top of page

Undir glersúð: Ræða Freyju Haraldsdóttur á málþinginu Verka-konur

Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

Í gær þurfti ég að taka saman nokkur orð um feril minn sem á svo að fara í ráðstefnurit. Það væri ekki frásögufærandi nema hvað að ég blótaði því í huganum og hugsaði með mér hvað það væri vandræðalegt að skrifa um eigin frama. Ég byrjaði að skrifa og velti mikið fyrir mér hvort ég ætti ekki að sleppa hinu og þessu og hvort að það væri ekki bara óþarfi að telja allt upp og orða annað. Svo mundi ég að ég ætti að vera hér í dag, að tala um verk mín og afrek, ásamt öðrum konum. Í smá stund fékk ég hnút í magan yfir því að þurfa þess en skammaðist mín jafnharðan. Flissaði svo smá ein með sjálfri mér. Því mikið óskaplega sem það er einmitt hollt og gott fyrir okkur allar að vera hér í dag í þeim tilgangi að tala um okkur og afrek okkur.

Við eigum það sameiginlegt að vera aldar upp í heimi þar sem mannkynssagan er í raun karlkynssagan. Kvenkynssagan var aldrei sögð. Og hvað þá þeirra sem flokka sig utan hinnar hefðbundnu kynjatvíhyggju. Ég lærði t.d. það eitt um mannréttindabaráttukonuna Rosu Parks í sögutímum í framhaldsskóla að hún hefði ekki staðið upp í strætó og verið fangelsuð fyrir. Kennarinn hafði ekki fyrir því að segja okkur, og vissi það örugglega ekki sjálfur, að Rosa Parks neitaði ekki bara að standa upp í strætó. Hún vann hörðum höndum fyrir samtök svarts fólks sem börðust gegn rasisma og voru stýrð af svörtum körlum. Hún kenndi svörtum ungmennum heima í stofunni sinni áður en þau tóku próf sem skar úr um það hvort þau væru „nógu gáfuð“ til þess að mega kjósa. Hún ferðaðist milli fylkja í Bandaríkjunum til þess að heimsækja svartar konur sem hafði verið nauðgað af hvítum karlmönnum til þess að hlúa að þeim og styðja þær ef þær reyndu að kæra ofbeldismennina. Ég skrifaði hins vegar þriggja blaðsíðna ritgerð um Martin Luther King jr. og fékk að mörgu leiti þau skilaboð um að hann hafi græjað þetta einn. Drauminn stóra. Um Rósu lærði ég löngu seinna með eigin heimildarvinnu sem tók hellings tíma því flestir skrifa bara um atvikið í strætó. Eftir að hafa upplifað það að vera kona í mannréttindabaráttu vissi ég einfaldlega að það væri pottþétt haugalygi að það væri hennar eina afrek. Og það reyndist rétt hjá mér. Kom m.a. í ljós, í bók sem var rituð af konu, að Rosa vildi ekki tala um verk sín og afrek. Hún baðst undan því eins og hún gat.

Því lærum við það beint og óbeint að karlar hafi haldið uppi heiminum, að verk þeirra séu þau einu sem skipta nógu miklu máli til þess að tala um þau og að afrek okkar sjálfra séu því ekkert sérstaklega merkileg. Og ef við tölum um þau erum við jafnvel skammaðar fyrir að monta okkur. Mér er það t.d. mjög minnisstætt þegar ég var sex ára og tókst í fyrsta skipti að lesa heila Disney bók í einum rikk. Mér fannst gaman að lesa, var glöð yfir þessu afreki og sagði mörgum frá. Þangað til að ég var stoppuð af. Ég átti ekkert að vera að monta mig af þessu, var sagt. Ég dauðskammaðist mín. Nú velti ég fyrir mér hvort ég hefði líka verið skömmuð hefði ég verið ófatlaður drengur. Ég veit það ekki en leyfi mér að efast um það. Því hógværð okkar stúlkna og kvenna er jafnmikil dyggð og hroki drengja og karla.

Þegar ég lít yfir farinn veg eru það afrekin sem tengjast mannréttindabaráttu og andófi hins hefðbundna og viðurkennda sem mér þykir mest vænt um og ég er stoltust af. Sum þeirra eru pólitísk og opinber eins og baráttan fyrir notendastýrðri persónulegri aðstoð svo fatlað fólk öðlist vald yfir lífi sínu og líkama og geti stjórnað eigin lífi. Einnig baráttan fyrir því að fólk sem þarf aðstoð í kjörklefa við kosningar geti stjórnað því sjálft hver veitir þá aðstoð. Að setjast í stjórnlagaráð og verða varaþingkona eru hluti af þessum afrekum. Nú síðast afrekið að stofna feminískan vettvang fyrir fötlunarbaráttu, ásamt Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur, þar sem fatlaðar konur eru í aðalhlutverki: Tabú. Allt tengist þetta mannréttindum og því að andæfa þeim hugmyndum og höftum sem ég og annað fatlað fólk hef verið kerfisbundið kúguð af.

En pólitískt er persónulegt. Til þess að ná þessum afrekum, sem er fæstum lokið, hef ég þurft að vinna mikið með sjálfsmynd mína og líkamsverund. Ekki bara vegna þess að ég er fötluð heldur líka vegna þess að ég er kona og að ná afrekum ung. Ég geri ekki annað en að skalla glerþakið þó ég sé ekki einu sinni alltaf að reyna það. Það er nefnilega lægra til lofts eftir því hve mörgum valdaminni hópum við tilheyrum. Unga fatlaða konan er því eiginlega undir glersúð. Það getur verið mjög sársaukafullt fyrir mig að reka hausinn alltaf í á sama stað. Sérstaklega þegar fáir sjá að ég er að meiða mig því glerið er ósýnilegt flestum. Ég þurfti t.d. að læra að meta verðleika mína meira en ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ég hef þurft að læra að þegar Sigurður Líndal og Brynjar Níelsson kalla mig mannréttindafrekju og terrorista fyrir að vilja hafa kosningarrétt er það mikið hrós í raun. Ég hef þurft að sannfæra mig um að konur sem liggja og eru með óhefðbundinn líkama eigi rétt á að sjást í sjónvarpi eða halda ræðu úr þingpontunni án þess að hata sig og skammast sín. Það er eilífðarverkefni í raun og stundum mistekst mér. Stundum finn ég til með ríkis- og jöfnunarsjóði, trúi Brynjari og Sigurði og langar til þess að sleppa því að mæta þingsalinn svo ég geti verið heima að fela líkama minn sem passar ekki inn í hugmyndina um þingkonuna. Svo mesta afrekið er líklega að verða sterk persónulega til þess að geta tæklað hið pólitíska.

Og hvernig gerist það? Margt kemur þar inn í, en í dag ætla ég bara að fókusa á einn veigamesta þáttinn. Aðrar konur. Afrek annarra kvenna hjálpa mér að ná mínum eigin. Að horfa á mömmu mína, ömmur, frænkur og vinkonur afreka alls konar í lífinu stuðlar að afrekum mínum. En fyrir mér eru það fyrst og fremst afrek jaðarsettra kvenna, einkum fatlaðra kvenna, stór og smá, persónuleg og pólitísk, sem gefa mér svo mikinn kraft að stundum held ég að ég sé að springa. Þess vegna er Tabúafrekið okkar Emblu eitt af mínu helsta stolti í lífinu hingað til. Því þar höfum við safnast saman, fatlaðar konur, með alls konar skerðingar og á öllum aldri, og unnið að því dag frá degi að skapa okkur öruggara rými. Rými til þess að deila reynslu okkar, þekkingu og skoðunum hvor með annarri. Rými til þess að takast á og viðurkenna að innan okkar hóps er líka stigveldi. Rými þar sem er leyfi til þess að vera glaðar, stoltar, þreyttar, pirraðar, sorgmæddar og bálreiðar. Rými til þess að segja upphátt að við upplifum kerfisbundið misrétti af hálfu fatlaðra og ófatlaðra karla og ófatlaðra kvenna. Rými þar sem við getum talað um það hve vont er að bogra undir og skalla þessa glersúð sem nær enginn sér og vita að næsta kona veit líklega nákvæmlega upp á hár hvað þú ert að meina. Hún þarf ekki einu sinni að segja það upphátt, glottið, sorgin eða hvessan í augunum segir þér að hún hafi einmitt rekið sig í á sama stað – örugglega bara í gær.

Þetta rými er ekki einn staður heldur einfaldlega þar sem við komum saman í friði frá ófötluðu fólki og fötluðum karlmönnum. Þetta rými gefur okkur fót- og hjólfestu til þess að byggja okkur upp og hlúa að okkur persónulega. Til þess að geta tekið pláss og vald og unnið í að brjóta þetta fjandans glerþak sem meiðir okkur allar. Til þess að geta tengst öðrum hópum jaðarsettra kvenna og unnið með þeim gegn margþættri mismunun. Og hafið samtal af yfirvegun og óttaleysi við konur og karla með meiri forréttindi. Til þess að þrýsta á að stjórnvöld bregðist við því að jafnrétti snúist ekki bara um konur og karla, fatlað og ófatlað fólk, svona og hinsegin fólk, hvítt og svart fólk – heldur okkur öll saman. Það þarf að benda á og krefjast þess að gleraugun þurfi að vera margskipt til þess að samþætta ólík sjónarmið, t.d. fötlunar- og kynjasjónarmið. Ég get ekki stundum verið kona og stundum verið fötluð bara til þess að passa inn í jafnréttisbaráttuna. Ég get ekki tekið mig í sundur. Að gera þá kröfu til fatlaðra kvenna er líklega ein sterkasta birtingarmynd kúgunar. Við sem fatlaðar konur verðum að geta verið við allar. Heilar. Það er okkar helsti styrkleiki sama hverjar við erum. Þannig sé ég framtíð jafnréttisbaráttunnar. Þannig náum við árangri saman.

4 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page