Höfundar: Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir
Eins og við greindum frá í greinni Hvað er ableismi? er ableismi hugtak yfir mismunun og fordóma gagnvart fólki með ólíkar skerðingar, t.d. hreyfihömlun, þroskahömlun, einhverfu, blindu, döff og geðröskun. Skerðingarnar geta verið ýmist meðfæddar eða afleiðing slysa eða veikinda og mismunandi sýnilegar og getur því ableismi birst með ólíkum hætti í lífi fólks. Ableismi einkennist af þeim hugmyndum að fatlað fólk sé gallað og er ekki álitið vera eðlilegur hluti af samfélaginu og gengið er út frá því að það geti minna en aðrir. Til þess að auðvelda fólki að skilja betur hvað ableismi er koma hér dæmi um birtingarmyndir á ólíkum sviðum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að ekki er um tæmandi lista að ræða heldur eingöngu dæmi um birtingarmyndir.
Skólakerfið
Ableismi er þegar það er viðurkennt að senda börn í sérstaka skóla vegna þess að þau eru fötluð.
Ableismi er þegar skólabyggingar og skólalóðir eru óaðgengilegar fyrir fatlaða nemendur og viðeigandi aðstoð er ekki fyrir hendi.
Ableismi er bæði krafan um samræmd próf og útilokun frá samræmdum prófum.
Ableismi er þegar kennari gerir ráð fyrir að fatlaður nemandi geti ekki lært.
Ableismi er þegar skólaferðalög eru ekki skipulögð þannig að fatlaðir nemendur komist með.
Ableismi er þegar fatlað fólk er ósýnilegt í kennslubókum og öðru námsefni, t.d. fatlaðir líkamar í kynfræðslumyndefni.
Ableismi er þegar fatlaður nemandi þarf að vera inni í frímínútum því að snjórinn úti er ekki mokaður.
Ableismi er þegar foreldrar fatlaðra nemenda eða fatlaðir nemendur þurfa að hlusta á að aukakostnaður vegna sérstakra þarfa sé þungur fyrir skólann.
Ableismi er þegar gengið er út frá því að fatlaðir nemendur geti ekki eignast vini.
Ableismi er þegar kennari talar alltaf við stuðningsfulltrúann en ekki nemandann sjálfann.
Heilbrigðiskerfið
Ableismi er það að áætla að líf fatlaðs fólks hljóti að vera ömurlegt og stunda þ.a.l. hnakkaþykktarmælingar, legvatnsástungur o.fl. gagngert til þess að koma í veg fyrir fæðingu þess.
Ableismi er þegar framkvæmd er fóstureyðing lengur en almennt telst eðlilegt til þess að eyða fötluðu fóstri.
Ableismi er það þegar læknir neitar að skrifa upp á getnaðarvörn fyrir fatlaða manneskju þar sem hún getur ekki viljað stunda kynlíf. Jafnframt er ableismi að þvinga fatlað fólk til þess að taka getnaðarvarnir.
Ableismi er þegar ófrjósemisaðgerðir eru framkvæmdar án meðvitundar eða gegn vilja manneskju ef hún er talin fötluð og óhæft foreldri.
Ableismi er að hafa skimunartæki, t.d. vegna brjóstakrabbameins, sem ekki eru aðgengileg.
Ableismi er að hafa ekki upplýsingar á auðskildu máli svo mögulegt sé fyrir manneskju, t.d. með þroskahömlun, til þess að gefa upplýst samþykki.
Ableismi er það að hugsa að það sé minni harmleikur þegar fötluð manneskja styttir sér lífið en þegar ófötluð manneskja gerir það.
Ableismi er að bjarga ekki lífi manneskju eða gera ekki allt sem hægt er til þess að viðhalda lífi af því að hún er fötluð og því sé það ekki þess virði.
Ableismi er þegar fatlað fólk getur ekki fengið sjúkra- eða líftryggingu því hún er fötluð eða með langvarandi veikindi.
Atvinnulífið
Ableismi er það að ráða ekki fatlaða manneskju í vinnu á grundvelli fyrirfram ákveðinna hugmynda um getu eða þarfir.
Ableismi er að segja einhverjum upp ef hann veikist eða fatlast.
Ableismi er að veita fatlaðri manneskju ekki launahækkun, stöðuhækkun eða bónusa af því að hún er fötluð.
Ableismi er að hafa fyrirtæki og stofnanir óaðgengileg fyrir starfsfólk.
Ableismi er að ganga út frá því að fötluð manneskja geti ekki tekið aukna ábyrgð í starfi eins og ófatlaðir starfsmenn.
Ableismi er að notfæra sér það að sumir eigi erfiðara með að skilja kjarasamninga og vinnureglur og brjóta á þeim.
Ableismi er að borga fötluðu fólki lægri laun fyrir sambærileg störf og ófatlað fólk.
Ableismi er að búa til sérstakan kjarasamning fyrir verndaða vinnustaði sem heimiliar vinnuveitendum að greiða fötluðu starfsfólki laun sem eru undir lögum um lágmarkslaun.
Ableismi er að taka ekki tillit til ólíkra þarfa, t.d. að sumt fatlað fólk þarf að hvílast á vinnutíma, komast í næði eða fara í sjúkraþjálfun.
Stjórnmál
Ableismi er það að skipuleggja pólitískan fund á óaðgengilegum stað.
Ableismi er það að spyrja ekki hvort þörf sé á táknmálstúlki á viðburð sem verið er að halda á vegum stjórnmálaflokks.
Ableismi er að áætla að allir í stjórnmálaflokki búi við sama veruleikann, lífsreynsluna og félagslegu stöðuna og virða ekki þann reynsluheim sem af ólíkum aðstæðum koma.
Ableismi er að stafa ógn af margbreytileika, t.d. fötlun fólks, í stjórnmálaflokki.
Ableismi er að hafa ekki upplýsingar um framboðsmálefni aðgengileg fyrir alla, t.d. á auðskildu máli.
Ableismi er að kjörgögn, kjörstaðir og kjörklefar séu óaðgengileg.
Ableismi er að treysta fólki ekki til þess að velja aðstoðarmanneskju í kjörklefa ef hún talar óhefðbundið/ekki skýrt.
Ableismi er óaðgengileg vinnuaðstaða í ráðuneytum.
Ableismi er óaðgengilegur ræðustóll í alþingishúsi.
Ableismi er meiðandi orðræða alþingis- og sveitarstjórnarmanna um fatlað fólk.
Út á götu eða í almennu rými
Ableismi er að segja móðgandi brandara um hóp af fólki á grundvelli þess að það er með skerðingu.
Ableismi getur birst í formi hatursglæpa á fötluðu fólki, t.d. handtökur á fólki sem talar óskýrt en áætlað er að sé drukkið.
Ableismi er að áætla að ekki þurfi að gera ráð fyrir aðgengi af því að fatlað fólk komi hvort sem er aldrei (án þess að hugsa út í hvers vegna það er).
Ableismi er það að ganga út frá að manneskja sé ekki með skerðingu af því það sést ekki utan á henni.
Ableismi er að hunsa manneskju af því þú skilur hana ekki.
Ableismi er að bjóða fötluðu fólki aðstoð en virða ekki eða jafnvel móðgast ef hún er afþökkuð.
Ableismi er að spyrja fatlaða manneskju; ,,hvað kom fyrir þig?” eða ,,af hverju ertu svona?”
Ableismi er að sýna fötluðu fólki vorkun því það sé fatlað.
Ableismi er að líta svo á að káf sé ekki kynferðisleg áreitni þegar um fatlaða manneskju er að ræða vegna þess að hún er ekki álitin kynvera eða hafa yfirráð yfir líkama sínum.
Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir tóku saman.
コメント