top of page

Skuggaskimun: Spurningar til Barnahúss

Skuggaskimun hefur það hlutverk að kanna starfsemi stofnanna, hagsmunasamtaka, sveitarfélaga og fyrirtækja sem veita almenningi þjónustu, upplýsingar, ráðgjöf og stuðning.

Vakin hefur verið athygli okkar á að Barnahús sé ekki að fullu aðgengilegt fyrir fötluð og/eða langveik börn, börn sem þurfa að koma í Barnahús og eiga fatlaða foreldra og fatlað starfsfólk sem hefur sérhæft sig á sviði ofbeldismála og kann að sækja um starf í Barnahúsi eða eiga erindi þangað vegna starfa sinna. Óskum við þess vegna eftir því að Barnahús svari eftirfarandi spurningum:

  1. Hvernig er aðgengi fyrir fatlað og/eða langveikt fólk, einkum börn og unglinga, í Barnahúsi? (dæmi: kemst það á allar hæðir án þess að vera borið upp stiga, um öll rými án þess að færa þurfi húsgögn, í gegnum hurðir án þess að fara yfir þröskulda eða basla við þrengsli?).

  2. Er táknmálstúlkun í boði í Barnahúsi?

  3. Er þekking á óhefðbundnum tjáskiptaleiðum í Barnahúsi?

  4. Er þekking á sérstöðu fatlaðra og/eða langveikra barna og unglinga í tengslum við ofbeldi, margþætta mismunun og ólíkar birtingamyndir ofbeldismenningar hjá þessum hópi barna?

  5. Ef eitthvað ofangreint er ekki fyrir hendi að mati Barnahúss hvernig áætlar það að gera viðeigandi breytingar og innan hvaða tímaramma?

Barnahús hefur val um hvort það svarar þessum spurningum og munu svörin verða birt þegar þau berast. Ef svör berast ekki innan fjórtán virkra daga mun Tabú upplýsa um það á heimasíðu sinni að svör hafi ekki borist. Ekki er hægt að óska eftir að svör verði ekki birt á heimasíðu.

5 views
bottom of page