Ég hef á tilfinningunni að þetta bréf sem ég er að skrifa þér sé tilgangslaust. Ég hef á tilfinningunni, miðað við ákvarðanir þínar síðustu daga, að þú látir þig skoðanir konu lítið varða. Ég hef á tilfinningunni, miðað við framgöngu ríkisstjórnarinnar sem þú ert hluti af, að flestar ákvarðanir séu teknar í samráðsleysi og skoðun þess sem málið varðar sé aukaatriði. Af því hef ég orðið nokkuð massífa reynslu síðasta árið sem fötluð kona. Ég verð þó að reyna að halda í þann vonarneista að þú komir mér á óvart, staldrir við og veltir fyrir þér afleiðingum gjörða þinna. Ég tel mig líka, sem brotaþola kynbundins og fötlunartengds ofbeldis og langvarandi misréttis, hafa skyldu til þess að láta rödd mína heyrast og hafa áhrif víst ég hef tækifæri til þess. Það hafa svo sannarlega ekki allar konur sem þú ert nú að valda skaða með ákvörðunum þínum.
Ráðstefnan um kynbundið ofbeldi og rakarastofustemningin
Eins og þú veist manna best sjálfur ertu að skipuleggja ráðstefnu um kynbundið ofbeldi með Súrínam sem verður haldin í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Í upphafi umræðunnar lýstir þú því yfir að ráðstefnan yrði haldin einungis fyrir karla til þess að fá þá að borðinu í umræðunni um ofbeldi gegn konum og til þess að ýta undir ábyrgð þeirra. Nú hefur hins vegar komið fram hjá Henry L. Mac Donal, fulltrúa Súrínam, að konum sé boðið á ráðstefnuna. Hann segir þó að tilgangur ráðstefnunnar sé að skapa vettvang fyrir karlmenn til þess að þeir geti talað sín á milli um hvernig skuli binda enda á ofbeldi. Jafnframt að fullyrðingar um að karlmenn væru einu ráðstefnugestirnir hafi verið aðferð til þess að vekja athygli karla á ráðstefnunni. Einnig að hún sé kölluð rakarastofan því þar séu karlar vanir að koma saman og ræða um „íþróttir, pólitík og konur.“ Nú get ég ekki annað en spurt þig; var það mat ykkar félagana að eina leiðin til þess að fá karla til ábyrgðar og þátttöku í umræðu um kynbundið ofbeldi væri að plata þá með gylliboðum um að þeir fengju að vera einir á ráðstefnu í New York þar sem þeir gætu rætt um ofbeldi gagnvart konum í friði fyrir konum í einhverskonar rakarastofustemningu þar sem er meintur alþjóðlegur þægindarammi karla? Hafið þið, eftir allt saman, ekki meiri trú á kynbræðrum ykkar en svo?
Í máli þínu hefur komið fram að aðkoma og þátttaka kvenna sé ekki ráðin, sem er í ákveðni mótsögn við yfirlýsingu Henry L. Mac Donal, sem segir að konum verði boðið á ráðstefnuna. Þú segist ekki hafa verið hissa á hörðum viðbrögðum því karlaráðstefna sé mögulega fólki framandi. Elsku Gunnar Bragi; gerir þú þér ekki grein fyrir því að karlaráðstefnur er fólki jafn lítið framandi og að grasið sé grænt því yfirleitt eru ófatlaðir, hvítir, gagnkynhneigðir, miðaldra karlar í meirihluta að halda ráðstefnur, setja lög, fara með peningavald, stjórna fyrirtækjum og móta samfélög út um allan heim og þannig skapa og viðhalda kynjamisrétti og skapa ríkjandi ofbeldismenningu í garð kvenna? Ertu virkilega svo illa áttaður af forréttindastöðu þinni að þú sjáir það ekki að rakarastofustemningin er í raun einkennandi pólitískt umhverfi flestra samfélaga?
Karlar verða að vera hluti af lausninni
Þú heldur því einnig fram í máli þínu að karlar séu „hluti af vandamálinu“ og verði að vera „hluti af lausninni“ í tengslum við ofbeldi gagnvart konum. Við getum mögulega verið nokkuð sammála þar þó ég telji þetta orðaval þitt fullhógvært og skilja skömmina eftir í lausu lofti.
Það er nokkuð ljóst að árangur næst ekki í að binda enda á kynbundið ofbeldi án stærsta hluta brotaþola, þ.e. kvenna, en samkvæmt alþjóðlegri úttekt 2013 sem UN women fjallar um upplifa 35% kvenna líkamlegt og/eða kynferðisofbeldi í nánum samböndum og utan þeirra. Þar kemur einnig fram að alþjóðlegar rannsóknir sýni að allt að 70% kvenna verði fyrir ofbeldi í nánum samböndum. Þess ber einnig að geta að jaðarsettar konur, t.d. fatlaðar konur, eru sökum fordóma, valdaleysis, skorti á aðgengi og aðstoð sem þær stjórna sjálfar, í margfaldri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Fötlun getur líka verið afleiðing af kynbundnu ofbeldi en konur sem eru brotaþolar ofbeldis eru líklegri til þess að fá geðröskun og líkamlega skerðingu. Talið er að sjö af tíu fötluðum konum verði fyrir líkamlegu og/eða kynferðisofbeldi á lífsleiðinni. Einnig verður stór hluti fatlaðra kvenna og stúlkna fyrir fötlunartengdu ofbeldi, þ.e. þar sem skerðing þeirra er notuð sem afsökun eða ástæða til þess að beita ofbeldi og dæma ekki í ofbeldismálum gegn þeim. Allar þessar konur, sem hafa persónulega reynslu af undirskipun, ofbeldi og/eða stöðugum ótta af yfirvofandi ofbeldi, verða augljóslega að vera leiðandi og öruggar í umræðunni um að binda enda á ofbeldi sem þær verða að stærstum hluta fyrir.
Karlar geta ekki, sökum skort á reynslu af því að vera kona, leyst kynbundinn ofbeldisvanda án þess að hlusta á konur. Og konur geta ekki, að minnsta kosti ekki auðveldlega, tjáð sig óhindrað og af öryggi, á ráðstefnu um kynbundið ofbeldi þar sem karlar eru í ráðandi stöðu og í meirihluta, sem ber yfirskriftina Rakarastofan (ég gæti skrifað þér annað bréf um hvers vegna þessi yfirskrift er uppfull af karlrembu og endurspeglar ofbeldismenninguna sem þú þykist vera að berjast gegn en ég nenni því ekki).. Sem kona sem hefur upplifað margskonar ofbeldi, oftast af hendi karla, þætti mér mjög óþægilegt að sitja slíka ráðstefnu og myndi líklega eiga erfitt með tjá skoðanir mínar og deila þekkingu minni.
Ég er mjög áfram um að karlar taki ábyrgð á kynbundnu ofbeldi og trúi því að margir geri það nú þegar. Ég tel þó grundvallaratriði að það sé gert á þeim forsendum að skapa kynjavaldajafnvægi á öllum sviðum. Kynbundið ofbeldi er samfélagsmein sem verður einungis leyst ef karlar viðurkenna að þeir hafi tilhneigingu til þess að taka sér of mikið vald og misnota það, meðvitað og ómeðvitað. Til þess að viðurkenna það og aðstoða aðra karla við að gera það líka er lykilatriði að byrja á því að halda ráðstefnu þar sem alls konar konur, sem eru að stærstum hluta brotaþolar ofbeldis, leiða umræðuna, deila þekkingu sinni og reynslu. Ráðstefnu þar sem karlar eru tilbúnir, af fullri alvöru, að hlusta á það sem konur hafa að segja og horfa á það sem nauðsynlegar upplýsingar til þess að leiðrétta þessa stöðu.
Ef fræðin á bakvið jafnrétti er skoðuð samhliða þróun baráttu undirskipaðra hópa fyrir fullum mannréttindum er nokkuð ljóst að markmiðin nást ekki ef einungis hinir valdameiri ætla að finna lausnir á eigin valdaníðslu án samtals og samráðs við hópinn sem er valdsviptur. Það ættir þú, sem utanríkisráðherra, að vita að sé forsenda þess að karlar verði hluti af lausninni á kynbundnu ofbeldi áður en þú tekur ákvörðun af þessu tagi.
Gangi þér vel að skipta um skoðun! Ég ætla að leggja mig fram um að hafa trú á því að þú getir það.
Freyja Haraldsdóttir, verkefnastýra Tabú, þroskaþjálfi og meistaranemi í kynjafræði
Yorumlar