top of page

Velmeinandi ofbeldismenn

Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

Á mínum 28 árum hef fólk oft misnotað vald sitt gagnvart mér. Og misnotkun valds einnar manneskju eða hóps gagnvart annarri manneskju eða hópi er ofbeldi.

Dæmi um ofbeldi sem ég hef orðið fyrir:

  1. Líkamlegt ofbeldi, t.d. í sjúkraþjálfun sem barn þar sem beinin mín brotnuðu ítrekað sökum markaleysis

  2. Umönnunartengt ofbeldi af hálfu ákveðins fólks sem hefur aðstoðað mig í gegnum tíðina í formi þess að meiða mig, niðurlægja mig með athugasemdum og vanrækja þarfir mínar, t.d. varðandi hreinlæti

  3. Kynferðisofbeldi í formi káfs, snertinga og kossa af hálfu ókunnugs fólks sem telur sig hafa óheftan aðgang að líkama mínum án míns samþykkis.

  4. Andlegt ofbeldi í formi hatursorðræðu, uppnefninga, athugasemda um meintan afbrigðileika minn og lítilsvirði, t.d. ,,Hvernig gátu foreldrar þínir hugsað sér að eignast fleiri börn eftir að þú fæddist?”

  5. Pólitískt ofbeldi í formi illra ígrundaðra og óupplýstra ákvarðana stjórnmálamanna og embættismanna sem hafa komið í veg fyrir það að ég hef getað tekið þátt í almennum vinnumarkaði, farið á salernið eða búið við öryggi á nóttunni.

Það er ekki langt síðan að ég fór að skilgreina þetta sem ofbeldi. Fyrir því eru margar ástæður sem felast fyrst og fremst í því að samfélagið kepptist um að kenna mér að örlög mín væru verri lífsgæði, valdaleysi og niðurlæging og að allir sem kæmu nálægt mér vildu vel og að ég ætti að vera þakklát.

Mér og fjölskyldu minni var kennt að beinbrot í sjúkraþjálfun væru tákn um aga og metnað fyrir mína hönd. Fagfólkið vildi mér vel og við attum að vera þakklát. Mér og fjölskyldu minni var kennt hvað starf t.d. heimahjúkrunar væri erfitt, illa launað og að starfsfólk væri í svo mikilli tímaþröng. Eðli málsins samkvæmt var þjónustan því frelsisskerðandi og niðurlægjandi. Allir væru að gera sitt besta og ég átti að vera þakklát. Mér var kennt að fólkið sem káfaði á mér, kyssti mig og strauk mér án míns samþykkis væri bara ,,að reyna að vera gott.” Þegar ókunnugur maður fyrir utan matvöruverslun á venjulegum eftirmiðdegi strauk yfir andlitið á mér, niður bringuna, brjóstið, magann og lærið og ég sagði frá því kepptist fólk við að sannfæra mig um að hann ,,meinti þetta ekki svona.” Ég átti bara að skilja að hann vildi mér vel og vera þakklát fyrir að einhver vildi snerta mig. Þegar ég fékk sent nafnlaust bréf frá ónefndum trúarsöfnuði um að ef ég myndi biðja bænirnar mínar myndi ég ,,læknast” af skerðingu minni (sem er ekki sjúkdómur) fóru margir að hlægja og sögðu að þetta hefði verið vel meint. Eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum og setti baráttu fatlaðs fólks fyrir sjálfsákvörðunarrétti og sjálfstæðu lífi meðvitað í uppnám voru allir tilbúnir, meira að segja vinir mínir, að sannfæra mig og annað fatlað fólk um að um væri að ræða gott fólk. Það vissi bara ekki betur.

Og hvaða skilaboð eru það? Jú, að skömmin og sökin er mín. Og okkar allra sem þurfum að líða ofbeldi.

Í tilefni af druslugöngunni hef ég þó ákveðið að vinna í því að skila skömminni.

Við fagfólkið sem réttlætti líkamlega og umönnunartengda ofbeldið, ókunnugu mennina út á götu sem komu fyrir hjá mér blygðunarkennd er þeir umgengust líkama minn eins og hlaðborð, trúarsöfnuðinn sem sendi mér bænabók og ógeðslegt bréf og valdhafana sem hafa komið frelsi fatlaðs fólks í uppnám vil ég segja; þið voruð/eruð að misnota vald ykkar. Það er ofbeldi. Sökin er ykkar og skömmin er hvorki mín né annarra sem tilheyra sama hópi.

Við ykkur sem eruð alltaf að sannfæra mig um að upplifun mín sé misskilin og allir vilji mér vel vil ég segja; hættið því! Það viðheldur sjálfsásökun, ábyrgðarkennd á ofbeldi og eigin skömm. Enginn sem misnotar vald sitt hefur afsökun.

Við ykkur sem hjálpuðuð mér að sjá að ofbeldi, í hvaða mynd sem er, er ekki örlög neins og að fötlun og kyngervi gefur ekki leyfi fyrir misnotkun valds vil ég segja; þakklæti mitt fer hér með til ykkar.

Gleðilega druslugöngu, sjáumst á morgun!

34 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page