top of page

Mótmæli Tabú við brottvísun Yazan M. K. Aburajabtamimi

Femíníska fötlunarhreyfingin Tabú tekur undir mótmæli ýmissa samtaka, m.a. ÖBÍ mannréttindasamtaka og Landssamtakana Þroskahjálpar, um brottvísun Yazan M. K. Aburajabtamimi til Spánar en hann hefur sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Yazan er 11 ára gamall hreyfihamlaður drengur með hrörnunarsjúkdóm og hlýtur ákvörðun um brottvísun þá að ganga gegn alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum fatlaðs fólks.


Hreyfing Tabú var upphaflega stofnuð til þess að vinna markvisst gegn margþættri mismunun sem við á þegar einstaklingar upplifa misrétti á grundvelli margra þátta í einu, t.d. uppruna, aldurs og fötlunar. Einstaklingar sem tilheyra slíkum hópi eru útsettari fyrir að verða fyrir hvers kyns mismunun og ofbeldi og skiptir því miklu máli að tryggja þeim sérstaka vernd í samfélögum heimsins.


Yazan er fatlað barn í leit að alþjóðlegri vernd og því gefur auga leið að öryggi hans er verulega ógnað og staða hans afar slæm verði honum ekki veitt vernd á Íslandi. Fötlun hans er þess eðlis að hann þarf að nota ýmis hjálpartæki í vaxandi mæli sem og lyf til þess að viðhalda færni og aftra framgangi sjúkdómsins. Yazan mun einnig þurfa aðgengi að teymi lækna, stoðtækjafræðingum, sjúkraþjálfum og iðjuþjálfum, sem og aðstoð í daglegu lífi í vaxandi mæli. Einnig er aðgengi mikilvægur partur af hans öryggi. Ekkert af þessu er hægt að tryggja í Palestínu og á Spáni, þangað sem áætlað er að senda fjölskylduna. 

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður sérstaklega á um að vernda þurfi réttindi fatlaðra barna í öllum aðstæðum. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skyldar aðildarríki sömuleiðis að tryggja réttindi þessa hóps sérstaklega vegna þeirrar jaðarsettu stöðu sem fötluð börn eru í. Báðir þessir samningar leggja þær skyldur á aðildarríki að tryggja börnum, einkum fötluðum börnum, þá bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á.


Það er þungbær staða fyrir öll börn að vera á flótta og leita að vernd. Staða fatlaðra barna er sérstaklega flókin vegna þess að þau reiða sig á grunninnviði samfélagsins til þess að lifa af og búa við viðunandi lífskjör. Yazan reiðir sig á hjólastólinn sinn til þess að komast um en mikil hætta er á að hjólastóllinn skemmist og týnist á flækingi og flótta. Þá er ekki hægt að tryggja að Yazan hafi áfram aðgengi að þeim lyfjum sem eru honum nauðsynleg til þess að lifa. Það er einnig sérstaklega mikilvægt fyrir fötluð börn að hafa fjölskyldu sína hjá sér en við vitum að fjölskyldur í leit að vernd eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir aðskilnaði. Þá má einnig benda á að sá kvíði og þau áföll sem fylgja því að vera í stöðu Yazan getur haft óafturkræf áhrif á hans andlegu heilsu og jafnframt ýtt undir framgang taugahrörnunarsjúkdómsins.


Tabú væntir þess að stjórnvöld og til þess bærir aðilar fylgi stjórnsýslulögum og rannsaki málið til hlýtar ásamt því að tryggja að rödd Yazan og fjölskyldu hans fái áheyrn. Sé málið hans rannsakað í þaula, út frá stöðu hans sem fatlaðs barns í leit að vernd, er erfitt að ímynda sér aðra eðlilega niðurstöðu en þá að honum verði veitt vernd á Íslandi og að komið verði í veg fyrir brottvísun hans. Ásetningur stjórnvalda um að kasta fötluðu barni út í óvissu og lífshættulegar aðstæður  að yfirlögðu ráði ber vott um siðrof, grimmd og átakanlegan skort á mannúð og vilja til að standa við skuldbindingar ríkisins gagnvart alþjóðlegum mannréttindasamningum, sáttmálum sem eiga að tryggja vernd og mannréttindi jaðarsettra einstaklinga og hópa.


Fyrir hönd Tabú,

Bára Halldórsdóttir

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

Erla B. Hilmarsdóttir

Freyja Haraldsdóttir 

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir

Jana Birta Björnsdóttir

Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir

Linda Sólveigar

Margrét Ýr Einarsdóttir

Pala Kristin Bergsveinsdottir

Rán Birgisdóttir

Salóme Mist Kristjánsdóttir

Sigríður Jónsdóttir

Sóley Björk Axelsdóttir

Þorbera Fjölnisdóttir

58 views

Comments


bottom of page