top of page

Vekjum þá sem ennþá sofa

Höfundur: Ágústa Eir Guðnýjardóttir

Meðvirkni er alls konar og birtist á ýmsa vegu. Ein birtingarmynd meðvirkni er sú að gefa afslátt af réttindum, t.d. þegar fatlað fólk er svo meðvirkt með kerfinu að það ákveður, meðvitað, að sækja ekki rétt sinn, berjast ekki fyrir því að réttindi séu uppfyllt eða viðurkennd. Þetta er svo sannarlega ekkert séríslenskt fyrirbrigði; allsstaðar í heiminum býr fólk sem tilheyrir hinum svokölluðu jaðarhópum samfélaga sem ekki nýtur mannréttinda af ýmsum ástæðum. Ein sú versta birtingarmynd meðvirkninnar er þó sú þegar fólk veit að á því er brotið en gerir ekkert til að rétta hlut sinn. Og það á sannarlega við um margt fatlað fólk hér á landi, það veit að samfélagið gerir ekki ráð fyrir þörfum þess og óskum, en það gerir lítið sem ekkert í því að sækja rétt sinn og gera kröfu til þess að sjálfsögð mannréttindi þess séu virt.

Og orsakir þess eru margar. Ein þeirra er sú að sumt fatlað fólk hefur hvorki orku né getu til að berjast fyrir réttindum sínum í því flókna skrifræðisbákni sem velferðarkerfi Íslendinga er þrátt fyrir að það viti vel af öllum þeim brotum sem framin eru á hverjum einasta degi. Önnur ástæðan er sú að sumt fatlað fólk lítur svo á að fötlun þess setji það óhjákvæmilega í hlutverk þess sem má brjóta á, með öðrum orðum; samfélagið hefur svo rækilega kennt sumu fötluðu fólki að það sé á jaðrinum, að það eigi ekki sama rétt og miðjuhópar samfélagsins og langt frá því að komast nokkurn tímann á stall með forréttindastétt.

Sem betur fer fjölgar því fatlaða fólki sem áttar sig á að verið er að brjóta mannréttindi á því upp á hvern einasta dag ársins. Sem betur fer fjölgar því fatlaða fólki ört sem áttar sig á að það á undanbragðalaust rétt á að njóta sömu lífsgæða og aðrir þegnar samfélagsins. Og það fatlaða fólk sem er fullkomlega meðvitað um að verið er að brjóta réttindi á því og öðru fólki í svipaðri stöðu hér á landi ætlar svo sannarlega að vinna að því að upplýsa, vekja til meðvitundar og fræða þá sem ekki hafa enn vaknað.

Það verður helst gert með samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og kröfunni um að notendastýrð persónuleg aðstoð verði innleidd sem valkostur fyrir fatlað fólk hér á landi.

Veit fólk að Íslendingar gerðust aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks með undirskrift sinni árið 2007 en ennþá hefur hann hvorki verið lögfestur né innleiddur hér á landi, 7 árum síðar?

Veit fólk að þrátt fyrir ítarleg ákvæði hans um réttindi fatlaðs fólks og skyldur stjórnvalda er til fólk sem kemst aðeins á klósettið þegar kerfinu hentar?

Veit fólk að þrátt fyrir undirritun Íslendinga er til fatlað fólk sem býr á stöðum sem það hefur ekki valið sjálft, með fólki sem það vill ekki búa með og er nánast fangar? Það á þess ekki kost að velja sér sambýlisfólk, hefur enga stjórn á eigin lífi og getur með engu móti látið drauma sína eða langanir rætast?

Vissir þú þetta?

4 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page