top of page

Yfirlýsing fatlaðra kvenna í Tabú til stuðnings Björgvini Unnari Helgusyni, fjölskyldu hans og öðrum



Um leið og við, fatlaðar konur í Tabú, fögnum því að Hafnarfjarðarbær og Velferðarráðuneytið hafi komist að samkomulagi um að veita Björgvini Unnari Helgusyni og fjölskyldu hans viðeigandi aðstoð svo hann geti flust af spítala og heim til sín, viljum við sýna þeim og öðrum í sambærilegum aðstæðum stuðning. Það viljum við gera með því að vekja athygli á mannréttindabrotum sem framin eru gagnvart þeim, þar sem opinberir aðilar hafa neitað að veita nauðsynlega aðstoð sem myndi tryggja áðurnefnd mannréttindi. Jafnframt skorum við á báða velferðarráðherra ríkisstjórnarinnar, kjörna fulltrúa og embættismenn ríkis og sveitarfélaga að leysa úr tilgangslausu og þvermóðskufullu þrátefli um hver eigi að borga fyrir aðstoð veitta fjölskyldum í þessari stöðu og fötluðu fullorðnu fólki. Kostnaðurinn við vistun fatlaðra barna á stofnunum og sjúkrarýmum Landspítalans, fjarri heimilum sínum og fjölskyldum, er augljóslega hærri en sá sem fellur til þegar fötluðum og langveikum börnum er veitt viðeigandi þjónusta á heimilum sínum.

Komið hefur fram í fjölmiðlum að Björgvin Unnar hefur búið innan veggja spítala allt sitt líf og að eftir veru á spítala erlendis þurfti hann að sæta einangrun á Landspítalanum. Með aðstoð getur hann loks flutt heim, nú þegar þrætum opinberra aðila er lokið. Komið hefur fram að þroski hans var heftur með því að meina honum um að búa heima og umgangast önnur börn. Samrýmist það niðurstöðum rannsókna sem ítrekað hafa sýnt fram á skaðsemi stofnanavistunar barna, niðurstöðum sem íslensk stjórnvöld hunsa samviskulaust, ekki síst í tilviki fatlaðra og langveikra barna.

Í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og í alþjóðasamningunum um mannréttindi, þ.á.m. Barnasáttmálanum og Samningnum um réttindi fatlaðs fólks er því lýst yfir og samþykkt að hver manneskja skuli eiga kröfu á réttindum þeim og frelsi sem þar er lýst, án nokkurs greinarmunar og aðgreiningar. Það á einnig við um fólk með skerðingar, hvort sem um langveikar eða fatlaðar manneskjur ræðir. Þá hefur því verið lýst yfir í þessum mannréttindasamningum að börnum beri sérstök vernd og aðstoð. Hagsmunir Björgvins Unnars hafa ekki verið hafðir að leiðarljósi við ákvarðanatöku opinberra aðila varðandi aðstæður hans, þar til nú. Við vitum jafnframt að fleiri börn í hans sporum eru notuð sem bitbein í átökum ríkis og sveitarfélaga í deilum um greiðslur.

Þessar aðstæður fatlaðra og langveikra barna hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku þeirra til jafns við aðra og bera vitni um grimmilega, ómannúðlega og vanvirðandi meðferð opinberra aðila. Mannréttindi einstaklinga og velferð barna eiga ekki að vera háð því hversu langt opinberir aðilar telja sér fært „að teygja sig“ og að þeir beri fyrir sig að hægt sé að þjónusta einn hóp en ekki annan.

Í nafni mannlegrar reisnar, frelsis og réttlætis skorum við á ráðherra ríkisstjórnar Íslands, kjörna fulltrúa og embættismenn ríkis og sveitarfélaga að bregðast við nú þegar og tryggja að engin fjölskylda þurfi að þola það misrétti sem hér hefur verið lýst.

Við stöndum með þér Björgvin Unnar. Fólkinu sem stjórnar landinu þínu ber skylda til þess að passa að þú getir sofið í þínu rúmi, verið hjá mömmum þínum, farið í leikskólann í hverfinu, eignast vini, þroskast og verið til.

Fyrir hönd Tabú, feminískrar fötlunarhreyfingar, Arndís Hrund Guðmarsdóttir Ágústa Eir Guðnýjardóttir Ásdís Úlfarsdóttir Bára Halldórsdóttir Embla Guðrúnar Ágústsdóttir Erla B. Hilmarsdóttir Freyja Haraldsdóttir Guðbjörg Garðarsdóttir Hrafnhildur Kristbjörnsdóttir Inga Björk Bjarnadóttir Margrét Ýr Einarsdóttir María Hreiðarsdóttir Salóme Mist Kristjánsdóttir Sigríður Jónsdóttir Sóley Björk Axelsdóttir Steinunn Þorsteinsdóttir Þorbera Fjölnisdóttir Þórey Maren Sigurðardóttir

4 views
bottom of page