top of page

Gleðilegt byltingarár 2016 og takk fyrir allt 2015

Það er komið að áramótum enn á ný og alltaf gott að staldra við, skoða farinn veg og horfa fram á við. Tabú hefur vaxið og dafnað í höndum og hjörtum margra fatlaðra kvenna 2015 og mun gera það áfram á komandi ára, án nokkurs vafa.


Tabúkonur tóku þátt í kvennamálþingi fatlaðra kvenna um kynlíf og kynverund í Háskólanum í Leeds á föstudag. Þar hittum við m.a. Önnu Lawson sem er fötluð fræðikona, prófessor og mannréttindalögfræðingur við sama háskóla og fulltrúa systrasamtaka Tabú í Bretlandi; Sisters of Frida. Frábær dagur, mikill áhuga fyrir Tabú og margt spennandi framundan!

Tabúkonur tóku þátt í kvennamálþingi fatlaðra kvenna um kynlíf og kynverund í Háskólanum í Leeds á föstudag. Þar hittum við m.a. Önnu Lawson sem er fötluð fræðikona, prófessor og mannréttindalögfræðingur við sama háskóla og fulltrúa systrasamtaka Tabú í Bretlandi; Sisters of Frida. Frábær dagur, mikill áhuga fyrir Tabú og margt spennandi framundan!


Fyrri helming ársins dvöldum við í Englandi og hvíldum okkur að hluta. Við vorum jú í skiptinámi og á fullu að sækja og halda fyrirlestra. Við fengum þó smá rými til þess að fókusera á okkur sjálfar, rækta hugann, vinda ofan af hjörtunum sem voru orðin veðruð eftir flókin ár og tíma til þess að stækka sjóndeildarhringinn. Við héldum fyrirlestra í Manchester, Chester, Sheffield, Leeds, Glasgow og Windsor í háskólum, á ráðstefnum og hjá samtökum fatlaðs fólks. Okkur var vel tekið og fengum uppbyggileg og slípandi viðbrögð sem hafa verið okkur hvatning og bæting.

Við Íslandskomu byrjuðum við á því að hitta Tabúsystur og var það dásamleg heimkoma. Við opnuðum líka nýja heimasíðu sem var stökkpallur okkar út í haustur. Sem hópur höfum við sent frá okkur yfirlýsingar og staðið fyrir mótmælum. Allt hefur það kostað okkur allar mikinn kjark, ósérhlífni og þykkan skráp en við höfum valdeflst saman, deilt sársaukanum og gleðinni og orðið enn nánari en við vorum. Hver og ein kona hefur einnig tekið sínar baráttur, sumar sýnilegar almenningi, aðrar í sínu persónulega lífi. Hver um sig mikilvæg og samfélagsumbætandi.


Ugla, Iva, Rán og Freyja með kindla á ljósagöngu

Ugla, Iva, Rán og Freyja með kindla á ljósagöngu


Við höfum einnig tekið þátt í Jafnréttisdögum HÍ, skrifað pistla og greinar og sinnt kennslu, Freyja leiddi ljósagöngu UN women ásamt, Ívu, Rán og Ugla Stefaníu, við höfum veitt ráðgjöf til sveitarfélaga og annarra.

Á lokaspretti ársins uppskárum við svo vel í formi styrkja. Við fengum styrk frá verkfræðistofunni Eflu, Landsbankanum og Kvennahreyfingu ÖBÍ, sem við vinnum náið með. Jafnframt hafa Stígamót boðið fram húsnæði sitt til okkar svo við getum haldið námskeið. Styrkirnir fara einmitt beint til fatlaðra kvenna í formi námskeiða. Grunnnámskeið verður í boði fyrir nýjar konur í ársbyrjun ásamt framhaldsnámskeiði fyrir núverandi Tabúkonur. Heimasíðan mun halda sínum dampi, við ætlum að halda námskeið hjá Endurmenntun HÍ, halda áfram að kenna og fræða víða og sinna markvissu andófi með alls konar leiðum. Engin lognmolla framundan semsagt enda til mikils að vinna.


Sigríður, María, Ágústa og Pála í pallborði á jafnréttisdögum HÍ

Sigríður, María, Ágústa og Pála í pallborði á jafnréttisdögum HÍ


Með þakklæti kveðjum við árið sem er að líða og af staðfestu tökum við á móti því nýja. Öllum styrktaraðilum, pistlahöfundum, skipulagsfríkum, kvenhugsuðum og baráttusystrum sendum við kærleika og þakkir fyrir allt.

Embla og Freyja,

Talskonur Tabú, baráttusystur og vinkonur

2 views
bottom of page