top of page

Tabú fordæmir brottvísun langveikra barna á flótta

Tabú tekur undir yfirlýsingu Samtakana ’78 um að fordæma þær aðgerðir sem áttu sér stað þegar hópur hælisleitanda var sendur úr landi í nótt. Við teljum, líkt og Samtökin, nauðsynlegt að sýna samstöðu um að vernda mannréttindi jaðarsettra hópa á flótta.

Ljóst er að í þessum hópi eru langveik börn. Langveik börn á flótta búa við margþætta mismunun, t.d. á grundvelli aldurs, langvarandi veikinda og flóttamannastöðu sinnar. Rannsóknir sýna að fötluð og langveik börn eru útsettari fyrir ofbeldi en önnur börn og að dauðsföll þeirra eru margfalt algengari séu þau á flótta.

Samkvæmt 11. grein Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur undirritað, kemur fram að ,,aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamförum”. Jafnframt stendur í 7. gr. að aðildarríkin eigi að „gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við önnur börn“ og að í „öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi.“ Í 1. gr. er það skýrt að „Til fatlaðs fólks teljast m.a. þeir sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.“ Þess ber að geta að í lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 53/1992 kemur fram í 1. grein að „einstaklingur á rétt á þjónustu samkvæmt lögum þessum sé hann með andlega eða líkamlega fötlun og þarfnist sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðingu. Enn fremur getur fötlun verið afleiðing af langvarandi veikindum, svo og slysum.“ Ef þessi ákvæði eru lögð saman við 12. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 kemur fram að veita megi dvalarleyfi af mannúðarástæðum, „t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi […] Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.“

Af ofangreindum ástæðum fordæmum við þá ákvörðun að vísa langveikum börnum á flótta og fjölskyldum þeirra úr landi. Við krefjumst þess að stjórnvöld noti vald sitt til þess að breyta þessari ákvörðun og veita dvalarleyfi. Jafnframt að löggjafin breyti regluverki og framkvæmdarvaldið verkferlum tafarlaust sem stuðlar að því að börn sæti aldrei aftur ómannúðlegri meðferð af þessu tagi. Það eru allar líkur á að brottvísanir langveikra barna á flótta kosti þau líf sitt.

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir, talskonur Tabú

1 view

Comentários


bottom of page