top of page

Nýtt á Tabú: Skuggaskimun

Við leggjum áherslu á að rjúfa þögn um veruleika fatlaðra kvenna og fatlaðs transfólks, barna og fullorðna, á forsendum okkar sjálfra og stuðla þannig að samfélagsumbótum, einkum til þess að draga úr margþættri mismunun.

Í því skyni höfum við farið af stað með Skuggaskimun sem hefur það hlutverk að kanna starfsemi stofnanna, hagsmunasamtaka, sveitarfélaga og fyrirtækja sem veita almenningi þjónustu, upplýsingar, ráðgjöf og stuðning. Okkur berast ítrekað upplýsingar og ábendingar í gegnum okkar innra starf um að ákveðnir staðir uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga fatlaðs fólks, einkum kvenna og barna. Við teljum það ákveðið ábyrgðarleysi að sitja aðgerðarlausar á slíkum upplýsingum og munum því nú, opinberlega, leitast við að fá svör frá stofnunum og samtökum sem við fáum ábendingar um að þurfi að bæta ráð sitt.

Markmiðið er tvíþætt:

  1. Valdefling: Að fötluð manneskja sem verður fyrir misrétti finni að henni er tekið alvarlega, á hana sé hlustað og að hún sjái tilgang með því að segja frá innan Tabú. Mikilvægt er að finni að hún geti haft áhrif fyrir sig og aðra í hennar sporum.

  2. Samfélagsumbætur: Að skima fyrir misrétti í umhverfinu til þess að draga úr og eyða því og þannig gefa viðtakendum tækifæri til þess að rýna í vinnu sína og stuðla að samfélagsumbótum.

Spurningar til viðtakenda verða settar á vef Tabú (www.tabu.is) sama dag og þær eru sendar til þeirra. Viðtakendur hefur val um hvort þeir svara þessum spurningum og munu svör þeirra vera birt þegar þau berast. Ef svör berast ekki innan fjórtán virkra daga mun Tabú upplýsa um það á heimasíðu sinni að svör hafi ekki borist. Ekki er hægt að óska eftir að svör verði ekki birt á heimasíðu.

Þar sem Tabú rekur starf sitt eingöngu á tilfallandi styrkjum og sjálfboðavinnu getum við ekki tekið við öllum ábendingum frá almenningi um fötlunarmisrétti. Í forgangi verða ábendingar frá því fatlaða fólki sem tekur þátt í innra starfi Tabú. Vonandi ber framtíðin í skauti sér tækifæri fyrir Tabú til þess að efla skuggaskimun enn frekar. Hægt er að styrkja starfið okkar hér og þannig stuðla að frekari áhrifum okkar og möguleikum.

2 views

Comments


bottom of page