top of page

Athugasemdir til dómsmálaráðherra og undirstofnana um rétt fatlaðs fólks í leit að vernd á Íslandi

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir frá Tabú, Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ÖBÍ réttindasamtaka og Unnur Helga Óttarsdóttir formaður Þroskahjálpar funduðu með Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra í morgun varðandi réttindi fatlaðs fólks í leit að vernd á Íslandi.


Á fundinum komum við á framfæri athugasemdum um ábyrgð stjórnvalda er kemur að lögum og alþjóðlegum mannréttindarskuldbindingum. Einnig gerðum við alvarlegar athugsemdir er varðar allt verklag sem viðhaft er varðandi fatlaðan umsækjanda um alþjóðlega vernd,  sem er á skjön við það samtal og samráð hagsmunasamtaka fatlaðs fólks við útlendingayfirvöld þar sem fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu, félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Útlendingastofnun, Kærunefnd útlendingamála og Vinnumálastofnunar.


Það er á ábyrgð dómsmálaráðherra að starfsmenn undirstofnanna ráðuneytisins að starfi eftir núgildandi verklagsreglum.

 

Við skorum á dómsmálaráðherra að bregðast við athugasemdum okkar því ábyrgðin er hennar. 

 

Sameiginleg yfirlýsing frá Þroskahjálp, ÖBÍ og Tabú er eftirfarandi:

 

Feminísku fötlunarsamtökin Tabú, ásamt Landssamtökunum Þroskahjálp og ÖBÍ réttindasamtökum, vilja koma eftirfarandi athugasemdum til dómsmálaráðherra og undirstofnana hans varðandi réttindi fatlaðs fólks í leit að vernd á Íslandi.

  1. Íslensk stjórnvöld, og stofnanir þeirra, eru ábyrg fyrir að vernda fatlað fólk á flótta sérstaklega vegna viðkvæmrar stöðu þess. Fatlað fólk sem leitar að vernd á Íslandi er undantekningarlaust að upplifa margþætta mismunun, m.a. á grundvelli fötlunar og uppruna. Íslensk stjórnvöld eru ábyrg fyrir að fylgja lögum og alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga sem kveða á um vernd jaðarsettra hópa í hamförum og þegar hætta steðjar að í heimalandi.

  2. Huga þarf að því að uppfylla skyldur hvað varðar allt verklag, allar stofnanir og öll úrræði sem lúta að fötluðu fólki í leit að vernd, í ferlinu öllu. Mál Hussein Hussein er birtingarmynd þess að íslensk stjórnvöld eru að bregðast hópnum á mörgum sviðum, s.s. í umsóknar- og matsferli, löggæslu og réttindagæslu fatlaðs fólks. Það hefur einnig brugðist Hussein Hussein með tilliti til heilbrigðisþjónustu og endurhæfingar, en fatlað fólk sem verður fyrir ofbeldi og vanvirðandi meðferð á rétt á þjónustu og meðferðarúrræðum vegna afleiðinga ofbeldis.

  3. Bæta átti verklag og ferla fyrir fatlaða umsækjendur í leit að vernd og hófst samráðsvinna stjórnvalda með heildarsamtökum fatlaðs fólks á þessu ári en engin niðurstaða liggur fyrir í þeirri vinnu. Enn sjáum við því sömu mistökin að hálfu Útlendingastofnunar raungerast aftur og aftur, m.a. í máli Hussein Hussein.

  4. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu 12. desember, 2022 að brottvísun Hussein Hussein og fjölskyldu hafi verið ólögmæt. Samt sem áður velja stjórnvöld að áfrýja dómi héraðsdóms til landsréttar og gera þannig að engu valdaójafnvægi jaðarsetts einstaklings gagnvart ríkinu. Þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu frestað brottvísun Hussein þar sem íslensk stjórnvöld hafa ekki uppfyllt skyldur sínar við að tryggja öryggi og grunnþjónustu fyrir Hussein í Grikklandi. Í því samhengi hyggst nú stofnun stjórnvalda vísa fjölskyldu Hussein Hussein úr landi og aðskilja þau þrátt fyrir að hann reiði sig á þau við allflestar athafnir daglegs lífs.

  5. Rannsóknir sýna að fatlað fólk þarf mun frekar að reiða sig á fjölskyldu sína um öryggi og grunnþarfir en ófatlað fólk, einnig fatlað fólk búsett á Íslandi og með íslenskan ríkisborgararétt. Þá sýna rannsóknir einnig að fatlað fólk í leit að vernd og á flótta kemst síður af án fjölskyldumeðlima.

 

Feminísku fötlunarsamtökin Tabú, ásamt Landssamtökunum Þroskahjálp og ÖBÍ réttindasamtökum, skora á dómsmálaráðherra að fylgja öllum lögum og alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum um sérstaka vernd fatlaðs fólks á flótta, og gera þá kröfu á undirstofnanir að þær geri slíkt hið sama. Brotalamir í verkferlum hafa alvarlegar og oft óafturkræfar afleiðingar fyrir fatlað fólk í formi misréttis, slysfara, vanrækslu og dauða. Óskað er eftir að útkoma samráðs stjórnvalda og heildarsamtaka, sem fór fram fyrr á árinu, verði gerð opinber og að stjórnvöld skilgreini hvernig breytingar verði innleiddar til þess að stjórnvöld uppfylli skyldur sínar. Einnig sé þetta gert til þess að gangast við niðurstöðu dómsstóla á Íslandi og tilmælum Mannréttindadómstól Evrópu í máli Hussein Hussein. Þá minnum við á að ákvörðun um að sundra fjölskyldum er ekki eingöngu mótsögn við grunngildi íslensks samfélags um að styðja og varðveita fjölskyldur heldur beinlínis hættulegt fyrir fatlað fólk í leit að vernd.

 

Reykjavík 30. nóvember 2023

 

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir, Tabú

Alma Ýr Ingólfsdóttir, ÖBÍ réttindasamtök

Unnur Helga Óttarsdóttir, Landssamtökin Þroskahjálp

37 views

Comments


bottom of page