top of page
  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram

„Ef ég hefði vitað að þú værir fötluð hefði ég nú ekki boðið þér í viðtal“

Höfundur: Hrafnhildur Kristbjörnsdóttir

Ég er á leiðinni í atvinnuviðtal á leikskóla í Reykjavík. Ég geng í áttina að skólalóðinni, finn fyrir kvíðahnút í maganaum og reyni að búa mig undir það að aðstæður gætu mögulega orðið óþæginlegar, sem gerist stundum þegar að fólk er ekki meðvitað um fötlun mína.

Ég er komin í dyrnar og mæti þar starfsmanni sem tekur brosandi á móti mér, ég segist vera mætt í atvinnuviðtal og bið um að fá að tala við leikskólastýruna sem ég var búin að mæla mér mót við. Leikskólastýran kemur labbandi í áttina að mér og horfir leitandi yfir herbergið og augun lenda loks á mér og viðbrögðin hennar leyna sér ekki, hún virðist ósátt og vonsvikin.

„Ef ég hefði vitað að þú værir fötluð hefði ég nú ekki boðið þér í viðtal“ segir hún í takt við viðbrögðin.

Aðstæðurnar verða skyndilega jafn óþægilegar og ég var búin að búa mig undir, ég kreisti fram bros og rétti fram höndina og kynni mig með nafni.

Hún verður vandræðaleg en vísar mér inní í viðtalið.

Ég geng inní herbergið niður langan ramp og geri athugasemd við það hvað aðgengið er gott. Hún hlær og segir að húsnæðið sé nú ekki aðgengilegt. Ég verð að taka hennar orð fyrir því þar sem að ég fékk ekki að sjá meira af húsnæðinu í þessari heimsókn.

Ég fæ mér sæti við skrifborðið á móti henni og við hlið mér situr aðstoðarleikskólastýran. Ég skynja það enn að aðstæðurnar eru óþæginlegar.

Í lok viðtalsins skoðar hún ferilskrána mína og kynningabréfið sem fylgdi og spurði mig síðan út í fötlun mína og hrósaði mér fyrir það hvað ég væri dugleg.

„Mikið ertu dugleg, þú með svona flotta menntun, en hvað  það er mikil synd að þú getur ekki notað menntunina þína, ha…“  bætti hún við blákalt. Aðstoðarleikskólastýran grípur inn í og gerir tilraun til að bæta upp fyrir orð leikskólastýrunnar. Enn þann dag í dag er ég ekki viss um hvað hún átti við með þessum orðum.

Hér lauk viðtalinu og aðstoðarleikskólastýran fylgdi mér út, við spjölluðum aðeins um ekki neitt. Hún kvaddi mig síðan og baðst afsökunar, líklegast átti hún við viðmót samstarfskonu sinnar. Ég settist inn í bíl orðlaus og niðurlægð.

Kæra leikskólastýra, ég vona að þú hafi lært mannasiði síðan að ég hitti þig síðast.

Nokkrum mánuðum fyrir þetta viðtal hafði ég farið á stutt námskeið í ferilskráargerð. Ég ákvað að skella mér bæði vegna þess að það var svolítið síðan að ég sótti um vinnu síðast og þar sem að ég var nú útskrifuð úr háskóla vildi ég líta sem best út á pappír. Maðurinn sem hélt námskeiðið kom frá þekktu ráðningarfyrirtæki, hann var öruggur með sig og greinilega vanur að halda fyrirlestra.

Ég notaði tækifærið og spurði hann að því hvort að mér væri skylt að taka fram að ég sé hreyfihömluð á atvinnuumsókn. Hingað til hefur reynslan verið sú að ég fæ aldrei nein viðbrögð við atvinnuumsóknum þegar ég tek fram að ég sé hreyfihömluð.

„Ef þú tekur ekki fram að þú sért fötluð og mætir í viðtalið [með sýnilega fötlun] gæti atvinnurekandinn upplifað það þannig að þú hafir logið að sér eða vísvitandi falið þetta fyrir sér“ sagði hann.

Ég reiddist snögglega og benti honum á að það kæmi atvinnurekanda ekkert sérstaklega við að ég væri hreyfihömluð vitandi það að fólk dæmir mig gjarnan fyrir fram, ekki síst atvinnurekendur. Af hverju ætti ég að þurfa að fela fötlun mína til að komast í atvinnuviðtal?

Eftir útskrift frá Háskóla Íslands hófst atvinnuleitin og ég fór að senda út atvinnuumsóknir full af bjartýni og trú á það að menntun mín myndi trompa fötlun mína því að vissu leiti fannst mér ég loksins vera búin að sanna mig. Fyrst um sinn tók ég það fram að ég væri hreyfihömluð og fékk engin viðbrögð en síðan tók ég þá ákvörðun að minnast ekki á fötlun mína til að sjá hvort að það myndi breyta einhverju. Ég sendi út nokkuð margar umsóknir og fékk viðbrögð við nánast hverri einustu, síminn stoppaði ekki í nokkra daga. Ég var bæði ánægð og hissa, ánægð að fá tækifæri á atvinnuviðtali og hissa hvað ég varð fyrir miklum fordómum á atvinnumarkaði. Það virðist skipta litlu máli hvaða menntun ég hef eða hvaða kosti og reynslu ég hef. Ég fæ mun færri tækifæri til að sanna mig og komast áfram í lífinu bara vegna þess eins að ég er fötluð.

Á meðan á atvinnuleitinni stóð fannst mér ég þurfa að krossa fingur og vona að manneskjan sem ég mætti í viðtal til væri fordómalaus. Það er ótrúlega glatað og óásættanlegt að þurfa að fela fötlun sína til að eiga tækifæri á því að komast í atvinnuviðtal. Að mörgu leiti lít ég á fötlun mína sem kost frekar en ókost. Fatlaðir einstaklingar búa yfir margvíslegri reynslu, þekkingu og menntun sem nýtist vel á atvinnumarkaði og hafa einnig innsýn inní reynsluheim sem ófatlaðir hafa ekki. Ég hefði nú haldið að sú þekking og reynsla ætti að nýtast vel á atvinnumarkaði.

57 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page