top of page

Manchesterdvöl Emblu og Freyju

Eftir sleitulausa fjögurra ára vinnu við mannréttindabaráttu í NPA miðstöðinni og stofnun Tabú vorum við vinkonurnar sammála um að Íslandshvíld væri góð fyrir hugann og hjartað, það væri kominn tími til þess að víkka sjóndeildarhringinn í námi og starfi, kynnast fleira fræða- og baráttufólki og upplifa eitthvað nýtt.

Í janúarbyrjun lögðum við land undir fót/hjól og fluttum til Manchester á Englandi til þess að fara í skiptinám, Embla í BA námi sínu í félags- og kynjafræði og Freyja í MA námi sínu í kynjafræði. Námið var stundað við Manchester Metropolitan University.


Embla og Freyja fyrir utan Manchester Metropolitan University


Undirbúningurinn var krefjandi og tók á allar okkar taugar. Ráða þurfti aðstoðarkonur í verkefnið, finna húsnæði fyrir okkur allar, flytja hjólastóla og allskyns lífsnauðsynjar til Manchester, eiga við gjaldeyrishöft, ásamt þessu hefðbundna eins og að fylla út Erasmus+ styrktarumsókn og umsókn um viðbótarstyrk vegna fötlunar. Þegar út var komið gekk dvölin þó eins og í lygasögu.


Embla og Freyja ræða við námráðgjafa


Auk þess að stunda námið okkar, kynnast borginni og tengja okkur á vettvangi réttindabaráttu, vorum við fengnar til að halda fyrirlestra í Englandi. Við kenndum í háskólum í Sheffield og Chester þar sem við fjölluðum um aktivismann okkar í tengslum við NPA baráttuna og hvernig við leiddumst út í það að setja Tabú á laggirnar, þ.e. tókum feminískt tvist á baráttuna fyrir sjálfstæðu lífi á Íslandi. Við fjölluðum um svipað efni á málþingi um NPA í háskólanum okkar og heimsóttum samtök fatlaðs fólks um sjálfstætt líf og samfélag án aðgreiningar í Glasgow með slíkan fyrirlestur í farteskinu. Við fórum einnig til Leeds og tókum þátt í málþingi um fatlaðar konur, kynverund, kynlíf og ofbeldi þar sem við kynntum Tabú.


Baráttukonan Pam Duncan-Glancy bauð okkur í skoðurnarferð um skoska þinghúsið þar sem við hittum samstarfsmann Pam, þingmanninn Ken Macintosh. Á efstu myndinni má sjá hópmynd af (frá vinstri): Pam, Freyju, Ken og Embla. Myndin fyrir neðan vinstramegin sýnir glæsilegan þingsalinn og myndin hægramegin er af Emblu og Freyju með þinghúsið í baksýn.


Í blálokin á dvöl okkar tókum við svo þátt í að skipuleggja með vinum okkar og baráttu- og fræðasystkinum málþing í Sheffield um líkamann, kynlíf og kynverund og krypp og hinsegin áhrif í því samhengi. Freyja talaði um aktivismann og pólitíkina sem felst í að „fatla‟ kvenleikann og „kyngera‟ fötlun undir yfirskriftinni The wheeling of shame: The political action of sexing up disability and cripping up femininity. Embla talaði um hvernig staðlaðar hugmyndir um kynlíf geta haft takmarkandi áhrif á kynlíf fatlaðs fólks (og annarra) og viðhorf til þess, auk þess sem hún benti á hvernig fötlun getur í raun verið tækifæri fyrir alla til þess að endurhugsa kynlíf og hvað í því felst. Fyrirlestur hennar bar yfirskriftina Disability: A Chance to Rethink Sex. Að lokum kynnti Freyja svo fyrstu niðurstöður meistararannsóknar sinnar um sálrænar afleiðingar fyrir fatlaðar konur af margþættri mismunun á kvennasálfræðiráðstefnu í Windsor.


Embla heldur fyrirlestur í Sheffield



Freyja heldur fyrirlestur í Sheffield



Í Háskólanum í Leeds tóku við þátt í kvennamálþingi fatlaðra kvenna um kynlíf. Þar hittum við m.a. Önnu Lawson sem er fötluð fræðikona, prófessor og mannréttindalögfræðingur við sama háskóla og fulltrúa systrasamtaka Tabú í Bretlandi; Sisters of Frida.


Við vorum þó ekki alltaf að tala sjálfar og sóttum fjöldan allan af viðburðum og fyrirlestrum í tengslum við svartan femínisma og hinsegin- og fötlunarbaráttu. Við komum því heim með huga og hausa stútfulla af nýjum upplýsingum og hjörtu stútfull af þakklæti fyrir allt það stórkostlega fólk sem við fengum að hlusta á, vinna með og eignast sem vini.

Við hlökkum til þess að vinna úr þessu öllu hér á Tabú með ykkur í vetur. Fylgist með okkur á Facebook og Twitter (@tabufem) svo þið missið ekki af neinu.

– Embla og Freyja

8 views
bottom of page