top of page
  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram

Námskeið fyrir fatlaðar og langveikar konur: Margþætt mismunun og mannréttindabarátta

Í desembermánuði fékk Tabú styrki til þess að halda þriðja grunnnámskeiðið frá upphafi fyrir fatlaðar og/eða langveikar konur en mikil eftirspurn hefur verið eftir slíku námskeiði. Fyrri námskeið hafa vakið mikla ánægju og skapað hóp af konum sem nú vinnur saman að því að efla sig sjálfar og vinna að samfélagsumbótum, hver með sínum hætti.

Næsta námskeið hefst 2. febrúar 2016 og er samstarfsverkefni Tabú og Kvennahreyfingar ÖBÍ. Fjallað verður um áhrif margþættrar mismununar (t.d. á grundvelli fötlunar og kyngervis), klámvæðingar og ofbeldis á líkamsímynd, kynverund og stöðu mannréttinda fatlaðra og langveikra kvenna. Markmið námskeiðsins er að skapa öruggara rými fyrir fatlaðar og/eða langveikar konur svo við getum deilt reynslu okkar án þess að eiga í hættu á að vera gagnrýndar eða stimplaðar. Einnig að undirbúa okkur fyrir aktivisma til þess að sporna gegn jaðarsetningu og mismunun.

Við leggjum áherslu á að námskeiðin séu fyrir allar konur, óháð tegund og sýnileika skerðingar. Við viljum kappkosta að allar konur sem taka þátt upplifi sig velkomnar og að með það fyrir augum skapa sem besta og aðgengilegasta aðstöðu fyrir okkur allar. Engin fötluð og/eða langveik kona er of „mikið“ eða „lítið“ fötluð/langveik til þátttöku á námskeiðinu. Fjölbreytileiki hópsins er styrkur námskeiðsins.

Tímabil: 2. febrúar-12. apríl 2016 Staður og tími: Á höfuðborgarsvæðinu, þriðjudögum kl. 19:00-22:00. Námskeiðsverð: 15.000 kr. Umsjón: Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir

Skráning er hér.

Við hlökkum til þess að hitta þig!

1 view
bottom of page