top of page

„Fatlaðar konur þurfa þessa rödd. Þær þurfa að vera sýnilegar og skilgreina sig sjálfar.”

Á hráslagalegum mánudagseftirmiðdegi í byrjun september hitti ég Hönnu Eiríksdóttur, starfandi framkvæmdastýru landsnefndar UN Women á Íslandi, til þess að forvitnast um starfsemi UN Women á alþjóðavísu og á Íslandi, ásamt því að heyra hvernig er unnið að því að styðja fatlaðar konur á átaka- og hamfarasvæðum og í fátækustu löndum heims.

UN Women (United Nations for Entity for Gender Equality and the Empowerment of Women) er sú stofnun Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem vinnur alfarið í þágu kvenna og jafnréttis um allan heim. Stofnunin fer með umboð SÞ til þess að vinna að kynjajafnrétti og að stefnumótun í þróunarstarfi sé unnin með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi í samræmi við alþjóðleg markmið. Jafnframt veitir UN Women tæknilegan og fjárhagslegan stuðning til verkefna sem hafa það markmið að efla réttindi kvenna, stjórnmálaþátttöku þeirra og efnahagslegt sjálfstæði ásamt því að stuðla að afnámi kynbundins ofbeldis.

Íslenska landsnefndin er ein af 14 landsnefndum sem hafa það hlutverk að halda á lofti umræðu um þarfir kvenna í fátækum löndum, kynna starf stofnunarinnar, sinna fjáröflun og hvetja ríkisstjórnir til þess að leggja sitt að mörkum.

,,Íslenska landsnefndin var stofnuð ’89 af nokkrum huguðum konum sem höfðu ástríðu fyrir þróunarsamvinnu og kynjajafnrétti. Helsta verkefni okkar í dag er að hvetja landsmenn til að standa vörð um mannréttindi kvenna í fátækustu löndum heims og styrkja þau fjölmörgu verkefni sem UN Women styrkir um heim allan. Við föngum athygli landsmanna með viðburðum á borð við Milljarður rís og áhugaverðum auglýsingaherferðum. Þá stöndum við einnig fyrir fræðslu bæði í fyrirtækjum og í grunn- og menntaskólum,“ segir Hanna sem hafði fyrir því að koma til heim til mín í Garðabæinn fyrir viðtalið. Það eru því stór mál rædd við eldhúsborðið mitt þennan eftirmiðdaginn.

Fötlun bæði orsök og afleiðing ofbeldis

Mér leikur forvitni á að vita hver staða fatlaðra kvenna sé á þeim svæðum sem UN Women beitir sér á en verkefni á vegum stofnunarinnar fara fram á ákveðnum svæðum í Afríku, Asíu og við Kyrrahafið, Suður Ameríku og Karíbaeyjum, Mið- og Austur Evrópu og í fyrrverandi Sovétlýðveldinu. Hanna segir að vandinn sé misjafn og svæðisbundinn en að staða fatlaðra kvenna í fátækustu löndum heims sé ekki góð.

,,Konur og stúlkur með fatlanir mæta oft meiri fordómum en strákar, þær hljóta oft ekki menntun líkt og aðrir í fjölskyldunni. Þær hafa verri atvinnumöguleika og geta síður eignast fjölskyldu sökum fordóma. Talið er að um ¾ fatlaðs fólks í lágtekju- og millitekjulöndum eru konur. Og meirihluti þeirra býr í dreifbýli. Þannig að hindranirnar erum miklar.” Hanna bendir einnig á að ofbeldi gegn konum almennt sé mjög útbreitt vandamál um heim allan ,,Þar ertu í tvöfaldri hættu, bæði ertu kona og fötluð. Og konur fatlast oft sökum ofbeldis, t.d. vegna barnahjónabanda og barneigna ungra stúlkna.”

En hvað gerir UN Women í alvarlegri stöðu fatlaðra kvenna? ,,Alþjóðasamfélagið tók mjög seint við sér hvað varðar réttindi fatlaðs fólks. Þar er UN Women engin undantekning. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var staðfestur 2006 á meðan Kvennasáttmálinn var staðfestur 1979. Maður hefði haldið að umræðan um réttindabaráttu fatlaðs fólks hefði haldist í hendur við réttindabaráttu kvenna og þeldökkra en ein skýring gæti auðvitað verið að fatlað fólk hefur haft minni tækifæri í gegnum tíðina til að fara út og berjast fyrir réttindum sínum. Innviðin í samfélögum voru ekki í lagi og því urðu hindranirnar svo margar.,” segir Hanna.

Hún segir að mikilvæg skref hafi þó verið stigin undanfarin ár hjá UN Women við að samþætta fötlunarsjónarmið inn í jafnréttisáætlanir; „Hjá UN Women er það í kringum 2013 sem formleg samþætting hefst og er nú unnið hörðum höndum að því að samþætta alla viðkvæma hópa inn í starf UN Women.”

Bendir Hanna á að í Aðgerðaráætlun UN Women 2014-2017 komi krafa um samþættingu fram í C. lið 33. greinar. Þar stendur að stuðla eigi að fullri þátttöku allra kvenna í samfélaginu og að vinna sérstaklega, þar sem það er viðeigandi, að bættri stöðu jaðarsettra kvenna, m.a. fatlaðra kvenna.

Sæmþætting fötlunar- og kynjasjónarmiða þörf

Í ræðu sinni 23. september 2013 segir aðstoðarframkvæmdarstýra UN Women, Lakshmi Puri, að fatlaðar stúlkur og konur hafi alltof lengi verið ósýnilegar og að þær upplifi margþætta mismunun, bæði á grundvelli fötlunar og kyngervis. Fatlaðar stúlkur og konur verði fyrir þrefalt meira kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi og hafi á sama tíma verra aðgengi að félagsþjónustu og stuðningi heldur en fatlaðir karlar og ófatlaðar konur. Bendir Lakshmi Puri á að um leið og þörf sé á að samþætta fötlunarsjónarmið í kynjajafnréttisbaráttuna þurfi einnig að samþætta kynjasjónarmið í baráttu fyrir jafnrétti fatlaðs fólks innan SÞ til þess að koma í veg fyrir gloppur í löggjöf, stefnumótun og framkvæmd á alþjóðavísu.

Hanna tekur undir þessi sjónarmið og segir; ,,Ég hef orðið vör við að alþjóðasamfélagið er farið að átta sig á nauðsyn þess að tengja verkefni saman sem skarast – í stað þess að hver vinni í sínu horni.”

Hún bendir jafnframt á mikilvægi þeirra verkefna sem UN Women styrkir sem sum styðja sérstaklega við fatlaðar konur. Nefnir hún dæmi um tilraunaverkefni í Zimbabve þar sem unnið er að því að veita fötluðum stúlkum og konum aðgengi að réttarkerfinu, t.d. með því að bjóða upp á aðgengilega samgöngumáta á lögreglustöðvar, til lögfræðinga og í dómshús, ásamt því að bjóða upp á túlkaþjónustu, athvörf, mat o.fl. Einnig miðar verkefnið að því að styðja stúlkurnar og konurnar ef þær hafa fatlast sem afleiðing af ofbeldi. Rannsóknir þar í landi sýna að fatlaðar stúlkur og konur verða fyrir miklu ofbeldi í þögn og að þau úrræði sem í boði eru fyrir brotaþola taki ekki mið af stöðu þeirra og áhrifum skerðingar á líf þeirra. Jafnframt er markmið verkefnisins fyrir vikið að upplýsa dómskerfið, lögreglu og aðrar fagstéttir um stöðu fatlaðra stúlkna og kvenna. Verkefnið er að frumkvæði og unnið í nánu samstarfi við samtök fatlaðs fólks.

Heimafólkið skilgreinir hvar vandinn liggur

Hanna leggur ríka áherslu á að UN Women vinnur náið með grasrótinni; ,,UN Women skilgreinir ekki vandann heldur er það heimafólkið sem skilgreinir það og ákveður hvernig best megi leysa hann. Öll verkefnin eru til margra ára, fara í gegnum matsferli og eiga að verða sjálfbær. Það nauðsynlegt að byggja á þekkingu og reynslu þeirra sem vita um hvað málið snýst.”

Í því samhengi bætir hún við hvað rödd kvenna skiptir miklu máli við að vinna gegn misrétti og ofbeldi; ,,UN Women varð til, þökk sé háværra kvenna um allan heim. Það er grasrótin sem nær að knýja fram miklar breytingar í heiminum.” Hún bendir á að samþættingin sé komin inn í aðgerðaráætlunina og víðar sé ekki síst aðgerðarsinnum að þakka og eru fatlaðar konur þar engin undantekning;

,,Við heyrum æ oftar sögur af brautryðjendum. Sem dæmi má nefna fatlaða konu í Pakistan sem fékk viðeigandi stuðning frá fjölskyldu sinni og varð öflug baráttukona í sínu heimalandi þrátt fyrir ungan aldur. Fatlaðar konur þurfa þessa rödd. Þær þurfa að vera sýnilegar og skilgreina sig sjálfar.”

Hugarfarsbreyting langerfiðasta en mikilvægasta verkefnið

Um jafnréttismál er endalaust hægt að ræða en að lokum vil ég vita hvað Hanna telur íslenskt samfélag og fatlaðar konur hér á landi geta gert til þess að vinna að bættri stöðu fatlaðra kvenna í þróunarlöndum. Hún stendur ekki á svarinu;

,,Það er mjög mikilvægt að allir sem vettlingi geta valdið styðji við þau samtök sem starfa á alþjóðavísu, líkt og UN Women, sem styrkir verkefni í yfir 100 löndum. Starfið byggir á mikilli fagþekkingu en einnig er mikilvægt að halda umræðunni á lofti. Þessi umræða fer ekki hátt hér á Íslandi og þess vegna fagna ég Tabú og ykkar starfi.“

Aðspurð hvort hún vilji bæta einhverju við að lokum svarar Hanna einbeitt; ,,Stærsta vandamálið er þegar að fólk lítur á fatlað fólk sem eitthvað góðgerðarmál. Mikilvægt er að koma fólki í skilning um að fólk með fatlanir eru manneskjur með sömu réttindi, langanir og þrár og þú sjálfur. Það kallar á hugarfarsbreytingu sem, við vitum öll, er langerfiðasta verkefnið en jafnframt það mikilvægasta. Sem betur fer er að efna til viðhorfsbreytinga eitt af helstu verkefnum UN Women.

Viðtal tók Freyja Haraldsdóttir

6 views

Recent Posts

See All

„Æi, þessar greyið móðursjúku konur“

Það er grámyglulegur fimmtudagseftirmiðdagur þegar ég banka upp á hjá Báru Halldórsdóttur. Sonur hennar, Leó, opnar fyrir mér ásamt forvitnum og fjörugum fjölskylduhundi, henni Kíru. Mér er vísað inn

Þú ert ekki fötluð, þú haltrar bara aðeins

Rán Birgisdóttir er 18 ára gömul og stundar nám á félagsfræðibraut við Menntaskólann í Hamrahlíð. Þar að auki starfar hún í ritfangaverslun og tekur virkan þátt í Stelpur rokka og Tabú. Við mælum okku

bottom of page