Erindi Sigríðar Jónsdóttur á málþingi um samfélagsleg áhrif birtingarmynda í listum, þann 11. október 2022 í Þjóðleikhúsinu
Ég geng inn á sviðið, þurfti að telja í mig kjark. Ég er svo meðvituð um líkamann minn sem lítur ekki út eins og flestir líkamar gera. Hann kallar alltaf á viðbrögð. En þessi líkami, hann getur sungið og ég er að sækja um óperuhlutverk.
Ég er með gervihöndina mína.
- „Sigríður, þú verður að fá þér gervihönd, annars færðu aldrei neitt að gera á sviði.“ Þetta var eitt það fyrsta sem söngkennarinn minn sagði við mig þegar ég hóf námið mitt í bandarískum háskóla. Svo, ég gerði það til að fá einhver tækifæri.
Ég vissi að auðvitað myndi enginn velja mig til að syngja kvenhlutverk, enginn myndi vilja sjá mig klædda í dásamlegan ermalausan óperudívukjól, þrátt fyrir gervihöndina mína. Þessar gervihendur eru svo ljótar, og svo áberandi, eiginlega gular.
En ég var svo heppin, að mér fannst, heppin að vera mezzosópran, því þá gæti ég sungið drengjahlutverk. Og það væri ekki svo slæmt. Ég gæti verið í buxum og skyrtu. Ég elskaði Oktavían, Orfeo, Stefano, Annio og hver elskar ekki Cherubino.
- „Ég ætla að syngja Mozart“, segi ég örugg.
Óperustjórinn situr í salnum. Ég þekki hann, ég hef unnið með honum í náminu mínu. Ég veit að hann er mér velviljaður. Já, hann vill mér vel. Hann kemur hlaupandi til mín á meðan ég syng. Hann kemur upp á sviðið, - hvað skyldi hann ætla að gera? Það sem hann gerir gat ég ekki ímyndað mér. Hann gengur að stóra konsertflyglinum sem ég stend við og rífur þykku, þungu ábreiðuna af honum. Hann gengur til mín og leggur ábreiðuna yfir axlirnar mínar og vefur henni um mig svo ég er alhulin.
- „Sigríður , syngdu aftur!“
Ég get ekki sungið undir þessu fargi, fargi af skömm.
_______________________
Ég er flutt heim, hef lokið Mastersnáminu mínu og er farin að kenna við tónlistarskóla. Ég er virk í stéttarfélaginu og er í samninganefnd. Það eru erfiðir samningar framundan. Við erum að ræða hverjar kröfurnar eiga að vera.
- „Mig langar til að benda á að núverandi kjarasamningar gera ekki ráð fyrir langskólagengnum tónlistarkennurum, fólki með mikla menntun.“ Þegar ég hef sagt þetta breytist andrúmsloftið.
- „Sigríður mín, reynsla okkar í þessu félagi er sú að fólk með mikla menntun, það kann bara ekkert að kenna, þetta eru svo miklir listamenn. Þetta fólk nær bara ekki nokkru sambandi við nemendur.“
- „Sigríður mín, telur þú þig vera listamann? Já, hefur þú starfað sem atvinnusöngvari?“
- „Hefur þú nokkurn tímann sungið í óperu, Sigríður?“
- „Nei, Sigríður mín, við getum auðvitað ekki gert kröfur fyrir fólk sem hefur bara keypt sér sínar prófgráður.“
- „Og, Sigríður, ef þú ert ósátt við launin þín, þá vil ég bara benda þér á að þú hefðir nú átt að hugsa um þetta áður en þú fórst út í allt þetta nám!“
_______________________
Ég stend undir fargi, þungu fargi af skömm, skömm sem er ekki mín. En undan þessu fargi birtist mér sannleikurinn:
Það skiptir ekki máli hvort við erum ómenntuð eða sprenglærð, við erum hvort sem er VÉFENGD.
Og það skiptir ekki máli hvort við erum séð sem gersneydd færni eða hlaðin bestu gjöfum lífsins, hvort sem er, þá lifum við ÁN TÆKIFÆRA.
Á stóra sviði lífs og leiks, þar sem allt á að vera mögulegt og allt á að vera ævintýri, stöndum við í ljósi heimsins, ósýnileg og án raddar.
Comments