top of page

Yfirlýsing fatlaðra kvenna í Tabú vegna kvikmyndarinnar ‘Me before you’

Við, fatlaðar konur í Tabú, viljum sýna baráttusystkinum okkar í Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar samstöðu, og mótmæla þeim skilaboðum sem kvikmyndin ‘Me before you’ sendir um fatlað fólk en hún byggir á samnefndri skáldsögu Jojo Moyes. Jafnframt mótmælum við því að Sambíóin skuli skilgreina kvikmyndina sem ‘feel-good’ mynd.

Við virðum frelsi fólks til þess að sækja þær kvikmyndir á markaðnum sem því sýnist en teljum það skyldu okkar að deila áhyggjum okkar, sorg og reiði yfir ýmsum atriðum sem varða kvikmyndina og eru meiðandi fyrir okkur sem búum við þann félagslega veruleika að vera fötluð. Það gerum við vegna þess að við teljum mikilvægt að samborgarar okkar taki upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilja fjármagna kvikmynd, sem niðurlægir og smánar fatlað fólk, með því að sækja hana í kvikmyndahús. Einnig gerum við það svo samborgarar okkar séu meðvitaðir um afstöðu fatlaðs baráttufólks ef þeir taka ákvörðun um að sækja kvikmyndina. Hér að neðan má sjá lista yfir það sem við teljum mikilvægt að brýna.

  1. Líf okkar er þess virði að lifa því

Kvikmyndin birtir þá sögu, enn eina ferðina, að það sé betra að deyja en að vera fatlaður. Aðalpersónan Will sem var vinsælt og ríkt kvennagull fatlast í umferðarslysi og verður í kjölfarið mjög þunglyndur og vill enda líf sitt, sem hann gerir og er birtur sem hetja fyrir.

Þessi síendurtekna mýta um fatlað fólk er skaðleg. Flest fatlað fólk er hamingjusamt og lífsglatt fólk sem ýmist þekkir ekki neitt annað en að lifa í sínum fatlaða líkama eða lærir inn á líf í fötluðum líkama. Fötlun er ekki andstæðan við heilbrigði og hamingju þó hún geti verið flókin og kerfisbundið staðsett neðarlega í valdapýramída flestra samfélaga heimsins – enda er lífið ekki ein tvíhyggja. Fötlun er margbreytileiki og á þátt í að skapa fjölmenningarsamfélag. Því ber að fagna.

  1. Við eigum rétt á sálrænum stuðningi og jafningjaráðgjöf til þess að vinna úr ableisma og öðrum áföllum

Í sögunni birtist gremja og óhamingja Will fyrst og fremst í gegnum það að hann telur sig ekki eiga sér framtíð, er hræddur um að vera byrði á sínum nánustu og upplifir líkama sinn ekki nógu sterkan og fullkominn lengur til þess að geta upplifað lífshamingju. Sagan gerir mjög lítið úr áhrifum ableisma á upplifun Will og fjallar lítið sem ekkert um reynslu fatlaðs fólks af sjálfstæðu lífi og þátttöku í samfélaginu. Sagan tekur heldur ekki á mikilvægi þess fyrir fatlað fólk að fá sálrænan stuðning og hitta annað fatlað fólk til þess að spegla sig í. Öðruvísi væri væntanlega ekki hægt að taka upplýsta ákvörðun um að fá aðstoð til þess að enda líf sitt.

Fatlað fólk upplifir mikið misrétti, ofbeldi og býr við mikinn skort á tækifærum sem ófatlað fólk hefur. Jafnframt eru hugmyndir um fatlað fólk mjög neikvæðar og staðalímyndir einsleitar, smættandi og rótgrónar. Það er erfitt fyrir fólk sem hefur verið fatlað frá fæðingu sem og fólk sem fatlast seinna á ævinni. Það krefst mikillar vinnu og úrvinnslu áreitis sem getur stuðlað að kvíða, þunglyndi, áfallastreitu, síþreytu, áhyggjum o.fl. líkt og hjá öðrum jaðarsettum hópum. Í fæstum tilvikum leiðir þetta af sér sjálfsvíg en getur gert það enda er misrétti lífshættulegt á marga vegu. Sagan ‘Me before you’ fjallar ekkert um þetta og tekur þessa líðan fatlaðrar manneskju úr samfélagslegu og sögulegu samhengi. Hún endurspeglar þó þann veruleika fatlaðs fólks, sem birtist gagnrýnislaust í sögunni, að það er auðveldara að fá aðstoð til þess að deyja en að fá aðstoð til þess að lifa. Það eitt og sér er glæpur því við erum verðmætar manneskjur fyrir okkur sjálfum, ástvinum okkar og samfélagi.

  1. Við erum kynverur

Önnur aðalpersóna sögunnar er Louisa, fátæk ung kona, sem er ráðin til þess að aðstoða Will og passa að hann fremji ekki sjálfsvíg (hún er reyndar ekki látin vita af því síðara). Will og Louisa verða ástfangin en Will segist ekki vilja lifa fyrir samband þeirra því þá taki hann í burtu frá henni tækifæri og möguleika í lífinu. Kynlífsatriði eru sýnd í myndinni þegar Louisa sefur hjá fyrrverandi kærastanum sínum en eina líkamlega nándin sem sýnd er milli hennar og Will er þegar hún aðstoðar hann á salernið og við rakstur. Jafnframt kyssast þau. Það er allt og sumt og gefið er til kynna að Will sé ófær um að stunda kynlíf.

Hér birtist enn önnur gömul tugga um kynleysi fatlaðs fólks. Vissulega þarf margt fatlað fólk aðstoð við persónulegar athafnir og sumir fá aðstoð frá maka sínum. Hins vegar getur allt fatlað fólk stundað innihaldsríkt og gott kynlíf ef það vill, með sjálfu sér og öðrum (sem njóta kynlífsins með okkur líka), og fyrst Hollywood vill birta kynlífssenur í kvikmyndum væri tímabært að það sýndi slíkar senur í ástarsögum þar sem fatlað fólk er annars vegar.

  1. Við eigum líkama okkar og því er það fatlaðra leikara að leika þá

Will er leikinn af ófötluðum leikara.

Um heiminn allan er ógrynni af fötluðum atvinnuleikurum og áhugaleikurum sem fá örsjaldan tækifæri. Margar ástæður eru fyrir því en fyrst og fremst þær að nánast aldrei eru fatlaðar persónur sem koma við sögu. Þá sjaldan að kvikmynd fjallar um fatlaða manneskju er hún leikin af ófatlaðri manneskju sem býr ekki yfir reynsluheimi okkar sem lifum í fötluðum líkömum. Ótrúverðugleikinn er algjör. Það er fyrir löngu hætt að láta hvítt fólk leika svart fólk í kvikmyndum enda niðurlægjandi og óviðeigandi í alla staði. Það sama gildir um ófatlaða leikara í hlutverki fatlaðrar manneskju.

Margir eru reiðir við fatlað fólk fyrir að gagnrýna söguna ‘Me before you’ og spyrja hvernig ein kvikmynd/bók/saga geti skipt nokkru máli. Málið er að það er ekki bara þessi eina saga. Þetta er hvorki í fyrsta eða síðasta sinn sem valdamikil öfl eins og bókmennta- og kvikmyndaheimurinn birtir fatlað fólk sem betur dáið en fatlað. Hver man ekki eftir boxaranum í ‘Million dollar baby’ sem fatlaðist og bað þjálfarann að drepa sig í kjölfarið? Sú kvikmynd er sögð byggja á sannsögulegum atburðum en raunin er sú að boxarinn vildi ekki deyja heldur er hún starfandi fötluð listakona í Bandaríkjunum í dag. Dæmin eru mýmörg og því oftar sem saga er sögð verður hún raunverulegri, er eins og olía á fordómaelda og hefur áhrif á viðhorf samfélagsins með þeim hætti að það getur stofnað lífi fatlaðs fólks í hættu.

Fatlað fólk er margskonar. Við erum af ólíkum kynjum og uppruna, kynverund og kynvitund okkar flæðir um rófið allt og við aðhyllumst ólíka trú og lífsskoðanir. Við getum tilheyrt hvaða stétt sem er og við erum staðsett út um allan heim. Það þýðir að við eigum ekki bara eina sögu heldur jafn margar og við erum mörg. Það sem þó bindur þær saman í eina sögu er ekki sagan af því hvernig við þráum öll að deyja. Það er sagan af því hvernig við höfum öll, saman og í sundur, með ólíkum hætti barist fyrir réttindum til þess að lifa og vera til. Sú barátta hefur kostað mörg okkar lífið, bæði fyrir eigin hendi og annarra, og þess vegna er það skylda okkar sem lifum að berjast gegn því að dauðinn sé notaður sem vopn til þess að jaðarsetja fatlað fólk. Það gerum við m.a. með því að segja sögur okkar sjálf.

Fatlað fólk er dýrmætt. Sjálfsvígshugsanir eru oft eðlilegar í krefjandi aðstæðum, t.d. þegar fólk upplifir misrétti. Sjálfsvígshugsanir eru sársaukafullar fyrir fólk sem upplifir þær. Það er hægt að fá hjálp og aðstoð við sjálfsvígshugsunum. Þær geta stuðlað að dauðsföllum. Dauðsföllin eru missir fyrir manneskjuna sem deyr, aðstandendur og samfélagið. Ekkert varðandi sjálfsvígshugsanir og dauðsföll fatlaðs fólks á að valda fólki vellíðan. Því fordæmum við Sambíóin fyrir að lýsa þessari kvikmynd sem ‘feel-good’ kvikmynd. Með því nær fötlunarhatrið nýjum hæðum.

Fyrir hönd Tabú, feminískrar fötlunarhreyfingar,

Arndís Hrund Guðmarsdóttir Ágústa Eir Guðnýjardóttir Ásdís Jenna Ástud. Ástráðsdóttir Ásdís Úlfarsdóttir Bára Halldórsdóttir Embla Guðrúnar Ágústsdóttir Erla B. Hilmarsdóttir Freyja Haraldsdóttir Guðbjörg Garðarsdóttir Hrafnhildur Kristbjörnsdóttir

Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir

Margrét Ýr Einarsdóttir Pála Kristín Bergsveinsdóttir Sigríður Jónsdóttir Þorbera Fjölnisdóttir Þórey Maren Sigurðardóttir

43 views
bottom of page