top of page

Ég bý ekki með Brynjari Níelssyni, ekki ennþá!

Höfundur: Ágústa Eir Guðnýjardóttir

Fyrir mörgum árum ákvað ég, þá 18 ára gömul, að flytja að heiman. Ég vissi ekki þá hvort sú ákvörðun væri tímabundin eða endanleg, en alla vega ákvað ég að yfirgefa æskuheimilið og flytja í annað sveitarfélag til að vinna. Þegar frá leið vissi ég að sú ákvörðun var endanleg, ég snéri aldrei í foreldrahús aftur.

Þegar ég tók þessa ákvörðun hvarflaði aldrei annað að mér en að ég gæti valið mér bústað, að svo miklu leyti sem fjárráðin leyfðu. Ég þurfti að leigja mér herbergi og auðvitað voru leiguherbergi ekki í boði í hverju húsi bæjarins, en ég gat samt valið. Og það hvarflaði aldrei að mér að þetta val mitt væri endanlegt, að ég þyrfti að búa í þessu herbergi það sem eftir væri eða að ég þyrfti að díla við einhvern annan en sjálfa mig ef ég vildi flytja. Það hvarflaði heldur aldrei að mér að ég þyrfti að deila einhverju, s.s. salerni, eldhúsi eða öðru sameiginlegu rými með einhverjum nema ég tæki sjálf ákvörðun um það.

Síðan þetta gerðist eru mörg ár. Ég flutti fljótlega úr leiguherberginu, leigði mér íbúð og keypti mér síðan íbúð sem ég bý í í dag. Það hvarflaði aldrei að mér, þegar ég keypti hana og flutti inn, að þetta væri hinn eini og endanlegi bústaður og þó ég hafi nú búið hér á sama stað í 14 ár, þá veit ég að það er tímabundin ráðstöfun og það er undir mér komið hvort ég flyt eða verð um kyrrt.

Ég læt mig dreyma um að flytja í annað hverfi, skoða fasteignaauglýsingar á netinu og byggi skýjaborgir sem kannski verða aldrei að veruleika, ég veit það ekki. En ef draumarnir rætast ekki, þá er það vegna þess að annað hvort hef ég ekki ráð á draumahúsinu eða ég kýs að nota fjármunina í eitthvað annað og setja aðra hluti í forgang.

Það var ekki fyrr en nokkrum árum eftir að ég flutti að heiman að ég áttaði mig á því hversu ótrúlega miklu forréttindalífi ég lifi. Það var ekki fyrr en nokkrum árum eftir að ég yfirgaf foreldrahúsið að ég kynntist fólki sem ákveður ekki hvar það býr, ákveður ekki með hverjum það býr, hefur litla eða enga möguleika á að flytja ef því líkar ekki búsetan og veit að hverjir sem draumar þess eru þá munu þeir aldrei rætast.

Ég á vin sem býr á sambýli, lítilli stofnun þar sem hann þarf, að jafnaði, að deila tveimur starfsmönnum með fjórum öðrum íbúum sama hússins. Hann er 37 ára gamall. Hann vill ekki búa þarna. Hann vill ekki búa með þessu fólki. Það hefur ekkert með það að gera hvort fólkið er gott eða slæmt, það henta bara ekki allir öllum, þannig er lífið einfaldlega. Mig langar ekkert að búa með vinkonum mínum, systkinum eða foreldrum, en það þýðir ekki að þau séu eitthvað annað en yndælis fólk. Hann vill flytja, en getur það ekki.

Hann býr í einu herbergi og deilir salerni með öðrum íbúa hússins. Hann getur ekki látið sig dreyma um neitt annað en hugsanlega að breyta til í litla herberginu sínu.

Og af hverju getur hann það ekki?

Jú, vegna þess að kerfið, sem áður var á forsjá ríkisins, en er nú á forsjá Reykjavíkurborgar, þetta sama kerfi og plantaði honum þarna inn fyrir mörgum árum, það álítur bara að með því hafi það gert skyldu sína við hann (og aðra íbúa sambýla á vegum Reykjavíkurborgar) og þar með þurfi hann ekki að kvarta. Er yfir einhverju að kvarta? Það finnst þeim ekki og þar á bæ hafa menn lítinn eða engan skilning á því hvernig fólki líður heima hjá sér, hvernig því líður í aðstæðum sem það getur engan veginn breytt.

Nú er ég ekki að halda því fram að aðstæður hans á þessu sambýli séu slæmar, ekki í þeirri merkingu sem við leggjum í orðið „slæmt“, en ég held því fram að hann sé samt sem áður fangi í aðstæðum sem hann hefur ekki valið og henta honum ekki.

Þegar ég fæ þá hugmynd að mig langi á tónleika, heimspekikaffi eða út í Kringlu að kaupa mér bók eða geisladisk, þá reyni ég að haga málum þannig að ég geti það. Ég spara kannski fyrir disknum eða bókinni, skipulegg ferð á tónleikana á þeim tíma sem ég þarf ekki að sinna öðrum skyldum, en hvað með hann?

Hann skipuleggur sinn tíma með tilliti til þess hvenær tengiliðurinn hans er á vakt eða hvenær aðrir starfsmenn hafa tíma til að aðstoða hann við innkaup eða fylgja honum á viðburði. Flest sem hann gerir er á annarra forsendum vegna þess að fólk á sambýlum á ekki rétt á úrræðinu „liðveislu“. Fólk sem býr á sambýlum þarf að semja við starfsmenn, og jafnvel aðra íbúa, um hvenær öðrum hentar að þeir fari eða geri eitthvað persónulegt.

Fólk á sambýlum á vonandi vini og kunningja eins og aðrir og auðvitað er skemmtilegra að sækja viðburði með einhverjum vini eða vinkonu. En ekki hringi ég í vinkonu mína þó mig langi í bók, langi út í göngutúr eða þurfi bara út í búð til að kaupa mér háreyðingarkrem eða sjampó.

Fólk sem býr á stöðum sem Reykjavíkurborg hefur „náðarsamlegast“ fundið fyrir það á þess ekki kost að breyta, flytja eða hafa nokkur áhrif á það hverjir búa með því á þessum sambýlum eða íbúðakjörnum.

Ég get rétt ímyndað mér hvað ég yrði glöð ef eitthvert kerfi úti í bæ tæki þá ákvörðun að hér eftir byggi Brynjar Níelsson í gestaherberginu hjá mér og ég get rétt ímyndað mér hvað hann yrði ánægður með þá ráðstöfun. Nú hef ég aldrei búið með Brynjari og eflaust er hann ágætur í sambúð, en það er eitthvað öfugsnúið við það að fullorðið fólk, fatlað eða ekki, skuli þurfa að lúta þeim ákvörðunum kerfisstarfsmanna að búa bara með einhverjum, deila jafnvel með honum/henni salerni, eldhúsi, setustofu og öðru sameiginlegu rými í tilteknu húsi.

Ég get ekki ímyndað mér hvernig mér liði ef ég þyrfti alltaf að læðast um húsið heima hjá mér eftir kl. tíu á kvöldin því þá væri Brynjar sofnaður. En það er það sem íbúar sambýla þurfa að láta yfir sig ganga; lúta sameiginlegum reglum allra, hvort sem þeim líkar betur eða verr, og annað hvort er það meirihlutinn sem setur reglurnar eða jafnvel starfsfólkið, ekki einstaklingurinn. Og í mörgum tilfellum er það því miður svo að starfsmenn sambýla eru að setja fullorðnu fólki reglur sem miða fremur að því að auðvelda þeim störfin en að koma til móts við óskir eða langanir íbúanna.

Við erum enda að tala um fatlað fólk og hvað á fatlað fólk með það að eiga sér langanir eða drauma?

5 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

コメント


bottom of page