindri Sindrason fréttamaður jaðarsetta konu hvort fordómar séu ekki bara inn í okkur?

Svarið er; nei.

Fordómar eru ekki bara innan í okkur, eða ímyndun. Þeir eru raunverulegir. Þeir eru stöðugir. Þeir eru sýnilegir. Þeir eru líka stundum ósýnilegir en það þýðir ekki að þá séu þeir ekki til. Fordómar hafa hins vegar miklar afleiðingar fyrir heilsu okkar og líðan. Það sýna sögur okkar og rannsóknir. Fordómar geta því hreiðrað um sig innra með okkur en þeir koma að utan. Frá samfélaginu. Tilfinningar mínar um að vera í óviðeigandi, kynlausum/kynóðum, ógeðslegum, ónothæfum líkama eru ekki þrumur úr heiðskýru lofti. Þær eru afleiðingar af ofangreindum atvikum (og öllum hinum sem ég segi ekki frá). Þessar tilfinningar eru ekki alltaf með mér né efst í huga mér en þær skjóta upp kollinum oftar en ég kæri mig um og móta kyn- og líkamsímynd mína. Sem móta svo hvað ég geri og geri ekki.

Það er óþolandi veruleiki að þurfa að réttlæta tilfinningar sínar dag hvern. Það er ömurlegt að vera ekki trúað. Verst er, að mínu mati, að vera sem jaðarsett manneskja, gerð ábyrg fyrir jaðarsetningu sinni. Fólk sem gerir slíkt er firrt af forréttindum sínum, eins og Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, aktivisti gegn holdarfarsmisrétti, benti á í gær.

Að tilheyra jaðarsettum hópi útilokar ekki að þú búir við forréttindi. Sindri er vissulega hommi, sem hefur augljóslega (miðað við hörð viðbrögð hans) valdið honum misrétti í lífinu. Það er vont. Hins vegar er hann líka sís karl, hvítur, frá Íslandi, ófatlaður og ekki feitur. Hann býr því við mikil forréttindi. Það eigum við sameiginlegt. Ég er hvít, gagnkynhneigð, íslensk, sís kona með hreyfihömlun og notendastýrða persónulega aðstoð. Það gefur mér tækifæri og vald sem margar fatlaðar konur hafa ekki. Til dæmis tækifæri til þess að skrifa þessi orð inn í tölvuna mína og setja þau svo á heimasíðu Tabú því ég hef, ólíkt mörgu fötluðu fólki, aðgang að netinu, fékk tækifæri til þess að læra að lesa og skrifa, og aðstoð til þess að stunda aktivisma. Þau forréttindi afmá ekki jaðarsetningu mína, sem er fyrst og fremst á grundvelli kyngervis, fötlunar og útlits/líkamsgerðar. En jaðarsetning mín núllar ekki út forréttindi mín heldur.

Lydia X. Z. Brown útskýrir þetta vel í sama viðtali og Sindri ræðst á Töru fyrir að benda honum á forréttindi sín. Hán segir; „Hver er minn farangur? Hvaða áföllum hef ég lent í? Hvernig er jaðarsetning mín? Hver er mín forréttindastaða þegar ég kem inn í þetta rými? Hvernig mótar það minn reynsluheim og vinnu mína? Ég get ekki þurrkað neitt af þessu út. Alls ekki. En hvernig get ég öðlast meðvitund um hver ég er og hvað ég tek með mér inn í rými, svo ég geti starfað á sem skilvirkastan hátt með því fólki sem ég leitast við að starfa með? Því með því að virða mennsku allra virði ég einnig mennsku sjálfs míns. Það er ekki hægt að vinna í þágu félagslegs réttlætis með árangursríkum hætti ef við vitum ekki hver við erum.“

Til þess að geta tekið þátt í mannréttindabaráttu eða lagt henni lið er grundvallaratriði að skoða farangurinn sinn og skilja hvernig hann hefur áhrif á það hver við erum og hvernig við upplifum heiminn. Á því klikkaði Sindri. Fyrir það mætti hann, og vinnustaður hans, biðjast afsökunar.

126 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page