top of page

Að vera mismunað á grundvelli tjáningar í Háskóla Íslands

Höfundur: Pála Kristín Bergsveinsdóttir

Ég byrjaði í námi í félagsráðgjöf í kringum árið 2001. Ég var ekki fullu námi, fór í fæðingarorlof og var að vinna með skólanum þannig að námið tók langan tíma. Mér fannst námið mjög skemmtilegt og áhugavert og sá mig starfa við félagsráðgjöf í framtíðinni þrátt fyrir fötlun.

Ég var í svokallaðri „gömlu leiðinni“ í félagsráðgjöfinni en það þýðir að það var starfsnám á þriðja og fjórða ári. Í dag er þetta starfsnám á meistarastigi. Fyrsta starfsnámið sem ég var í á 3. ári var á geðsviði Landsspítalans. Ég lenti þar hjá mjög óhæfum starfsþjálfunarkennara að mínu mati vegna þess að hún var aldrei við eða hún hafði ekki mikinn tíma til að sinna mér. Ég var felld (hef aldrei fallið í neinu áður) vegna þess að ég hafði átt frekar erfitt með að halda mér vakandi á fundum sem voru snemma á morgnana og stóð mig ekki vel að hennar mati. Það kom aldrei til tals að það væri vegna þess að ég er fötluð. Ég er með sjaldgæfan taugasjúkdóm sem heitir Wilson og vegna þess er ég fötluð. Við erum örfá á Íslandi sem erum með þennan sjúkdóm. Ég var mikið veik sem unglingur, missti málið, var í hjólastól í 16 mánuði. Þurfti að læra að gera allt sem flestir telja sem sjálfsagðan hlut aftur, eins og til dæmis að ganga, tala, borða og að klæða mig.

Ég var sjúklingur á þessari deild nokkrum árum áður og fannst mér það mjög erfitt að vera hinu megin við borðið. Hluti af starfsnáminu var meðal annars að sitja fundi og var læknirinn minn yfirleitt á þessum fundum.

Fallið í þessari starfsþjálfun seinkaði útskrift um eitt ár og frekari barneignum. Ég var send aftur í þriðja árs starfsnámið. Þá var ég í starfsþjálfun hjá félagsþjónustunni í Kópavogi og þar var ég heppin með starfsþjálfunarkennara. Ég var hjá tveimur reynsluboltum sem voru mjög hæfar í starfi, auk þess tók starfsfólk félagsþjónustunnar mjög vel á móti mér. Ég var alveg viss um að ég myndi ná í þetta skiptið. Alveg í lok starfsnáms var farið að tala um það að ég fengi ekki fullt hús í einkunnagjöf en það væri nú bara vegna sjúkdómsins sem ég er með. Ég skildi aldrei þessa röksemdarfærslu hjá starfsþjálfunarkennurunum mínum, því að sjúkdómurinn minn er ekki sjálfstæð eining sem ég get losað mig við eftir hentugleika. Ég er með þennan sjúkdóm og hann er hluti af mér. Hann hefur haft áhrif á líf mitt á margan hátt, bæði á góðan og slæman hátt.

Ég var felld aftur í þriðja árs starfsnáminu rétt fyrir jól vegna þess að stjórnendur félagsráðgjafardeildarinnar töldu að ég gæti ekki starfað sem félagsráðgjafi vegna þess að ég tala of óskýrt og já, er með sýnilega fötlun. Þarna sýndu þær að mínu mati mikla fordóma, forsárhyggju og dónaskap í minn garð. Ég get alveg komið hlutunum til skila og fólk venst mér yfirleitt þ.e. hvernig ég tala. Ég var nú líka alveg búin að átta mig á því að það að starfa á félagsþjónustu við að taka viðtöl mundi nú ekki henta mér. Eða það að taka viðtöl myndi ekki henta mér sérstaklega vel sem starfsvettvangur en ég hélt að ég gæti unnið við rannsóknir í félagsráðgjöf.

Eftir hvatningu vina sem ég eignaðist í náminu og þá staðreynd að mér fannst vera illa brotið á mér fór ég með málið lengra, ég kærði þessa ákvörðun Félagsráðgjafardeildar til Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Með aðstoð vina, Dr. Rannveigar Traustadóttur, forstöðumanns Rannsóknarseturs í fötlunarfræði og Ólafs Harðarsonar stjórnmálafræðings sem var þá yfir Félagsvísindadeild Háskóla Íslands fékk ég staðið. Sú staðreynd að eiginmaður minn er lögfræðingur og að Háskólinn hafði samþykkt reglugerð árið 2005 um bann við mismun í háskólastarfi, en þessi reglugerð hefur nú verið uppfærð í reglur um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands nr. 41/2010, átti stóran þátt í þeirri ákvörðun að ég fékk staðið. Það var enginn sem benti mér á þessa reglugerð innan Félagsráðgjafardeildar heldur var það Rannveig Traustadóttir, sem hafði tekið þátt í að semja reglugerðina. Þegar þetta leiðindamál stóð yfir þá frétti ég að ég væri ekki fyrsti nemandinn sem hefur stundað nám hjá Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands sem reynt var að bola burtu úr námi með svipuðum hætti. Það höfðu verið fleiri nemendur sem voru óhæfir til að starfa sem félagsráðgjafar að mati yfirmanna hjá Félagsráðgjafardeildinni vegna fötlunar. Þær greinilega gefa sér ótakmarkað vald yfir lífi nemenda sinna og starfsvali. Ég hélt að félagsráðgjafar ættu að fagna fjölbreytileikanum.

Á fjórða ári var ég send í starfsnám á Velferðarsvið þar sem ekki er mikið um viðtöl heldur endalausir fundir. Það sem bjargaði fjórða árs starfsnáminu mínu var yndislegur starfsþjálfunarkennari sem var að mínu mati mjög hæfur kennari. Hún leyfði mér að vinna styttra á daginn og hún tók tillit til fötlunar minnar.

Þegar ég stundaði nám í félagsráðgjöfinni þá var enginn skylduáfangi sem fjallaði um fötlun. Það var einn val áfangi sem ég tók en meirihlutinn af nemendunum sem voru með mér í námi völdu ekki þennan áfanga. Það voru mikil vonbrigði að geta ekki setið fleiri áfanga sem fjölluðu um fötlun. Mér finnst það auk þess mjög ábótavant í Félagsráðgjafardeildinni að það skulu ekki vera boðið upp á fleiri áfanga sem fjalla um fötlun þar sem fatlað fólk er oft skjólstæðingar félagsráðgjafa á þjónustumiðstöðvunum. Fatlað fólk er með allt annan reynsluheim en fólk sem er ekki með fötlun. Fatlað fólk lendir frekar í fordómum, niðurtali og oft á tíðum mikilli forsjárhyggju. Þess vegna vantar fatlaða félagsráðgjafa með svipaðan reynsluheim og skjólstæðingarnir þeirra.

Tilgangurinn með þessari grein er að sýna fram á hversu miklum fordómum ég mætti innan Félagsráðgjafardeildarinnar. Ég upplifði það þannig að fatlað fólk væri ekki velkomið. Fatlað fólk er ekki velkomið í nám til þeirra eða það er reynt markvisst að bola því í burtu. Fræðsla innan félagsráðgjafadeildarinnir og annarra deilda háskólans er mikilvæg til þess að svona komi ekki fyrir aftur. Nauðsynlegt er jafnframt að bjóða upp á fleiri áfanga í kennslu um aðstæður fatlaðs fólks sem minnihlutahóps innan félagsráðgjafadeildarinnar. Von mín fyrir félagsráðgjafadeildina er sú að þar sé tekið fagnandi á móti fjölbreytileikanum. Það sé möguleiki fyrir alla nemendur að stunda nám í félagsráðgjöf jafnt fatlaða sem ófatlaða.

– Pála Kristín Bergsveinsdóttir, meistaranemi í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands.

101 views

Recent Posts

See All
bottom of page