top of page

Yfirlýsing Tabú vegna fundarboðs allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis

Tabú, feminískri fötlunarhreyfingu, var boðið á fund allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í dag til að ræða breytingar á almennum hegningarlögum – þrengingu ákvæðis um hatursorðræðu. Fundarboðið barst í kjölfar umsagnar Tabú um málið. Lesa má umsögnina hér.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að einn nefndarmanna er Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og einn gerenda í Klaustursmálinu, fór Tabú fram á að hún viki af fundinum þegar fulltrúar okkar kæmu fyrir nefndina. Var það gert vegna þess að Anna Kolbrún varð uppvís að hatursorðræðu gegn fötluðu fólki og öðrum jaðarsettum hópum, sagði ekki af sér í kjölfarið og tók þátt í að kalla Báru Halldórsdóttur fyrir héraðsdóm Reykjavíkur.

Formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Páll Magnússon, brást við erindi Tabú með eftirfarandi hætti í tölvupósti:

„Sæl Embla Fastanefndir Alþingis eru þingkjörnar og hvorki nefndirnar sjálfar né formenn þeirra hafa með það að gera hverjir þar sitja. Ósk um að þið komið á fund nefndarinnar stendur óbreytt. Bestu kveðjur, Páll Magnússon“

Við þetta getur Tabú ekki unað. Hér kemur í ljós hversu alvarlegt það er að Alþingi hafi ekki axlað ábyrgð með afdráttarlausum hætti í Klaustursmálinu og að Klaustursþingmenn hafi ekki sagt af sér þingmennsku. Ekki er hægt ætlast til þess að þolendur þessa ofbeldis mæti gerendum við þessar aðstæður.

11 views
bottom of page