
Tabú í Mannréttindahúsið
- Tabú

- Sep 5
- 1 min read

Þann 1. september sl. flutti Tabú í skrifstofu Mannréttindahússins í Sigtúni. Eins og kemur fram á heimasíðu hússins sameinar það ,,fjölbreytt samtök sem berjast fyrir mannréttindum hvert á sínum forsendum."
Tabú hefur verið starfandi í 11 ár eða síðan 2014. Hreyfinguna höfum við fyrst og fremst haldið úti frá eldhúsborðum ýmissa fatlaðra og langveikra kvenna. Námskeið og viðburði höfum við svo fengið að hýsa, ýmist að kostnaðarlausu eða gegn vægu gjaldi, hjá ýmsum samtökum og stofnunum, m.a. háskólum á höfuðborgarsvæðinu, Stígamótum, safnaðarheimili Ástjarnarkirkju og Rauða kross fataverslun. Þó svo að það hafi reynt á okkur að hafa ekki samastað erum við þakklát öllum þeim stöðum sem hafa veitt okkur pláss og rými til þess að rækta feminísku fötlunarhreyfinguna okkar.
Við erum þó virkilega spennt fyrir því að hafa loksins skrifstofu og aðgengi að fleiri rýmum fyrir jafningjastuðninginn og annað mikilvægt starf sem hefur það grundvallar markmið að vinna gegn margþættri mismunun og stuðla að félagslegu réttlæti fyrir fatlaðar konur og kvár og öll systkini okkar á jaðrinum, þvert á hópa.
Við verðum með fasta opnun alla miðvikudaga fram að áramótum amk. frá kl. 13:00-15:00. Þá verður hægt að kíkja til okkar í kaffi og spjall.
Skrifstofa Tabú er staðsett á fyrstu hæð á A gangi í Mannréttindahúsinu. Þar í móttökunni tekur gott fólk á móti þér og getur náð í okkur til þess að taka á móti þér. Aðgengislýsingu á mannréttindahúsinu má finna hér: https://mannrettindahusid.is/adgengi-mannrettindahusid/
Við þökkum Mannréttindahúsinu fyrir hlýjar og góðar móttökur. Við hlökkum til vetrarins.







