top of page

Mikilvægi samtvinnunar í feminískum byltingum: Fatlaðar konur og #metoo

Updated: Jan 17, 2022

Erindi flutt á málþingi á vegum Félags – og mannvísindadeildar Háskóla Íslands 13. apríl sl. undir yfirskriftinni Samfélagsbyltingin #MeToo.

Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

Rétt fyrir jólin, í miðri hringiðu #metoo byltingarinnar, fékk ég símtal frá blaðakonu sem vildi ræða við mig um það hvers vegna fatlaðar konur væru svo ósýnilegar í umræðunni. Hjá mér vöknuðu blendnar tilfinningar – hluti af mér varð vonsvikin. Við sem skilgreinum okkur sem fatlaðar konur á Íslandi höfum lengi, ekki síst undanfarin ár, talað okkur hásar um kynferðisofbeldi og annað ofbeldi sem við höfum orðið fyrir. Við höfum staðið fyrir mótmælum, mætt á fundi ráðamanna, tekið þátt í druslugöngunni og stigið fram sem hópur og sem einstaklingar margítrekað. Stundum hljótum við fyrir vikið áheyrn fjölmiðla, almennings og stjórnvalda en hún varir alla jafna stutt. Þá er það nánast gefið að sú fatlaða kona sem stígur fram, einsömul eða í hópi, uppsker hatursorðræðu og netníð fyrir það að benda á ofbeldið sem hún verður fyrir. Þó svo að fatlaðar konur hafi ekki komið með formlega #metoo yfirlýsingu höfum við verið að segja ‘við líka’ stanslaust. Á hinn bóginn fannst mér ákveðin árangur í því fólgin að þögn okkar rynni ekki bara út í tómið heldur væri í raun hávær. Þögn okkar fékk ákveðið vald.

Sameiginleg saga jaðarsettra kvenna

Jaðarsettar konur eiga þá sameiginlegu sögu að hafa upplifað útilokun og undirskipun í þeim hópum sem þær tilheyra. Þannig hafa t.d. svartar konur, m.a. í Bandaríkjunum, átt undir högg að sækja í samtökum sem berjast gegn kynþáttahyggju og innan feminískra hreyfinga. Reynsla þeirra sem svartar konur virðist vera truflandi þar sem hún er margþætt og því ekki alltaf í samræmi við reynslu hvítra kvenna og svartra karla. Sú krafa hefur verið gerð til þeirra að þær aðskilji misrétti byggt á kyngervi og kynþætti, og mögulega öðrum þáttum. Þessu hafa svartar konur andæft, bæði innan aktivistahreyfinga, og akademíunnar með því að hefja sínar eigin hreyfingar en einnig þróa kenningar og hugmyndir svarts feminísma. Kjarni þeirra hugmynda er að hvorki sé hægt að vinna bug á rasisma né kynjamisrétti fyrr en baráttan viðurkennir að líf okkar veltur ekki á einni breytu né að við séum eitthvað eitt. Jafnframt, að það gangi ekki að svartir karlar og hvítar konur séu ávallt í framvarðasveitinni og skilgreini baráttumál, áherslur og viðmið. Konur sem hafa verið áberandi í skrifum um svartan feminísma og samtvinnun mismununar eru t.d. Patricia Hill Collins, Kimberlé Crenshaw, bell hooks og Audre Lorde.

Að mörgu leiti má segja að fatlaðar konur hafi sambærilega sögu að segja. Fatlaðir karlar hafa tekið sér mikið pláss í fötlunarhreyfingum og fræðunum víða um heim, ásamt ófötluðu fólki í óhóflegum mæli. Þá hafa fatlaðar konur haft afar takmarkaðan aðgang að feminísku starfi og upplifa að þeirra reynsluheimur sé gildisfelldur og truflandi í kynjajafnréttisbaráttunni og fötlunarbaráttunni. Andóf gegn því hefur t.d. birst í stofnun feminískra fötlunarhreyfinga eins og Tabú hér á landi, Sisters of Frida í Englandi og Strefa Wenus z Milo í Póllandi. Líkt og með svartan feminísma, hefur feminísk fötlunarfræði þó einnig rutt sér til rúms og bent á nauðsyn þess að baráttan fyrir réttindum fatlaðs fólks sé unnin með kynjagleraugum og sé ekki svo karllæg sem raun ber vitni. Þar sem fatlað fólk er þolendur mannkynbótastefnu og býr við mikla kerfisbundna sjúkdómsvæðingu höfum við, skiljanlega, lagt áherslu á að berjast fyrir réttarbótum á pólitíska sviðinu og á sviði stjórnsýslu, en mögulega verið hrædd við að tala um sálrænar afleiðingar af misréttinu sem við verðum fyrir og áhrif líkamans á okkar líf. Við óttumst að viðteknar hugmyndir um fötlun, sem harmleik, muni alltaf afvegaleiða umræðu um hvernig líkamar okkar geta verið flóknir og áhrif misréttis á heilsufar okkar og sjálfsskilning getur birst. Það hefur þó verið bent á að með þennan sterka pólitíska fókus höfum við skilið öðrum það eftir að mestu að afgreiða upplifun okkar, góða og slæma, af líkamsverund okkar og líðan, hvernig sem hún kann að vera. Þetta hafa fatlaðar fræðikonur eins og Rosemarie Garland-Thomson, Carol Thomas og Jenny Morris bent á.

Þó svo að sá vandi varði fatlað fólk af öllum kynjum má færa rök fyrir því að þessi fókus sé sérlega þrúgandi fyrir fatlaðar konur sem tölfræðin sýnir að séu útsettari en ófatlaðar konur og fatlaðir karlar fyrir hverskyns valdníðslu á líkama sínum, frjósemi og lífi. Birtingarmyndir geta verið ólíkar fyrir fatlaðar og ófatlaðar konur þegar kemur að kynjamisrétti og má t.d. nefna að ófötluðum konum er gjarnan stillt upp sem kyntáknum og kynferðislegum viðföngum fyrir karlmenn, á meðan fatlaðar konur eru stimplaðar kynlausar og óaðlaðandi. Hvoru tveggja er kúgandi. Ófatlaðar konur hafa þurft að berjast fyrir að hafa frelsi til þess að fara í fóstureyðingu og að ekki sé sjálfkrafa gert ráð fyrir því að þeim öllum langi/henti að verða mæður. Á sama tíma hafa fatlaðar konur þurft að berjast gegn þvinguðum fóstureyðingum og grófum annars konar inngripum í frjósemi okkar. Þá erum við gjarnan stimplaðar sem óæskilegar og vanhæfar mæður. Aftur; hvoru tveggja er kúgandi. Þessar ólíku birtingarmyndir geta framkallað ákveðið flækjustig og óreiðu í feminískri baráttu þó svo að í grunninn snúist baráttan um vald kvenna yfir eigin líkama.

Þvinguð nánd og kynferðisofbeldi

Undanfarið hafa fatlaðar konur og fatlað kynsegin fólk verið að fjalla um hvernig feminísk og fötlunarbarátta, ásamt öðrum baráttum, skarast, m.a. í samhengi við #metoo byltinguna. Mia Mingus er ein þessara kvenna en hún er fötluð, hinsegin, ættleidd og að asískum uppruna og sækir sjálfsskilning sinn m.a. í þá hópa. Hún hefur fjallað um svokallaða þvingaða nánd (e. forced intimacy) sem er sú staða margs fatlaðs fólks að þurfa að samþykkja nánd og snertingu sem við höfum ekki áhuga á en þurfum til þess að lifa af, t.d. vegna þarfa fyrir aðstoð. Þá er þvinguð nánd einnig þegar fólk veitir aðstoð í leyfisleysi, sem er óþörf, eða þegar fólk snertir eða færir hjálpartæki okkar án samþykkis. Einnig þegar aðgengi er þess eðlis að fötluð manneskja er svipt mannlegri reisn sinni til þess að geta verið í aðstæðunum, t.d. þegar salerni eru þannig að fötluð manneskja getur ekki læst þeim. Enn annað dæmi er sú þvingun og valdbeiting sem sumt fatlað fólk verður fyrir í nafni hegðunarmótandi meðferða fagfólks eða inn á sjúkrahúsum þar sem fólk er jafnvel þvingað til þess að þiggja læknishjálp eða samþykkja áhorf háskólanema í heilbrigðisvísindum, t.d. lækna, sjúkraþjálfa og hjúkrunarfræðinga.

Í þessu samhengi, bendir Hannah Soyer, fötluð kona, á að þó ekki sé um að ræða kynferðislega áreitni í þeirri merkingu sem við erum vön, að þá getur þvinguð nánd haft sömu afleiðingar og/eða við upplifað sambærilega valdníðslu, niðurlægingu og sársauka á meðan hún á sér stað. Skilgreining Mingus um þvingaða nánd er þannig nátengd gagnrýnum skrifum fatlaðra kvenna um samþykki í tengslum við kynlíf (í víðum skilningi). Þegar fatlaðar konur alast upp við það að eiga að vera þakklátar fyrir það sem að okkur er rétt eða að vera þvingaðar til þess að þiggja aðstoð eða læknismeðferð sem veldur sársauka, niðurlægingu, óöryggi eða ótta má ætla að mörkin okkar geti orðið þokukennd, t.d. í kynferðislegum samböndum og samskiptum almennt. Þegar líðan okkar hefur verið virt að vettugi að mestu allt okkar líf verður sársauka- og einkalífsþröskuldurinn oft mjög hár. Það er krefjandi að bera virðingu fyrir líkama sínum þegar fáir aðrir bera virðingu fyrir honum. Til þess að bæta ofan á þetta flækjustig er gerendahópurinn ekki alltaf sá sami og hjá meiri hlutanum. Þó svo að rannsóknir sýni að fatlaðar konur verði oftast fyrir ofbeldi af hálfu karla eru það á hinn bóginn oft konur sem aðstoða okkur og eru þá valdahlutföllin okkur sjaldnast í hag. Líf okkar er gjarnan í höndum þeirra. Þetta óttumst við margar að nefna.

Krafan um samtvinnaðar byltingar

Í stað þess að spyrja hvers vegna fatlaðar konur fylkjast ekki að #metoo er í mínum huga nauðsynlegra að spyrja; hvernig búum við til feminískar byltingar sem ná að halda utan um allar konur? Audre Lorde, svört hinsegin langveik kona, fjallaði um það að hún gæti ekki orðið frjáls á meðan aðrar konur væru ekki frjálsar, óháð því hvort þeirra baráttur væru aðrar en hennar. Í mínum huga er það mergurinn málsins. Það er grundvallaratriði feminískra hreyfinga, og baráttuhreyfinga jaðarsettra hópa, að þær leggi sem fram um að fanga sögur okkar allra. Það gerist ekki fyrr en jaðarsettar konur fá pláss til þess að segja sínar sögur, taka skilgreiningarvald yfir stefnum, orðræðu og áætlunum, og eru ekki krafðar um að skipta sér upp í parta til þess að geta hólfað sig inn í ólíka hópa. Við þurfum líka að finna að okkur sér treyst af fötlunarsamtökum og feminískum hreyfingum, öðruvísi getum við illa treyst þeim.

Fræðasamfélagið getur gert margt til þess að styðja við og skapa grundvöll fyrir samtöl og þekkingarsköpun þvert á hópa og fræðasvið en jafnframt með því að draga fram raddir jaðarsettra kvenna í ólíkum fræðagreinum. Eftir hvern er efnið sem við kennum? Hverjar hafa þróað hugmyndirnar sem við fjöllum um? Því fer fjarri að háskólamenntun sé forsenda fyrir því að geta búið til byltingar en við vitum samt að háskólaumhverfið er vettvangur þar sem mikið persónulegt og pólitískt umrót getur átt sér stað og því þarf það að vera opið og aðgengilegt fyrir allar konur. Það er líka lykilatriði að allar konur geti tekið sér pláss til þess að skapa þekkingu sem er metin af verðleikum og nýtt til samfélagsumbóta. Í mínum huga snýst #metoo um að hjálpa okkur að skilja að kynbundin ofbeldismenning verður til alls staðar og til þess að vinna raunverulega bug á henni verða allir brotaþolar hennar að öðlast skilgreiningarvald og leggja sína sameiginlegu sögu til grundvallar því sem sameinar okkur – baráttunni um að hafa val og frelsi yfir okkar margskonar líkömum og fjölbreytta lífi. Á sama tíma þurfum við að hafa hugrekki til þess að horfast í augu við og taka fagnandi á móti reynslu sem stangast á og skilur okkur að. Líkt og margar jaðarsettar konur hafa bent á er margbreytileikinn ekki ógn – einfaldlega tækifæri til dýpri, árangursríkari og róttækari byltinga.

667 views

Recent Posts

See All
bottom of page