top of page

Þegar ferðaþjónustan gleymdi mér í fermingarfræðslu: vanræksla er gömul saga og ný

Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

Ég sat í hjólastólnum mínum á ganginum í Vídalínskirkju árið 2000 eftir fermingarfræðslu. Vinir mínir voru farnir og enginn starfsmaður var á ferli í kirkjunni en ég hafði ekki svo miklar áhyggjur, það var eðlilegt að bíða eftir ferðaþjónustunni í hátt í klukkutíma og ég hafði einungis beðið í tuttugu mínútur. Ég var með nýlegann fyrsta gemsann minn í vinstri höndinni og horfði á batteríið vera að klárast. Það var mikill snjór úti svo ég gerði ráð fyrir að það myndi tefja bílinn enn frekar. Þegar um þrjú kortér voru liðinn fannst mér tímabært að fara og láta kanna málið en ég var innistæðulaus svo ég gat ekki hringt í heimasíma. Ég reyndi að hringja í vinkonu mína en við hringdum frítt í hvor til þess að biðja hana að hringja heim en síminn varð batteríslaus. Tíminn leið frekar, myrkrið varð meira og veðrið virtist versna. Ég fann að ég var orðinn óróleg og fannst vont að geta ekki fylgst með hvað tímanum leið. Ég reyndi þó að róa mig með því að ef mikið meira en klukkustund liði færu foreldrar mínir að hafa áhyggjur en þau voru auðvitað vön að vita aldrei almennilega hvenær ég myndi skila mér með þessum blessuðu bílum. Eftir tæplega tveggja tíma bið sá ég bílljós fyrir utan kirkjuna og stuttu seinna kom pabbi inn. Ég hafði gleymst hjá ferðaþjónustunni. Ég veit ekki hvernig það kom til enda var ég á þessu augnabliki einfaldlega bara fegin að pabbi væri kominn og að ég kæmist heim.

Vondar minningar eru erfiðar viðureignar. Sérstaklega þegar þær hellast yfir okkur af þunga, svo við beigjum einfaldlega af og bugumst undan þeim. Slíkar minningar heltust yfir mig í kvöld er ég las um unglingsstúlkuna með þroskahömlun sem gleymdist í ferðaþjónustubíl í marga klukkutíma. Í raun er þessi minning úr kirkjunni ekki sú versta í tengslum við ferðaþjónustuna því að ég vissi að á endanum kæmi einhver að sækja mig. Ég á erfiðari minningar af öllum óttanum sem fylgdi höstugum og dónalegum bílstjórum, bílferðum þar sem hjólastóllinn minn var festur svo illa að ég þrykktist til og frá, öllum eftirmiðdögunum þar sem ég kom heim búin á því á sál og líkama eftir langa og erfiða bílferð. Sálin var þreytt af óttanum, niðurlægingunni og valdaleysin og líkaminn var þreyttur og stundum slasaður eftir að hendast til og frá og/eða eftir að vera öll stíf af hræðslu. Því miður eru þessar minningar einar af þeim svörtustu frá minni barnæsku og unglingsárum. Ég hef sjaldan verið jafn fegin eins og daginn sem ég kom heim tognuð í náranum eftir eina bílferðina og útgrátin og mamma tilkynnti mér að þetta yrði mín seinasta ferð í þessum bílum. Hvers vegna kom sá dagur ekki fyrr? Nú, vegna þess að þetta var það eina sem stóð til boða til þess að fækka ferðunum sem foreldrar mínir þurftu að skutla mér í og úr skóla, sjúkraþjálfun, tómstundum og öðru sem ég var að gera með vinum. Ég hafði á þessum tíma ekki aðstoðarfólk, almenningssamgöngur voru og eru nær alveg óaðgengilegar, ég á tvo yngri bræður sem þurfti líka að hugsa um og foreldrar mínir, einkum faðir minn, var í fullri vinnu og oft erlendis. Við notuðum þessa bíla einvörðungu á tímum sem var erfiðast fyrir foreldra mína að skutla mér, annars bara alls ekki.

Síðustu vikur hefur verið mikil umræða um ferðaþjónustuna í kjölfarið á þeim breytingum sem voru gerðar nýverið. Ég hef lítið kynnt mér þær, bæði vegna þess að ég er blessunarlega laus úr viðjum þessarar ömurlegu þjónustuleiðar en einnig vegna þess að þessi umræða er mér svo erfið. Það er ljóst að þessi breyting er eitt risavaxið klúður og fullkomið ábyrgðarleysi af allra hálfu sem koma að þessu að keyra þetta í gegn svo illa undirbúið. Markmiðið var auðvitað að bæta þjónustuna, sem er löngu tímabært, en það breytir því ekki að hér hafa augljóslega verið gerð stórfelld mistök. Hins vegar verður að segjast að þessi leið í þjónustu hefur alltaf brotið mannréttindi okkar. Hún er þannig byggð upp að hún virðir ekki ferðafrelsi fatlaðs fólks. Hún virðir ekki tíma okkar og þar með lífsstíl okkar og skyldur. Hún virðir ekki öryggi okkar. Hún tekur ekki mið af aldri okkar og skerðingu. Hún sviptir okkur valdi yfir líkama okkar. Hún er einfaldlega ekki hönnuð fyrir manneskjur. Það, eitt og sér, er glæpsamlegt. Þetta er ekki vegna þess að bílstjórar eru í eðli sýnu vondar manneskjur. Margir þeirri eru og voru frábærir starfsmenn. Það hins vegar er ekki nóg í kerfi sem er gallað.

Það hlýtur því að vera frumskylda stjórnmálamanna, embættismanna hjá tengdum ráðuneytum og sveitarfélögum, réttindagæslumanna fatlaðs fólks, lögreglunnar, hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og starfsfólks ferðaþjónustunnar að krefjast rannsóknar á öllum þeim atvikum sem vitað er um að hafa átt sér stað og valdið fólki skaða, samhliða því að a) leysa þau brýnustu mál sem hægt er að leysa til þess að draga úr lífshættu fatlaðs fólks í ferðaþjónustubílunum og b) vinna að róttækum umbótum í ferðaþjónustu við fatlað fólk í fullu samráði við fatlað fólk sjálft og á grunni ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna og íslenskra laga sem kveða á um rétt til ferðafrelsis og friðhelgi frá ofbeldi og vanrækslu.

Um allann heim deyr fatlað fólk, einkum fólk með þroskahömlun, sökum vanrækslu og ofbeldis, daglega. Í dag hefði slíkt dauðsfall geta átt sér stað. Ég gæti verið ein þeirra sem hefði látið lífið í einhverjum þessara aðstæðna. Mörg þeirra atvika sem sem hafa átt sér stað í lífi fatlaðs fólks eru mjög falin og því erfitt að vinna gegn þeim. Vanrækslan gagnvart ofangreindrar unglingsstúlku komst þó upp. Við getum ekki ýtt því frá okkur. Öllum hlutaðeigandi aðilum ber skylda til þess að taka fulla ábyrgð á gjörðum sínum og bregðast við með þeim hætti að slíkt gerist aldrei aftur.

Við sem samfélag erum einnig skyldug til þess að horfa ekki framhjá því þegar að samborgarar okkar sætta illri meðferð og linna ekki látum fyrr en að raunverulegar breytingar hafa átt sér stað. Annars erum við líka ábyrg fyrir því misrétti sem hér á sér stað og í raun gerendur í kerfislægu og menningarbundnu ofbeldi gagnvart fötluðu fólki.

7 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page