top of page

Tíu vikna kvennanámskeiði lokið


Í kvöld lauk tíu vikna Kvennanámskeiði Tabú sem haldið var í samstarfi við Kvennahreyfingu ÖBÍ. Háskólinn í Reykjavík styrkti námskeiðið með því að hýsa það.

Á námskeiðinu fjölluðum við um hugtakið fötlun og hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur. Við fjölluðum um femínisma og kynjakerfið, ableisma, klám og klámvæðingu og áhrif þess á líkamsímynd okkar, ofbeldi, einkum kerfislægt og menningarbundið, þolendaskömm, kynlíf og fordóma gegn fötluðum konum sem kynverur og það hvernig við innbyrðum oft þessa fordóma og kúgun sem stundum heldur okkur niðri. Konurnar, ásamt okkur sem leiddum námskeiðið, deildu reynslu sinni og nutum við þess vel að spegla okkur í hvor annarri. Allar vorum við sammála um gildi þess að fá frið og rými sem fatlaðar konur til þess að ræða okkar upplifun og líðan án gildisfellingar eða sleggjudóma þeirra sem ekki hafa okkar reynsluheim. Þrátt fyrir að vera með ólíka skerðingu, á ólíkum aldri og koma úr ólíkum áttum var magnað að finna og skynja þá sameiginlegu reynslu sem við höfum af fatlandi samfélagi og þann samhug sem reynslan skapaði milli okkar allra.

Við viljum þakka öllum þeim konum sem tóku þátt það traust sem þær gáfu okkur og allann þann styrk og hugrekki sem þær sýndu með þátttöku sinni og framlagi. Við fundum það allar í hjarta okkar í kvöld að ballið er bara rétt að byrja; krafturinn í hópnum er þess eðlis að samfélagið mun ekki verða ósnert af því. Bíðið þið bara!

Tabú vill einnig þakka þeim sem studdu fjárhagslega, beint og óbeint, við námskeiðið. Það breytti okkur og þar með lífi okkar og líðan.

6 views

Comments


bottom of page