top of page

Gísli: Ég er fatlaður allan sólarhringinn og ég bý heima hjá mér

Höfundur: Gísli Björnsson

Ég heiti Gísli, er 30 ára og bý í Reykjavík. Ég er fatlaður, bý heima hjá mér og er með notendastýrða persónulega aðstoð allan sólahringinn. Það er gott að búa á mínu eigin heimili því þá get ég ráðið sjálfur hvað ég geri. Mér finnst gaman að hlusta á tónlist, horfa á sjónvarpið, elda góðan mat og býð gjarnan vinum og vandamönnum í heimsókn. Þegar ég hlusta á útvarpið eða tónlist vel ég sjálfur hvað ég hlusta á eins og td. Rás 1. og íslenska tónlist. Þegar ég horfi á sjónvarpið fæ ég aðstoð við að skoða dagskránna og velja sjónvarpsefni í Sarpinum sem mig langar til að horfa á. Mér finnst líka gaman að horfa á íþróttaleiki og fá mér einn bjór með. Það er skemmtilegt að elda sér góðan mat eins og heimatilbúinn hamborgara eða svínakjöt. Stundum baka ég og býð fjölskyldufólki eða vinum í kaffi. Ég fer oft í tölvuna og hlusta á messu eða fer á Youtube – þá fæ ég aðstoð við að finna það sem mig langar til að horfa eða hlusta á. Stundum er ég þreyttur og langar til að vera í friði og þá er líka gott að getað verið það.


GÍsli með systur sinni Kötu að drekka rauðvín í utanlandsferð. Bæði eru brosandi.

GÍsli með systur sinni Kötu að drekka rauðvín í utanlandsferð. Bæði eru brosandi.


Með NPA get ég stundað vinnu sem verkefnisstjóri við Háskóla Íslands. Áður starfaði ég á Kaffihúsinu GÆS sem ég tók þátt í að stofna ásamt fjórum öðrum frumkvöðlum. Ég starfaði sem varaformaður í stjórn NPA miðstöðvarinnar í fjögur ár og sinnti fræðslustörfum um allt land. Ég spila líka á hljómborð í sunnudagsskóla Laugarneskirkju í hverri viku. NPA gerir mér kleyft að stunda ferðalög þegar mér hentar bæði innanlands og utanlands. Á síðustu árum hef ég t.d. farið í tónleikaferðalag til Finnlands, að heimsækja vinkonur mínar í Manchester, í útskrift frænku minnar í London, í vinnuferð til Toronto og ýmis önnur ferðalög með vinum og fjölskyldu. Af því að ég er með NPA get ég hjálpað öðrum og gert fólki sem mér þykir vænt um greiða, t.d. hjálpað systkinum mínum að flytja. Ég get líka farið út að skemmta mér og stundað áhugamál, t.d. hitt vini mina á barnum, farið í leikhús, farið á tónleika, kíkt í heimsókn o.fl. Ég get stundað tómstundir eins og að æfa á hljómborð, spila í bjöllukórnum, spilað í hljómsveit, verið í leiklist. Með NPA get ég verið aktivisti og barist fyrir mannréttindum með því að skrifa greinar, halda fyrirlestra og vera sendiherra Samnings Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi fatlaðs fólks.

Mér finnst mikilvægt að allt fatlað fólk hafi tækifæri til að lifa sjálfstæðu lífi og taka þátt í samfélaginu.

Ég stend með ykkur, Benedikt og Salbjörg.

Þessi grein er hluti af virðingarvakningu Tabú til stuðnings Benedikts H. Bjarnason og SalbjörguAtladóttur en þau hafa bæði þurft að lögsækja Reykjavíkurborg fyrir mannréttindabrot og tapað málunum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og öðru fyrir hæstarétti. Fatlað fólk sem býr við þau réttindi að búa heima hjá sér með aðstoð mun deila reynslu sinni. Það er okkar von að þær fari eins og eldur í sinu um samfélagið og trufli valdhafa sem mest. Við hvetjum samborgara okkar til þess að deila greinunum á Facebook og tweeta eins og enginn sé morgundagurinn undir myllumerkinu #heimahjámér og merkja héraðsdóm, hæstarétt, Reykjavíkurborg, Dag B. Eggertsson og aðra í borgarstjórn við sem flest tækifæri.

22 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page