top of page

Nína Kristín: Ég er fötluð allan sólarhringinn – ég bý heima hjá mér

Höfundur: Nína Kristín Sigurbjörnsdóttir

Ég heiti Nína Kristín og ég er 22 ára og bý í eigin íbúð á neðri hæð í húsi föður míns í Árbænum. Ég er með notendastýrða persónulega aðstoð allan sólarhinginn sem þýðir að ég er alltaf með aðstoðarkonu hjá mér. Mér finnst gott að hafa aðstoðarkonur því þá get ég stjórnað sjálf hvað ég geri.


Á myndinni situr Nína Kristín í hjólastólnum sínum hjá tveimur hestum, einum brúnum og öðrum hvítum, og heldur utan um þann hvíta. Nína er brosandi.

Á myndinni situr Nína Kristín í hjólastólnum sínum hjá tveimur hestum, einum brúnum og öðrum hvítum, og heldur utan um þann hvíta. Nína er brosandi.


Ég er með mörg áhugamál. Mér finnst t.d. mjög gaman að fara í leikhús og bíó, ég hef mikinn áhuga á dýrum og átti hund sem hét Hekla en hún dó fyrir ári síðan. Ég er mikil hestakona og fer oft í hesthúsið til pabba. Við reynum að hittast í hesthúsinu sem oftast um helgar í brunch og stundum fer ég á hestbak. Ég á hest sem heitir Október. Mér finnst líka gaman að heimsækja ættingja og vini. Ég fór oft í heimsókn til systkina minna og ömmu og afa. Stundum aðstoða ég líka ömmu og skutla henni um bæinn þegar hún þarf að stússast eitthvað, mér finnst það mjög skemmtilegt og gott að geta hjálpað henni því hún er svo góð við mig. Ég hef líka mikinn áhuga á því að hlusta á tónlist og skoða mikið myndbönd á youtube. Justin Bieber er í miklu uppáhaldi og auðvitað ætla ég að fara á tónleikana með honum í haust.

Aðstoðarkonurnar mínar hjálpa mér að fyjglast með sjónvarpsdagskránni því ég hef mikinn áhuga á því að horfa á íslenska þætti. Árið 2015 stundaði ég vinnu hjá Hagkaup í Skeifunni, þá var ég að raða í hillur og sjá um að fylla á sokka o.fl. – það gekk mjög vel. Núna er ég í myndlist hjá Mími og í einkatímum í myndlist. Ég tók þátt í List án landamæra í fyrra og hélt myndilstasýningu í Borgarbókasafninu með verkunum mínum. Ég hef mjög gaman af því að spila á spil og rústa yfirleitt aðstoðarkonunum mínum í Ólsen ólsen. Ég er með aðstoðarverkstjóra sem heitir Heiða. Hún hjálpar með að vera yfirmaður. Hún hjálpar mér líka að skipuleggja dagana mína. Þá líður mér vel.

Með notendastýrðri persónulegri aðstoð get ég t.d. ákveðið að hitta systkini mín í hádegismat með engum fyrirvara eða farið ísrúnt eftir kvöldmat og í heimsóknir án þess að vera búin að skipuleggja það. Ég get farið með systur minni í verslunarferð til Glasgow, skellt mér í Brekkuskála, sumarbúðstaðinn minn með pabba. Ég get líka farið í kirkjugarðinn á leiðið hennar mömmu og skoðað myndir af henni þegar ég sakna hennar. Ég get boðið vinum heim og gert allt sem lífið hefur upp á að bjóða án þess að þurfa að hugsa mig um.

Ég er glöð að mamma og pabbi hjálpuðu mér að berjast fyrir því að fá NPA. Mér finnst að allir eigi rétt á því að fá aðstoðarfólk því það hjálpar manni að gera lífið venjulegt.

Ég stend með ykkur, Benedikt og Salbjörg!

Þessi grein er hluti af virðingarvakningu Tabú til stuðnings Benedikts H. Bjarnason og Salbjörgu Atladóttur en þau hafa bæði þurft að lögsækja Reykjavíkurborg fyrir mannréttindabrot og tapað málunum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og öðru fyrir hæstarétti. Fatlað fólk sem býr við þau réttindi að búa heima hjá sér með aðstoð mun deila reynslu sinni. Það er okkar von að þær fari eins og eldur í sinu um samfélagið og trufli valdhafa sem mest. Við hvetjum samborgara okkar til þess að deila greinunum á Facebook og tweeta eins og enginn sé morgundagurinn undir myllumerkinu #heimahjámér og merkja héraðsdóm, hæstarétt, Reykjavíkurborg, Dag B. Eggertsson og aðra í borgarstjórn við sem flest tækifæri.

89 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page