top of page

Áhrif jarðskjálftans í Nepal á líf fatlaðs fólks: Saga Krishna Gautam

Krishna ræðir um reynslu sína af jarðskálftanum sem reið yfir Nepal í apríl 2015 og réttindabaráttu fatlaðs fólks í Nepal.

Forsaga Krishna Gautam býr ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum (stúlku og dreng; Pratikshyu, 12 ára og Pratik, 10 ára) í Karhmandu í Nepal. Áður var hann formaður Mið-vestur samtaka fatlaðs fólks í Nepal, NFDN (mid-western chapter of National Federation of the Disabled Nepal). Hann var einnig fyrsti fatlaði maðurinn sem varð meðlimur í CBR (community-based rehabilitation) samtökunum í Nepal sem beita sér fyrir félagslegri þáttöku, jöfnum tækifærum og endurhæfingu fatlaðs fólks. Árið 2004 fékk Krishna tækifæri til að stunda nám í eitt ár í Duakin Leiðtogafræðum en þau fræði eiga rætur að rekja til Japan og hafa það markmið að þjálfa fatlaða leiðtoga. Þar lærði Krishna um hugmyndafræðina um Sjálfstætt líf og alþjóðlegar hreyfingar fatlaðs fólks sem berjast fyrir sjálfsákvörðunarrétti og jöfnum tækifærum. Þegar hann sneri aftur til Nepal safnaði Krishna saman fólki til að vinna að stofnun fyrstu miðstöðina um sjálfstætt líf í Kathmandu. Þessa stundina vinnur hann sem ritari miðstöðvarinnar. Sjálfur notar Krishna hjólastól vegna lömunarveiki.

Þann 25. apríl 2015 var Krishna staddur í Nepalgunj, bæ sem er um 500 km fyrir vestan Kathmandu þegar jarðskálfti af stærðinni 7.8 á richter reið yfir. Skjálftar stóðu yfir í allt að tvær mínútur í senn og sama kvöld höfðu fundist að minnsta kosti 18 eftirskjálftar. Klukkan 20 að staðaltíma var vitað um amk 800 manns sem höfðu látið lífið og meira en 2.000 sem höfðu særst.

Hér að neðan er brot úr samtali við Krishna Gautam, um nýliðna lífsreynslu hans í jarðskjálftunum í Nepal og næstu skref í baráttu miðstöðvar um sjálfstætt líf fyrir réttindum fatlaðs fólks.

Hvenær settirðu á fót miðstöð um sjálfstætt líf? Hver var hugmyndin á bak við stofnun þessara samtaka? Starfsemi miðstöð um sjálfstætt líf hófst í Kathmandu árið 2006. Við vorum tíu manna hópur sem samanstóð af fötluðu fólki sem trúði á mikilvægi þess að nálgast málefnið út frá réttindum fatlaðs fólks. Áður fyrr urðum við að treysta að mestu á styrki frá mannúðarfélögum. Við viljum að baráttuhreyfing fatlaðs fólks sé leidd af fötluðu fólki sjálfu og að baráttumál okkar verði lögð fram og leyst af manneskjum sem sjálfar eru með fötlun. Það er ástæða þess að við stofnuðum miðstöðina.

Hvar varstu þann 25. apríl þegar jarðskálftinn átti sér stað? Hvernig var upplifun þín á þessum örlagaríka degi? Ég var staddur í Nepalgunj… Mér hafði verið boðið í hádegismat til vinar. Tvær manneskjur báru hjólastólinn minn inn um dyrnar og hjálpuðu mér þannig að komast inn í húsið. Eftir matinn vorum við að horfa á sjónvarpið og tala saman þegar jörðin tók að skjálfa með miklum hávaða. Áður en ég náði að átta mig á hvað væri að gerast, voru gestgjafarnir roknir út úr húsinu og út í garð…. Jörðin hélt áfram að skjálfa og ég hélt að ég myndi detta úr hjólastólnum. Á eftir komu gestgjafarnir aftur inn og hjálpuðu mér út úr húsinu. Jörðin skalf enn þegar við komum út. Þetta var hræðileg lífsreynsla. Sem betur fer var húsið bara á einni hæð.

Hvenær snerirðu aftur til Kathmandu? Hversu erfitt var að komast aftur til höfuðborgarinnar eftir skjálftann? Ég átti reyndar pantað flug aftur til höfuðborgarinnar þetta sama laugardagskvöld. En vegna jarðskjálftans var öllu flugi aflýst. Símasamband lá einnig niðri. Klukkutíma síðar komst ég loksins í samband við fjölskyldu mína í Kathmandu og fékk þær fréttir að dóttir mín hefði særst lítillega. Síðar tókst mér að fá far með næturrútu frá Nepalgunj til Kathmandu til þess að geta verið hjá fjölskyldu minni. Þann 26. apríl var ég loks kominn til konunnar minnar og barna. Nokkrum klukkutímum síðar kom annar risastór eftirskjálfti. Ég hafði miklar áhyggjur af fjölskyldu minni.

Hvernig aðstoðar þú fatlað fólk sem lenti í jarðskjálftanum?


Krishna á fundi með fötluðu fólki eftir jarðskjálftan í Nepal 2015

Krishna á fundi með fötluðu fólki eftir jarðskjálftan í Nepal 2015.


Fyrstu dagana vorum við svo hrædd að við þorðum ekki að yfirgefa fjölskyldu okkar. Það voru stöðugir eftirskjálftar og við gátum ekkert gert. Á meðan áttum við í símasambandi við samtök fatlaðs fólks á skjálftasvæðum til að fá upplýsingar um þann skaða sem skjálftinn hafði valdið fötluðu fólki. Þá höfum við líka komið upp tímabundnu húsaskjóli á opnum svæðum í Jawalakhei fyrir fatlað fólk sem hefur misst heimili sitt í skjálftanum og á hvergi athvarf. Sem stendur dvelja hérna um fimmtán manns í tjöldum, flestir þeirra í hjólastólum eða með alvarlega mænuskaða. Við búumst við fleira fötluðu fólki frá svæðunum sem hafa orðið verst úti, eins og Kavre og Sindhupachowk. Það getur dvalið hér í allt að þrjá mánuði eða meðan það hefur ekkert annað val. Á næstu dögum munum við reyna að útvega okkur aðstoðarfólk sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og eins þurfum við ýmis ný stoðtæki fyrir fólkið í búðunum.

Á morgun hyggstu mæta á skipulagsfund um verndarskýli. Hvernig ætlar þú að tala fyrir réttindum fatlaðs fólks þar? Ég held að fatlað fólk sé fyrstu fórnarlömbin í jarðskjálfum. Fatlað fólk er einnig líklegast til að vera skilið eftir eða gleymast í skyndibjörgunum og í hjálparaðgerðum. Þannig að við ætlum að reyna að virkja eins margar fatlaðar manneskjur og hægt er til að mæta á fundinn á morgun. Við munum setja fram þá kröfu að aðgengi að neyðarbyrgjum og tímabundnum búðum verði að vera líka hugsað fyrir fatlað fólk. Þess vegna verðum við að skipuleggja okkur og vera sýnileg á slíkum fundum, aðeins á þann hátt munu raddir okkar heyrast. En það sem mestu máli skiptir er að beina athygli að þeirri staðreynd að jarðskjálftinn hefur þær afleiðingar að margir særast og hljóta varanlega fötlun. Huga þarf vel að þeim einstaklingum. Ríkið þarf að fylgjast með bata þeirra og endurhæfingu, og einnig möguleikum á atvinnu síðar meir.

Hvers vegna telur þú að halda þurfi sérstaklega fram málstað fatlaðs fólk við slík tækifæri? Af hverju gleymist fatlað fólk í þessum aðstæðum? Ég tel að okkur hefur ekki tekist að vekja nægilega mikla athygli á málstaðnum eða að gera hann að ríkjandi stefnu í landinu. Ástæður þess kunna að vera að við erum sjálf ekki nægilega vel skipulögð sem hópur, okkur skortir samhæfingu og við höfum ekki náð að sýna fram á styrk okkar og áhrif sem hópur í samfélaginu. Við erum enn inni í skelinni. Nú er kominn tími til að skríða út úr skelinni og berjast fyrir réttindum okkar.

Þýðing: Arndís Lóa Magnúsdóttir

Viðtalið er þýtt af vef CBM. Hægt er að nálgast það hér.

1 view

Recent Posts

See All

Afstofnannavæðið skólakerfið!

Höfundur: Shain M. Neumeier Þýðing: Freyja Haraldsdóttir Að hverfa frá aðgreindum stofnannaúrræðum og verða hluti af samfélögum okkar...

bottom of page