top of page

Lætur píkuna ekki aftra sér…

Höfundur: Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

Þegar fjallað er um fatlað fólk í fjölmiðlum landsins má oftar en ekki sjá setningar, og jafnvel fyrirsagnir, á borð við „lætur fötlun sína ekki aftra sér“ eða „lætur ekkert stöðva sig þrátt fyrir fötlunina“. Efni fréttanna virðast hafa lítil áhrif á fjölmiðlafólk sem finnur sig knúið til þess að troða fyrrgreindum setningum inn í ótrúlegustu fréttir. Það virðist því mikið fréttaefni ef við, fatlað fólk, gerum eitthvað sem alla jafna þykir hversdagslegt.

Nú er ég svo ljónheppin að tilheyra þónokkrum jaðarhópum og því ættu fjölmiðlar að hafa af nógu að taka. Þótt ótrúlegt megi virðast þá hef ég aldrei séð fjölmiðil skrifa „Embla lætur samkynhneigðina ekki stöðva sig og stundar nú nám við Háskóla Íslands“ ekki frekar en „Embla lætur píkuna ekki aftra sér frá því að láta drauma sína rætast“ – enda væri slíkur fréttaflutingur fáránlegur. Af einhverjum ástæðum hef ég þó alloft séð fjölmiðil skrifa „Embla lætur hreyfihömlunina ekki hindra sig í að lifa lífinu“ og það þykir ekki svo fáránlegt. Í stað þess að fjalla um það sem ég raunverulega geri kjósa fjölmiðlar að fjalla um það sem ég geri ekki.

Sem meðlimur ofangreindra jaðarhópa upplifi ég vissulega margar hindranir þegar kemur að almennri samfélagsþátttöku.

  1. Sem kona má ég til dæmis búast við mun lægri launum en karl í sambærilegri stöðu.

  2. Sem lesbía má ég búast við því að fá ekki að ættleiða barn og ég má búast við því að verða drepin fari ég í heimskón til Rússlands eða Úganda.

  3. Sem fötluð kona má ég til dæmis búast við því að á mig sé glápt og að mér sé neitað um atvinnu.

Það að ég megi búast við lægri launum en karlar hefur ekkert með kynfæri mín að gera heldur tengist það valdstrúktúr samfélagsins og rótgrónum hugmyndum okkar um kynin. Það að ég hafi meiri áhuga á því að stofna til ástarsambands við konu frekar en karlmann er hvorki ástæða þess að ég fái ekki að ættleiða börn né að ég verði mögulega drepin í Rússlands eða Úganda. Ástæðuna má rekja til fordóma samfélagsins í garð hinsegin fólks. Jafnframt er skerðing mín ekki ástæða þess að á mig sé glápt og að mér sé neitað um atvinnu. Ástæðuna má rekja til fordóma samfélagsins og ríkjandi hugmynda um að líf fatlaðs fólks sé ekki eins mikilvægt og líf annarra. Það væri því miklu nær að birta fréttir á borð við „Embla lætur fordóma samfélagsins ekki stöðva sig og stundar nú nám við Háskóla Íslands“ eða „Sigríður Ingibjörg situr enn á þingi þrátt fyrir mikla karlrembu sem þar viðgengst“.

Ég velti því fyrir mér hversu lengi það mun þykja fréttnæmt að fatlað fólk láti fötlun sína ekki hindra sig?

Á facebook-síðu Tabú má finna myndaalbúmið ‘Í fréttum er þetta helst’ þar sem safnað hefur verið saman Íslenskum hetjufréttum.

Með von um góðar stundir og fréttnæmar fréttir. Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

Þess má geta að ég lét hvorki samkynhneigðina, píkuna né fötlunina hindra mig við gerð þessa pistils. 

26 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page