top of page

Ljósaganga UN Women 2015: Ræða Freyju Haraldsdóttur

Kæru vinir

Um leið og ég býð ykkur öll velkomin vil ég vil þakka fyrir það traust sem mér er sýnt með því að ávarpa og leiða Ljósagöngu UN Women 2015. Það er ánægjulegt að sjá ykkur öll. Ljósagangan markar upphaf 16 daga átaks en 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Þörfin fyrir alþjóðlegan baráttudag árlega byggir á þeirri staðreynd að ofbeldi gegn konum (sís og trans) er eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum. Það stuðlar m.a. að veikri samfélagslegri stöðu kvenna og viðheldur fátækt. Eins og við höfum séð búum við víða um heim við réttarkerfi sem tekur kynbundnum ofbeldisbrotum ekki jafn alvarlega og öðrum glæpum. Sem dæmi má nefna að ein af hverjum þremur konum í heiminum hefur upplifað líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi á lífsleiðinni og 600 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert.

Yfirskrift ljósagöngunnar í ár er „Heyrum raddir allra kvenna“ og við það er vert að staldra. Fyrir viku síðan rúllaði ég ásamt öðrum fötluðum konum milli innanríkisráðuneytisins, velferðarráðuneytisins og Alþingis til þess að mótmæla ofbeldi á grundvelli kyngervis og fötlunar. Ofbeldi sem þrýfst í myrkri aðgreiningar, ósýnilegra forréttinda og fyrirlitningar. Ljósinu beindum við fyrst og fremst að því hvernig lagasetning, stefnumótun og kerfisbundin útilokandi ákvarðanataka af valdameiri hópum stuðlar að ofbeldismenningu í lífi okkar. Ofbeldismenningu sem heldur okkur jaðarsettum, þaggar niður í okkar, hræðir okkur og slasar. Dregur úr heilsu okkar og á verstu stundum drepur okkur.

Það að við séum fatlaðar og konur eykur líkurnar á ofbeldi svo um munar. Það dregur úr líkunum á að við segjum frá og höfum tækifæri til þess að komast úr ofbeldisaðstæðum. Stundum eru ofbeldisaðstæðurnar alls staðar; heima fyrir, í vinnunni, í skólanum, þegar við horfum á sjónvarpið, hjá kvensjúkdómalækninum, í matvörubúðinni og í kirkjunni. Talið er að um 85% fatlaðra kvenna upplifi ofbeldi á lífsleiðinni. Ef við erum einnig jaðarsettar á grundvelli annarra þátta aukast líkurnar enn frekar, t.d. ef við erum hinsegin og af erlendum uppruna. Fötlunarfyrirlitning er ekki einungis orsök ofbeldis heldur einnig afleiðing þess. Margar konur fatlast varanlega sökum ofbeldis og er þar með ýtt enn frekar út á jaðarinn.

Að takast á við margþætta mismunun er krafa feminískrar baráttu okkar tíma og birtist það æ meira í stefnu og vinnu UN Women þó betur megi ef duga skal. Ákveðin ótti er til staðar við það að barátta gegn ofbeldi og útskúfun kvenna útþynnist og að við missum sjónar af markmiðinu. Ég skil hræðsluna og hana er ekki einungis að finna í kynjabaráttunni heldur einnig í fötlunarbaráttunni, hinseginbaráttunni og baráttunni gegn rasisma. Þar veldur útvíkkunin áhyggjum. Þurfum við endilega að tala sérstaklega um konur, spyrja hreyfingarnar?

Margar konur sem hafa barist gegn margþættri mismunun, eins og Audre Lorde og Kimberle Crenshaw, hafa bent á að raunar séum við að útþynna mennsku okkar og tilveru sem kvenna með því að ganga út frá því að við séum einungis eitthvað eitt. Við missum skilgreiningarvald yfir líkama okkar og lífi, erum smættaðar niður í hólf og týnum okkur sjálfum. Við skiljum hluta af okkur eftir einhversstaðar fyrir aðra til þess að eigna sér og brennimerkja. Mér er ætlað að vera fötluð á mánudögum og kona á þriðjudögum. Sem augljóslega er ómögulegt.

Forsenda þess að geta skilgreint okkur sjálf er jafnframt að vera meðvituð um forréttindi okkar – sem við ferðumst með í ósýnilegum bakpoka allt lífið eins og Marai Larasi, svartur feminísti, fjallaði um á fyrirlestri fyrir stuttu. Ef ég lýsi ofan í minn bakpoka má finna ýmis forréttindi. Ég er hvít og gagnkynhneigð. Ég bý í landi þar sem ekki eru stríðsátök. Ég hef haft tækifæri til þess að mennta mig. Ég hef meiri aðgang að valdi en margar konur sem varaþingkona. Ég er ein fárra fatlaðra kvenna með notendastýrða persónulega aðstoð og get því verið hér í kvöld að taka þátt í rjúfa þögn kvenna og leiða ljósagöngu UN Women gegn kynbundnu ofbeldi.

Við lýsum ekki ofan í forréttindabakpokan til þess að keppast um hver finnur meira eða minna í honum. Eins og ég sé þetta tökum við upp úr bakpokanum okkar með það að markmiði að skilja okkur sjálf til þess að geta betur skilið og stutt hvert annað. Það er ekki einfalt og engin töfralausn. En það er í mínum huga stór þáttur í að vinna gegn ofbeldi gegn öllum konum sem þrífst hvað mest í aðskilnaði ólíkra hópa og forréttindadoða valdamikils fólks. Ljósið þarf að berast þangað því á meðan þar er myrkur þrífst ofbeldið best. Við erum hér í kvöld vegna þess að við krefjumst þess að allar konur komist í gegnum daginn án þess að óttast að verða fyrir ofbeldi. Það eru mannréttindi okkar að búa við slíkt öryggi.

Að því sögðu fer nú að hefjast Ljósagangan. Þemaliturinn er appelsínugulur sem táknar von og bjartari framtíð fyrir allar konur og stúlkur og hefur Harpa baðað sig í appelsínugulum lit af þessu tilefni eins og sum okkar getum séð hér í kvöld. Mér við hlið sem kyndilberar verða baráttusystur mínar Iva Marin Adrichem og Rán Birgisdóttir, framhaldsskólanemar og aktivistar í Tabú og Ugla Stefanía Kristjönu og Jónsdóttir, meistaranemi og varaformaður Trans Ísland. Nú höldum við af stað. Gott væri að við getum hjálpast að við að kveikja kertaljósin. Takk fyrir.

2 views
bottom of page