Dagsetning, 4. apríl 2016
Tabú, femínísk fötlunarhreyfing, hefur fengið til umsagnar þingsályktun um Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólksi. Samkvæmt þingsályktuninni ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um réttindi fatlaðs fólks sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 13. desember 2006. (hér eftir „Samningurinn“).
Vakin er athygli á að ákvörðun um fullgildingu Samningsins var samþykkt af Alþingi 11. júní, 2012, með samþykkt framkvæmdaáætlunar um málefni fatlaðs fólks til ársins 2014 (sjá þingskjal 1496 — 440. mál. Nr. 43/140). Á grundvelli hennar hefur Innanríkisráðuneytið leitt vinnu samstarfsnefndar ráðuneyta við að undirbúa fullgildingu samningsins. Vísað er til liðar F1 í umræddri framkvæmdaáætlun þar sem fram kemur að Innanríkisráðuneytinu hafi verið falin sú ábyrgð.
Í ljósi þessa verður að spyrja hvers vegna ákvörðunin um fullgildingu Samningsins sé nú endurtekin, hvort þingsályktunin hafi í för með sér ógildingu fyrri ákvörðunar og hvort óvissa sé nú um það undirbúningsferli sem átt hefur sér stað, eða hvaða afleiðingar aðrar samþykkt þingsályktunartillögunnar kunni mögulega að hafa í för með sér. Þá verður að spyrja hvers vegna beiðni um umsögn kemur frá Velferðarnefnd Alþingis en ekki frá Innanríkisráðuneytinu sem ber ábyrgð á fullgildingunni. Þessi óvissa felur í sér vonbrigði og lítilsvirðingu við þá miklu vinnu sem fatlað fólk hefur lagt af mörkum í tengslum við fullgildingarferlið og baráttu þess fyrir langþráðum mannréttindum.
Í þeirri tillögu sem nú er lögð fram og er hér til umræðu kemur fram að markmið Samningsins sé að „efla, verja og tryggja jafna stöðu allra einstaklinga óháð skerðingum“. Teljum við að hér sé ekki farið með rétt mál að fullu þar sem í markmiðsgrein samningsins er sagt efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess (1. gr.). Þar að auki er samningurinn ekki „leiðarvísir“ eða „jafnréttissamningur“ – heldur fyrst og fremst heildstæður mannréttindasamningur sem deilir sömu afstöðu og markmiðum sem fram koma í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamningum um mannréttindi.
Varað er við því viðhorfi sem fram kemur í þingsályktunartillögunni í umfjöllun um mörg ákvæði Samningsins að skylda ríkisins felist fyrst og fremst í vinnu að stöðugum framförum í málaflokknum, með öðrum orðum að hún feli í sér „viðvarandi verkefni“ við að virða, vernda og tryggja þau réttindi sem kveðið er á um í Samningnum. Skuldbinding ríkisins er sú að tryggja þau mannréttindi sem felast í Samningnum og að ákvæði hans séu virk og virt þannig að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar (4. gr.).
Fatlað fólk á Íslandi býr við „mismunun vegna fötlunar“ í skilningi Samningsins þar sem það býr við ýmiskonar aðgreiningu, útilokun og/eða takmörkun á grundvelli fötlunar. Ítrekað koma upp mál sem opinbera slæma réttarstöðu fatlaðs fólks og ljóst er að staða fatlaðra kvenna og barna er sérstakt áhyggjuefni. Núverandi kerfi er langt frá því að uppfylla þær kröfur sem Samningurinn gerir til ríkis. Gildandi lög og framkvæmd er langt frá því að tryggja fötluðu fólki þau mannréttindi sem Samningurinn áréttir. Vísað er til Greinargerðar um fullgildingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Innanríkisráðuneytið birti þann 23. apríl 2013 og hátt í 50 síðna vinnuskjals Innanríkisráðuneytisins frá 16. júlí 2015 sem ber fyrirsögnina Tafla yfir lög og reglugerðir sem varða samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Í athugasemdum þingsályktunartillögunnar við einstakar greinar Samningsins má segja að allt tal um að Samningurinn stangist ekki á við markmiðsákvæði núgildandi laga, ekki sé þörf á breytingu laga og að aðeins þurfi að „skerpa á“ nokkrum ákvæðum núgildandi laga lýsi í besta falli alvarlegri vanþekkingu á því lagaumhverfi og veruleika sem snýr að fötluðu fólki á Íslandi. Nær væri að tala um hyldýpi sem ber í milli hvað varðar upplifun fatlaðs fólks á núverandi stöðu réttinda fatlaðs fólks og þeim markmiðum um mannréttindi sem ríki skulu uppfylla með Samningnum.
Í ljósi þess hve langur tími hefur liðið frá undirritun Samningsins og hversu knýjandi þörfin er fyrir skýr mannréttindaákvæði sem vernda fatlað fólk verður að gera þá kröfu að Samningurinn verði lögfestur hið fyrsta. Það er ekki hægt bjóða fötluðu fólki að bíða lengur eftir slíkri vernd á meðan unnið er að breytingu hinna ýmsu laga, sem mun taka ófyrirséðan tíma. Byrja verður á því að tryggja fötluðu fólki þau mannréttindi sem Samningurinn kveðjur á um og aðlaga íslenska löggjöf samhliða því.
Að lokum eru gerðar alvarlegar athugasemdir við þýðingu Samningsins á íslensku, þar sem í mörgum tilfellum virðist vera reynt að draga úr skyldum ríkisins á kostnað mannréttinda fatlaðs fólks. Sennilega má kenna um vanþekkingu þýðenda á málaflokknum. Hitt væri verra ef verið væri að aðlaga samninginn að núgildandi löggjöf og reyna þannig að komast hjá því að horfast í augu við þær nauðsynlegu kerfislægu breytingar sem gera þarf til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks. Mikilvægi er að ítrekað að sú þýðingarvinna fari fram í fullu samráði við og með aðkomu fatlaðs fólks, eins og áréttað er í Samningnum sjálfum.
Tabú, feminísk fötlunarhreyfing, lýsir eindregnum óskum um samtal við Velferðarnefnd um þingsálykun þessa. Innan raða hreyfingarinnar starfa konur sem allar búa yfir sérþekkingu og reynslu af fötlun og spegla fjölbrreyttan hóp fatlaðs fólks.
Virðingarfyllst, F.h. Tabú
Ágústa Eir Guðnýjardóttir Embla Guðrúnar Ágústsdóttir Freyja Haraldsdóttir Margrét Ýr Einarsdóttir Sigríður Jónsdóttir
Heimildir:
Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 http://www.althingi.is/altext/140/s/1496.html
Greinargerð um fullgildingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks Innanríkisráðuneyti 23. apríl 2013 https://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2015/lokaeintak-af-greinargerd-fylgiskjal-2.pdf
Tafla yfir lög og reglugerðir sem varða samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks https://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2015/Samningur-um-rettindi.pdf