top of page

Afstofnannavæðið skólakerfið!

Höfundur: Shain M. Neumeier

Þýðing: Freyja Haraldsdóttir

Að hverfa frá aðgreindum stofnannaúrræðum og verða hluti af samfélögum okkar hefur gert fötluðu fólki kleyft að njóta mannréttinda á sínum forsendum. Það hefur einnig varið okkur frá alvarlegu ofbeldi sem stofnanir leyfa og fela fyrir almenningi. Hinsvegar telur margt ófatlað fólk það mistök að skapa fötluðu fólki aðgengi að samfélagi án aðgreiningar og aðskilnaðar. Stundum spretta þau viðhorf út frá áhyggjum um velferð okkar sem byggja á röngum forsendum en oftar byggja þessi viðhorf á óþægindum ófatlaðs fólks gagnvart líkama okkar og huga, pirringi vegna þarfa okkar og trega til þess að veita nauðsynlegan stuðning og viðeigandi aðlögun. Það bendir á fatlað fólk sem hefur fallið milli kerfa, og vegna þess skaðað sjálft sig og aðra, og notar það til þess að réttlæta stofnannavistun án þess að meta kerfislægu vandamálin sem ullu því að fólkið átti ekki séns frá byrjun. Þar að auki hugsar það ekki út í möguleikan á og nauðsyn þess að breyta kerfum svo þau mæti betur öllu fólkinu sem þeim er ætlað að þjóna.

Þessi viðhorf eiga sér stað í samhengi við menntun, hjá sumum kennurum, foreldrum, stjórnmálafólki og embættisfólki, sem skilgreina fatlaða nemendur og aðgengisþarfir þeirra sem byrði á skóla þeirra og jafnaldra. Stundum ræðir ófatlað fólk þetta á grundvelli fjármagns, tíma og framlags sem er nauðsynlegt til þess að mennta fatlaða nemendur. Í öðrum tilvikum beinist umræðan að því hvernig fatlaðir, sérstaklega taugahinsegin, nemendur „trufla“ nám jafnaldra sinna og skipulag skóla. Þó það sé fremur sjaldgæft, að minnsta kosti í Bandaríkjunum, að heyra fólk kalla eftir stofnanavæðingu fyrir fötluð börn er orðræðan á þá leið að þau eigi ekki heima í óaðgreindu skólastarfi og að ófatlað fullorðið fólk vilji helst ekki þurfa að hafa neitt með þau að gera.

Sú sannfæring að fötluð ungmenni séu í eðli sínu byrði og óeftirsóknarverð stuðlar að því að almenningur trúir því að fólk sem að „vinnur með börnum með sérþarfir“, eins og það er oft orðað, sé yfirleitt gott og hafi mikla þekkingu á þeim hópi sem það starfar með. Sumir fatlaðir aktívistar hafa kallað þessi viðhorf til þessa starfsfólks góðgerðar- eða velgjörðarsjónarmið. Þessar fyrirframgefnu hugmyndir eru virkilega hættulegar fyrir fatlað fólk vegna þess að það dregur úr því að ófatlað fólk trúi, og hvað þá sé meðvitað um, vísbendingar og frásagnir af umönnunartengdu ofbeldi.

Þrátt fyrir tilvik þar sem skýrt er að umönnunaraðili hafi brotið af sér eru gjarnan fundnar margar afsakanir fyrir ofbeldinu og afleiðingarnar eru ekki þær sömu fyrir gerandan eins og þær væru ef þolandinn væri ófatlaður. Réttlætingarnar á umönnunartengdu ofbeldi eru gjarnan sambærilegar í ólíkum aðstæðum: Grunnskólanemandi „missir stjórn á sér“ og kennarinn þarf að taka skyndiákvörðun um að halda honum niðri sem veldur því að nemandinn slasast eða deyr á meðan. Atferlisfræðingur er með kulnun í starfi og þess vegna slær hann nemanda í andlitið. Lögregla handjárnar manneskju sem tjáir sig ekki með orðum við stól af því að hún var ekki samvinnuþýð og segir að það hafi verið eina leiðin. Ef ekki er hægt að afneita verknaðinum vegna þess hve hræðilegur hann er, en hann er á sama tíma of skilmerkilega skjalfestur til þess að neita honum, var umönnunaraðilinn sem ber ábyrgð undantekning, skemmt epli, sem ekki má varpa skugga á hópinn sem heild. Málin eru látin niður falla, ef þau eru kærð yfir höfuð, og dómurinn er í besta falli mildaður. Dómsmálið lognast út af hljóðlega og er skilgreint þannig að það megi ekki vera opinbert. Kennarinn eða starfsmaðurinn heldur starfsréttindum sínum og heldur áfram að vinna, mögulega í öðrum skóla, í annarri borg eða í öðru ríki.

Fatlaðir nemendur fá hvorki að njóta vafans með þessum hætti né fá þeir vernd. Skólayfirvöld og samfélagið allt áætlar að fatlaðir nemendur sem líta út fyrir að vera ófatlaðir geri sér það að leik að missa stjórn á sér en ekki af því að þeir einfaldlega geta ekki ráðið við aðstæður. Þess vegna er refsingin gagnvart þeim réttlætanleg. Nemendur sem þurfa sérstaka aðstoð, sérstaklega þeir sem tjá sig óhefðbundið, eru gjarnan álitnir óáreiðanlegir og ekki sé hægt að mæta þörfum þeirra hvort sem er. Þess vegna er hegðun þeirra oft mistúlkuð sem þýðingarlaus og hættulegri en hjá öðrum. Samt sem áður kemur það ekki í veg fyrir að sumir kennarar og þjónustuveitendur útiloki refsingu.

Þetta er vissulega vandmeðfarið í tilvikum nemenda sem sýna hegðun sem meiðir þá sjálfa og aðra. Hins vegar eru alltof margir kennarar sem meta aga og reglur svo mikið að þeir eru tilbúnir að fórna andlegri og líkamlegri heilsu fatlaðra nemenda, ásamt aðgengi þeirra að menntun. Í vissum tilvikum, háð aðstæðum eins og fötlun nemandans, hegðuninni sem um ræðir, viðbrögðum kennarans eða starfsmannsins, framsetningu þeirra sem refsingar eða meðferðar – getur verið að það þurfi ekki einu sinni að beita yfirskini öryggisráðstafana til að skólastjórnendur, opinberir rannsóknaraðilar, fjölmiðlar eða almenningur taki viðbrögðin í sátt.

Þetta er rót vandans, ekki bara fyrir fötluð skólabörn, heldur fyrir skóla sem byggjast upp á stofnanamiðaðri nálgun. Skólar eru ekki lokaðar stofnanir á sama hátt og geðdeildir og fangelsi eru. Hins vegar falla þeir oft í gryfju þess að tileinka sér sömu viðhorf sem ýtir undir ofbeldi í þessum rýmum: Stofnunin og hvernig hún starfar er viðhaldið fyrir sjálfa stofnunina, í sumum tilvikum á kostnað markmiða um menntun og vellíðan nemenda. Samfélagið almennt hefur samþykkt að mestu afleiðingarnar sem eru áhersla á aga og hlýðni, sem gerir það að verkum að þeir nemendur sem trufla stofnunina eru meira vandamál en hvernig stofnunin er byggð upp. Fatlaðir nemendur eiga erfitt með að ná árangri inn í þessum aðstæðum og eru oft bestu dæmin um vankanta skólakerfisins og hljóta mestan skaða af.

Til þess að breyta þessu þurfa núverandi og fyrrverandi fatlaðir nemendur, ásamt foreldrum, kennurum, baráttufólki og stjórnmálamönnum sem nú þegar styðja okkur, að hjálpast að með öllum ráðum til þess að skapa nýja leið við að mennta fólk, sem að einblínir fyrst og fremst á þarfir, áhuga og löngun. Það er ekkert sem segir að allt fólk þurfi eða geti lært í sömu aðstæðum, aðstæðum sem þvinga alla til að fylgja sömu lögmálum innan menntakerfisins. Þar að auki er engu að tapa, nema mögulega afköstum, með því að bjóða upp á raunverulega einstaklingsmiðað nám sem virðir og lagar sig að takti hvers og eins nemenda og hvernig hann lærir best.

Það er ekki þar með sagt, að það að breyta menntakerfi, sem byggir meðal annars á hugmyndafræði herþjálfunnar og verksmiðjuvinnu, í menntakerfi sem virðir sjálfræði og fjölmenningu, verði auðvelt. En erfiðið réttlætir ekki að neita að vinna að því marki, þegar núverandi kerfi útilokar og jaðarsetur fullkomlega góðar og gildar manneskjur áður en þær hafa fengið tækifæri til að skapa sitt eigið líf á sínum forsendum. Ef samfélagið okkar raunverulega metur menntun sem leið til árangurs, ættum við ekki að vinna að því að refsa og útiloka nemendum sem eiga erfitt uppdráttar í núverandi kerfi. Þess þá heldur ættum við að sjá þá nemendur sem lykilaðila í því að byggja upp nýtt skólakerfi án aðgreiningar og mismununar.

 

Shain er lögfræðingur og aktivisti sem hefur fjallað mikið um taugahinsegin málefni og þvingun og valdbeitingu í lífi fatlaðs fólks. Hán heldur úti bloggi hér: https://silencebreakingsound.wordpress.com/

23 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comments


bottom of page