top of page

Hvert á ég að fara, í gasklefann?: Svar við grein Fanneyjar Birnu Jónsdóttur

Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

Þegar ég var rúmlega tvítug og var að fá minn fyrsta samning um notendastýrða persónulega aðstoð velti ég fyrir mér hvort ekki væri kominn tími á að flytja að heiman. Æskuheimilið, þó hannað hefði verið í kringum mínar þarfir sem barn, var hvorki heppilegt fyrir aðstöðu fyrir aðstoðarfólk né lengur nógu aðgengilegt fyrir mig að öllu leiti, t.d. hvað varðaði rými í herbergi og sturtuaðstöðu. Ég, ásamt foreldrum mínum, skoðaði bæði leigumarkaðinn og fasteignamarkaðinn en varð fljótt meðvituð um að þetta yrði flókið. Ég þurfti aðgengilega íbúð í lyftuhúsi eða jarðhæð, með tveimur svefniherbergjum (fyrir mig og svo aðstoðarkonurnar), stóru baðherbergi með viðeigandi sturtuplássi, rúmgóð rými, enga þröskulda og breiðar hurðar. Ekkert fannst, ekki einu sinni voru aðgengilegu íbúðirnar þannig úr garði gerðar að ekki þyrfti að breyta þeim. Það útilokaði því leiguíbúðir því þeim má ekki breyta og verðið á þeim íbúðum sem ég hefði getað keypt auk breytingarkostnaðar var of hátt. Foreldrar mínir ákváðu, m.a. þess vegna, að byggja parhús og sérhanna íbúð fyrir mig á neðstu hæðinni. Á sinn kostnað.

Síðan er liðinn tæpur áratugur og verðandi þrítuga ég er orðin uggandi yfir því að vilja flytja út annars yndislegri íbúð til þess að upplifa meira sjálfstæði og hafa meira einkalíf. Áfram rek ég mig á nákvæmlega sömu veggina. Núna í ofanálag er ég í gíslingu í Garðabæ því þar hef ég samning um notendastýrða persónulega aðstoð og gæti ég misst hann ef ég flyt t.d. yfir hraunið og inn í Hafnarfjörð. Eins og þjóðin veit er íbúðarverð í Garðabæ þess eðlis að mætti halda að þær væru búnar til úr demöntum en ekki steypu.

Ég er auðvitað í forréttindastöðu hvað það varðar að hafa þak yfir höfuðið, vera í starfi og með menntun sem eykur möguleika mína á vinnumarkaði. Ég bý samt við margfalt misrétti þegar kemur að húsnæðismálum; ég er ung, kona, fötluð, með NPA … og já, einhleyp … sem er eiginlega ekki í boði hér á landi ef þú ætlar ekki að búa í foreldrahúsum til æviloka. Ofan á það búa margir sem mér þykir vænt um í óaðgengilegum húsum því aðgengið er ekki valkostur. Það þýðir t.d. að ég get ekki heimsótt bróðir minn sem leigir í lyftulausri blokk. Ég get ekki heimsótt margar vinkonur mínar né ættingja. Margir hafa lagt sig mikið fram og jafnvel greitt meira fyrir íbúðir svo ég geti komið í heimsókn. En það er ekki alltaf hægt út af því að við erum ekki öll gift Jóakim Aðalönd. Í gegnum tíðina hefur það þýtt að ég þarf oft að halda matarboðin, jólaglöggið og partýin ef ég ætla að komast í þau. Það er að sjálfsögðu ekkert stórkostlegt mál og geri ég það með glöðu geði en þetta skapar mjög oft mikið tilfinningarrót, vandræðagang og vesen fyrir mig og fólk sem er annt um mig. Ég veit t.d. ekki hverjum leið verr þegar ég gat ekki mætt í afmælisboð hjá bróður mínum um daginn, mér, honum, kærustunni hans eða foreldrum okkar. Þeir einu sem ekki upplifðu sársauka en tengdust þessu samt beint var löggjafinn og framkvæmdarvaldið. Forréttindafólkið sem ákveður að hafa þetta svona en tekst ekki á við afleiðingarnar.

Í dag skrifaði Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, pistil um nýja byggingarreglugerð sem upphaflega átti að bæta aðgengi fatlaðs fólks, einkum hreyfihamlaðs fólks, að íbúðarhúsnæði og öðrum byggingum. Hún tekur undir kvartkórinn sem segir hana ganga of langt og bitna á ungu fólki í húsnæðisleit, allt geti ekki hentað öllum og að þessar kröfur dragi úr fjölbreytileika. Þetta hljómar kannski sem sakleysisleg blaðagrein en raunar er hún yfirfull af fötlunarfyrirlitningu. Hún gefur til kynna að að það sé svo dýrt að tryggja fjölbreytta aðgengilega húsnæðisvalkosti að það sé ekki efnahagslega mögulegt. Hún skellir skömminni yfir lélegri húsnæðispólitík, gjaldmiðilsstefnu og hugmyndaskort byggingariðnaðarins á fatlað fólk og gerir það ábyrgt fyrir fyrir húsnæðisvanda ungs fólks á Íslandi. Hún segir að gengið sé of langt á forréttindi ófatlaðs fólks til þess að tryggja grundvallarmannréttindi fatlaðs fólks.

Hún setur fram staðreyndir sem ala á fötlunarhatur án þess að kanna þær til hlýtar sem er að mínu mati alvarlegt ábyrgðar- og siðleysi af aðstoðarritstjóra eins stærsta fjölmiðils á landinu. Hún horfir algjörlega fram hjá þeirri staðreynd að það hefur verið sýnt fram á, síendurtekið, að kostnaður við algilda hönnun og breytingar á byggingarreglugerð er ekki þess eðlis að um hann sé einu sinni vert að tala. Út frá langtímasjónarmiði er ljóst að það er hagkvæmara að huga að aðgengilegri fjölbreytni. Fatlað fólk er vonandi í auknum mæli að verða sjálfstæðara með viðeigandi aðstoð, stoðtækjum og aðgengi eins og í öðrum löndum og er því síður upp á aðstandendur eða stofnanir komið. Lífaldur okkar allra, fatlaðs og ófatlaðs fólks, fer hækkandi, sem krefst líka aðgengis.

Allt það fólk sem talar niður að tryggja betur í lögum algilda hönnun er ekki bara að gera lítið úr fötluðu fólki heldur einnig byggingariðnaðinum og eigin stærðfræðikunnáttu. Það er augljóslega fjárfesting að draga úr stofnannavistun fatlaðs fólks og auka tækifæri þess til þess að eignast eigið heimili. Auk þess hljótum við að treysta arkitektum, byggingarfræðingum, hönnuðum og öllum þeim iðnaðarmönnum sem koma að því að byggja hús til að geta gert það með fjölbreyttum og hagkvæmum hætti án þess að mismuna fötluðu fólki, ungu sem öldnu.

Ef ekki vil ég að Fanney Birna og öll hennar skoðanasystkini svari mér eftirfarandi spurningu; hvað er þá planið með fatlað fólk? Að gera okkur öll heimilislaus? Eða að senda okkur öll í gasklefann?

Hér að neðan má sjá myndband um mannréttindabaráttu fatlaðs fólks í Bandaríkjunum.


9 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page