top of page

Kynóljóst: Skörun einhverfrar og trans reynslu

Höfundur: Lydia Z. X. Brown

Þýðing: María Helga Guðmundsdóttir

Ég er einhverfur aktivisti sem tekur mikinn þátt í hinsegin pólitík. Mér hefur tekist að klaufast um heiminn án þess að þróa með mér hefðbundinn skilning á kyni. Á uppvaxtarárum mínum gerðu allir ráð fyrir því að ég væri stúlka út frá kynfærunum sem ég fæddist með, en mér þótti mjög óþægilegt að vera stimpluð „stúlka“ eða „kona“. Mér líður ekki eins og konu, en ég veit að ég er ekki karlmaður heldur. Ég skilgreini sjálft mig nú sem kynsegin. Það var þó ekki fyrr en ég var hálfnað með háskólanám að ég fór að setja spurningamerki við það hvaða þýðingu kyn hefði fyrir mig. Kveikjan að þeirri leit var að miklu leyti sú að í gegnum aktivisma myndaði ég mikilvæg sambönd við margar einhverfar manneskjur sem voru opinberlega trans.

Satt að segja skilgreinir svo stórt hlutfall einhverfusamfélagsins sig sem trans, kynsegin eða kynlaust að við höfum þróað með okkur ýmiss konar einkahúmor og innri hugtök til að lýsa þessari skörun okkar. Nýlega er ég byrjað að lýsa sjálfu mér sem kynóljósu (e. gendervague). Það hugtak varð til í einhverfusamfélaginu til að lýsa sértækri reynslu af kynvitund meðal fólks með taugabreytileika (t.d. einhverfu). Mörg okkar upplifa að kyn hafi mest áhrif á líf okkar í gegnum ætlanir annars fólks um kyn okkar, en finnst kyn hafa litla þýðingu í sjálfu sér.

Kynóljós manneskja getur ekki aðskilið kynvitund sína frá taugabreytileika sínum. Einhverfa er ekki orsök kynvitundar minnar en hún tengist skilningi mínum og upplifun á kyni órjúfanlegum böndum. Heili einhverfs fólks er ólíkur heila þeirra sem álitin eru „eðlileg“ eða „heilbrigð“. Fyrir flest (en ekki allt)  einhverft fólk er lífsins ómögulegt að botna í því af hverju gert er ráð fyrir að allir passi í snyrtilega flokka karla og kvenna. Við botnum heldur ekkert í hinum glórulausu einkennum sem gert er ráð fyrir að fylgi kvenleika og karlmannleika. Nýlegar rannsóknir sýna að einhverft fólk sé líklegra til að skilgreina sig sem trans eða kynsegin en fólk sem er ekki einhverft. Það kemur mér ekki á óvart, því ég hef hitt mun fleiri trans eða kynsegin einstaklinga í einhverfum rýmum en nokkurs staðar annars staðar.

Mörg okkar eru vön útskúfun út af ódæmigerðum samskiptamáta okkar, skynjun, tjáningu tilfinninga og hegðun. Vegna þessarar stöðugu jaðarsetningar á sumt einhverft fólk auðveldara að átta sig á því að það falli einhvers staðar á trans- eða kynseginrófið, þar sem við föllum nú þegar ekki inn í normið. Í öllu falli er erfiðara fyrir okkur að fela óhefðbundna kyntjáningu okkar. Tilkoma samfélagsmiðla hefur líka verið hvalreki fyrir þau okkar sem finnst óþægilegt að stunda, eða getum ekki stundað, regluleg samskipti augliti til auglitis. Miðlarnir gera okkur kleift að kynnast nýjum hugmyndum og hitta fólk með svipaða reynslu.

Meirihlutasamfélagið sjúkdómsvæðir iðulega það að vera trans. Að sama skapi er ráðandi orðræðan um einhverfu og aðrar geðfatlanir sú að við séum brotin og að eitthvað sé að okkur sem krefst inngripa geðlæknis. Þótt einhverfa og trans kynvitund skarist ósjaldan hefur transhreyfingin hafnað taugafjölbreytni að miklu leyti. Þar með hafnar hreyfingin mörgum fötluðum trans manneskjum.  Transhreyfingar afneita oft taugafjölbreyttu og öðru fötluðu fólki í ákafri viðleitni til að staðfesta réttmæti trans sjálfsmynda og reynslu. Viðkvæðið er iðulega: „Það að vera trans er ekki geðsjúkdómur. Það er ekkert að okkur!“ Það veldur öllu fólki með geðfatlanir skaða, sérstaklega okkur sem búum við þessa skörun. Vitanlega er það tvennt ólíkt að vera trans og að vera með geðröskun, en undirliggjandi hugmyndin er sú að þau sem séu „virkilega“ veik á geði eigi að sæta þvingaðri meðferð, búa við forræðishyggju í meðhöndlun, og sæta félagslegri skömm fyrir að vera brotin eða óstöðug.

Þetta afneitunarmynstur á beinan þátt í því að afmá einhverft og annað taugabreytilegt trans fólk. Í kennslustofum, stofnunum þar sem fatlað fólk býr og heima hjá foreldrum okkar er okkur sagt að kynvitund okkar sé óekta því við séum einhverf. Ef við erum svipt lögræði – sem er algengt fyrir fullorðið fatlað fólk með geðraskanir eða þroskahömlun  – getur transfóbískur forsjáraðili að hindrað okkur löglega í að sækja hinsegin samkomur. Brúnt, einhverft trans fólk býr við mikla hættu á því að fá á sig glæpamannsstimpil, að sæta lögregluofbeldi og vera vistað í fangelsi. Einhverf trans börn eru í sérstakri áhættu vegna atferlisþjálfunar sem reynir að þvinga sís kynvitund fram og bæla einhverfueinkenni með valdi til þess að við föllum betur að norminu. Tjáning í samræmi við kynvitund barnsins eða tilraunir með kyntjáningu skapa hættu á refsingum í skóla.

Á meðan transhreyfingin hafnar oft taugabreytilegu trans fólki í baráttu sinni fyrir viðurkenningu er einhverft trans fólk skilið eftir úti í kuldanum. Í baráttunni fyrir viðurkenningu á því að tilvist okkar sé verðug og dýrmæt verðum við að hafna því að það sé eitthvað að okkur en leggja áherslu á að það sé eitthvað að þeim. Við eigum skilin augnablik sem viðurkenna og staðfesta reynslu sem er ekki auðvelt að þætta í sundur í trans eða einhverfu eingöngu, sérstaklega í ljósi þess hversu lík kúgun okkar er. Það er allt í lagi að vera einhverf og trans, og það er í lagi að þessir þættir séu tengdir og skarist. Ég hlakka til að starfa fyrir National LGBTQ Task Force í sumar. Þar ég hef verið hvatt og stutt í að nálgast öll málefni út frá sjónarhóli samtvinnunar, án þess að þurfa að setja hluta af sjálfsmynd minni á hilluna. Skilvirk barátta fyrir réttindum trans fólks, hvað þá trans frelsi, krefst ekki aðeins þess að við göngumst við hliðstæðunum milli málefna okkar og reynslu. Hún krefst virkrar áherslu á samtvinnun við taugafjölbreytt samfélög.

Lydia XZ Brown, Holly-lagarannsóknafulltrúi National LGBTQ Task Forc

Upprunaleg grein: http://bit.ly/295fQ7e

Heimasíða Lydia: www.autistichoya.com

Samantekt á auðlesnu máli

  1. Lydia Brown er baráttumanneskja fyrir réttindum fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Lydia notar persónufornafnið hán (í staðin fyrir hann eða hún) því hán upplifir sig ekki sem konu og ekki sem karl. Það nefnist að vera kynsegin.

  2. Lydia er einhverft. Hán segir að þegar hán kynntist öðru fólki voru margir sem skilgreindu sig til dæmis sem kynsegin. Fólk sem er bæði einhverft og kynsegin hefur notað orðið kynóljóst til þess að lýsa því. Fólk sem er kynóljóst er ekki tilbúið að festa sig í kössum eða fylgja reglum um hvernig konur eigi að vera eða karlar eiga að vera. Lydia segir að kannski sé auðveldara fyrir fólk sem er kynóljóst að fylgja ekki reglum um karla og konur vegna þess að það passar oft ekki inn í kassana sem fólk sem ekki er eihnverft hefur búið til yfir það hvernig við eigum að haga okkur eða vera.

  3. Oft er komið fram við einhverft fólk og kynsegin fólk svipað. Bæði er álitið sjúkdómur sem þarf að taka í burtu og laga. Samt sem áður er kynsegin fólk oft með fordóma fyrir einhverfu fólki og einhverft fólk fyrir kynsegin fólki. Það þýðir að einhverft kynsegin fólk er oft útilokað úr samtökum fyrir einhverft fólk og kynsegin fólk.

  4. Lydia segir að það sé mjög mikilvægt að viðurkenna að einhverft fólk geti verið trans eða kynsegin og öfugt vegna þess að annars fái það ekki að vera eins og það er heima hjá sér, í skólanum og samfélaginu öllu. Það er mikilvægt að skilja að fólk getur verið hluti af fleiri en einum minnihlutahópi því það hefur áhrif á sjálfsmynd fólks og hvernig hægt er að skapa raunverulegt jafnrétti fyrir alla.

132 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page